Dagur þrettán. Fossar í París.

Steinsvaf alla nóttina, aldrei þessu vant, rumskaði ekki fyrr en hálfátta. Ótrúlega mikill lúxus. Jón kom fram rúmum hálftíma síðar og Finnur svolítið seinna. Markaðurinn heimsóttur að vanda (markaðsdagar á miðvikudögum og laugardögum). Keyptum (fyrir utan hin obligatorísku kirsuber) líbanska smárétti í hádegismat (góðir en svolítið þurrir) og svo risa risastór kjúklingalæri með leggjum fyrir kvöldmatinn. Fjögur sett af slíkum vógu nærri tvö kíló! Kaffi, nýbrennt og malað og það voru ekki einu sinni ýkjur, sáum kaffisölumanninn hella úr brennaranum sínum í dallinn sem við keyptum síðan úr, og létum hann mala fyrir okkur. Ótrúlega gaman.  Á markaðnum var hópur af túristum frá hóteli í nágrenninu. Við fastagestirnir urðum auðvitað hundpirruð á þessum ignorant túristum sem þvældust fyrir heimamönnunum. Ussuss!

Kaffi

 

Planið var göngutúr í Parc de Bercy. Jón Lárus hljóp í bakarí og keypti tvær risastórar bagettur fyrir okkur í nesti. Ég fór hins vegar að skoða bókina góðu sem Frakkarnir gáfu okkur og tók eftir öðrum garði, aðeins fjær, sem heitir Parc des Buttes Chaumont. Lýsingin á þeim garði var talsvert meira spennandi en Parc de Bercy. Ákváðum að fara frekar þangað. Nesti smurt, leist ekkert á að við næðum að borða allt þetta brauð þannig að við enduðum á að skipta bara öðru brauðanna niður á okkur. Reyndist líka feikinóg. Finnur vill helst bagettuna sína bara með engu og það var látið eftir honum. Við hin vorum með dijonnaise (frábær uppfinning atarna), skinku og mismunandi osta.

 

Allavega, gengið (og hlaupahjólað) af stað með nesti og nýja skó. Hálfnuð í garðinn og þá fór auðvitað að rigna. Ákváðum að sitja af okkur regnið á næsta veitingastað, settumst inn og pöntuðum okkur smáræði að drekka. Við manninn mælt auðvitað að þá steinhætti að rigna og kom sól. Ójæja. Drukkum rósavínsglasið okkar og nýkreista sítrónusafann og heita súkkulaðið áður en haldið var áfram. Nánast akkúrat þarna hætti París allt í einu að vera nokkurn hlut túristaleg og datt í úthverfi. Minna spennandi götur en svo sem allt í lagi.

Rákumst á þetta flotta graffító á leiðinni

 

Gengum gegn um annan minni garð á leiðinni. Sá reyndist ágætur líka, var með skemmtilegu klifursvæði fyrir Finns stærð þannig að við auðvitað urðum að stoppa þar líka. Finnur pantaði að við færum aftur þangað í pique nique, aldrei að vita hvort það yrði ekki hægt. Í þessum garði hófst hin ógurlegasta tröppuganga. 106 tröppur upp trjágöng. Þar efst uppi var síðan ótrúlega flott útsýni yfir París, Eiffelturninn, Notre Dame, Ljóta húsið! sagði Freyja, og bara allan miðbæinn. Mjög gaman að sjá.

 

Áfram gegn um lítt skrautlegar úthverfagötur þar til við lentum á garðinum sem stefnt var á. Buttes Chaumont. Þessi garður er einn af fjórum lungna Parísarverkefnum Napóleons. Heilmikið hannaður, úr aflagðri grjótnámu og mjög hæðóttur. Gersamlega missti töluna á tröppum upp og niður, fyrir nú utan að oft voru stígarnir bara hallandi og ekki tröppur. Sem var gott fyrir þann hlaupahjólandi af okkur.

 

Skemmst er frá því að segja að ég er snarbúin að skipta um uppáhaldsgarð í París og jafnvel heiminum öllum eins og ég þekki. Þessi garður er ótrúlega skemmtilegur, lækir og fossar og vatn og brýr hátt yfir. Nestið var ekki sem verst, Freyja lýsti því yfir að hún væri búin að finna nýjan næstuppáhaldsmat, eftir alvöru Tagliatelle bolognese. Eins gott við ákváðum samt að gera bara samlokur úr öðru brauðinu, hefði ekki verið fræðilegur möguleiki að borða bæði.

Einn fossanna

 

Trampið þennan daginn var komið upp fyrir átta kílómetra og það var ansi heitt í sólinni þannig að við ákváðum að taka metró til baka. Ekki hjálpaði það nú upp á tröpputalninguna, skiptum um línu á Jaures stöðinni, frá 7a yfir í línu 2 til Nation. Lína 7a reyndist vera lengst niðri í iðrum jarðar og lína 2 á háum palli. Taldi ekki tröppurnar þar en þetta voru örugglega 4-5 hæðir. Ágætt að vera í þokkalegu formi úr Listaháskólanum, á Sölvhólsgötu kenni ég á 4. hæð og þar er sko engin lyfta.

 

Við Finnur fórum beint heim en Freyja fór með pabba sínum að kíkja á vínbúðina sem hann hafði ekki fundið tveimur dögum fyrr. Keyptar tvær spennandi flöskur til að taka með heim og svo löbbuðu þau heim rúma 4 km.

 

Risakjúklingur í matinn og svo var bara gert sem allra minnst um kvöldið. Allir dauðþreyttir.

0 Responses to “Dagur þrettán. Fossar í París.”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: