Sarpur fyrir 21. ágúst, 2012

Dagur tólf. Chill. Já og þrif.

Vaknaði ekki fyrr en klukkan 8, þá var Finnur búinn að vera vakandi frá 7. Hafði pínu á tilfinningunni að hann hefði laumast í tölvuna en vonandi ekki horft á neitt að ráði. (niðurhal takmarkað, munið þið). Ekki margt var á dagskrá þennan daginn en við höfðum einsett okkur að fara ekki út fyrir hússins dyr fyrr en við værum búin að þrífa gólfin. Var orðið óþægilegt að ganga um berfættur, foj. Drógum fram kúst og ryksugu, ég mundi hvers vegna ég þoli ekki ryksugur, allavega týpurnar með ryksugupoka. Fýlan af þessu! Langar í Rainbow eða aðra vatnshreinsandi. Við eigum ekki ryksugu heima (enda nánast engin teppi) en fáum regnbogann lánaðan hjá mömmu og pabba sirka tvisvar á ári til að lemja á teppinu inni hjá Finni og tökum þá yfirleitt sófa og stóla og rimlagardínur í leiðinni.

 

Allavega, fínt að klára að þrífa. Rólegheit og Ólympíuleikar (sund – handboltaleikur Íslands og Túnis var að sjálfsögðu ekki sýndur í Frakklandi). Um eittleytið fórum við í göngutúr í Printemps, ég ætlaði að athuga hvort sjampóið mitt væri til þar, hafði keypt næringu í stað sjampós í fríhöfninni, misminnti hvort mig vantaði. Fann það (húrra) og fékk meira að segja ilmvatnsprufu frá Dior í kaupbæti. Verst að ég nota aldrei ilmvötn, hefði frekar þegið prufu af body lotion eða álíka. Freyja var að leita sér að bikiníi en þetta Printemps var bara ekki með nein sundföt (slappt) þó það væri til endalaust af dragfínum nærfötum. Finnur var á hlaupahjólinu þannig að þeir pabbi hans urðu eftir fyrir utan og fóru í smá rúnt um hverfið á meðan.

 

croque monsieur

Þegar 20 mínúturnar sem við Freyja höfðum gefið okkur í búðinni voru búnar, héldum við áfram út götuna þar til við vorum komin nærri því að hringveginum um París. Stoppuðum á einum stað og fengum okkur croque monsieur og eitthvað að drekka. Við köllum ristuðu samlokurnar okkar heima alltaf croque monsieur og Finnur var búinn að bíða eftir því alla ferðina að fá tækifæri til að panta slíkt. Reyndist svo mikil vonbrigði fyrir hann því osturinn var allt of bragðmikill og með hvítmyglubragði. Ekki hans tebolli. Ég dró hann að landi (hafði ekki pantað mér) og pabbi hans borðaði ostinn sem hann hafði skafið af sneiðunum. Hann mun væntanlega ekki panta sér slíkt aftur og vill sko ekki meina að Frakkar kunni að elda croque monsieur! (djók – en þetta er vísun í sögu af konu í Ítalíuferð fyrr í sumar, sú hafði haft nánast allt á hornum sér alla ferðina og síðast heyrðist í henni talandi við manninn sinn um að: Þeir kunna ekki einu sinni að búa til almennilegan ítalskan mat hérna!!!)

 

Rólega heim, komið við í óprófuðum stórmarkaði, reyndist frekar dýr en keyptum samt smá. Ís með nýja uppáhaldsbragðinu mínu, saltkaramellu, bragðið reyndar frekar útvatnað en við hverju býst maður svo sem af Nestlé?

 

Synkróníseraðar dýfingar þegar við komum heim, ólympískar dýfingar eru bara svo ótrúlega flott grein. Ég væri alveg til í að sjá fleiri dýfingakeppnir en þetta sér maður eingöngu á ÓL. Svo kom flúðasvig (veit ekki hvað það myndi heita á íslensku), virtist fáránlega erfitt, keppandi á kajak í brjáluðum flúðum og þurfti að komast gegn um ákveðna braut. Þrælgaman að horfa. Síðan var skipt yfir á lyftingar – æh gátu þeir ekki haldið áfram með dýfingarnar? Þær voru ekki búnar! Mikið væri ég til, þegar svona viðburðir eru, að eiga interaktíft sjónvarp og geta valið hvað ég horfði á.

 

Um kvöldið var síðan stefnt á víetnamskan veitingastað. Sá var ekki langt í burtu, vorum ekki nema um 10 mínútur að labba þangað, þurftum svo að bakka og taka út pening þar sem á matseðlinum í glugganum stóð að staðurinn tæki ekki kort og við vorum ekki með neitt gríðarlega mikinn lausan pening með okkur.

 

nei, glasið í bakgrunninum er ekkert sérstaklega lítið

Höfðum vonast til að uppáhalds víetnamski rétturinn okkar, Thit kho to myndi fást en það gerði hann nú ekki. Við Jón féllum bæði fyrir karamelliseruðum kjúklingi, Freyja nautakjöti með lauk og Finnur súpu með nautakjöti og núðlum. Auðvitað kom svo maturinn með gríðarmagni af kóríander – sem betur fer bara ofan á matnum og auðvelt að plokka í burtu. Nema auðvitað af súpunni – en sem betur fer kom þarna í ljós að Finnur hefur ekki erft kóríanderóþol foreldranna og borðaði sitt með bestu lyst. Við hin bjuggum til kóríanderfjall á servéttunni hennar Freyju.

 

Fyrir utan þetta var maturinn frábær. Smá misskilningur milli okkar og þjónsins reyndar, Freyja drekkur ekki gos og við vorum að reyna að komast að því hvort límonaðið sem var á matseðlinum væri með gosi. Skildum hvorki fram né til baka og enduðum á að panta það fyrir báða krakkana. Svo reyndist þetta auðvitað vera gosvatn og Finnur neyddist til að drekka bæði glösin.

 

Súpan hans Finns var síðan svo mikil að hún hefði örugglega dugað fyrir þrjú okkar. Hinir skammtarnir voru sannarlega ekki litlir heldur, ég og Freyja gáfumst báðar upp án þess að geta klárað, Jón átti ekki séns í að draga neitt að landi og Finnur, eftir að hafa borðað örugglega tuttugu mínútum lengur en við hin (alltaf flókið að borða súpu með prjónum) gafst upp fjórum til fimm sentimetrum frá því að klára súpuna.

 

Fengum ekki leyfi til að kaupa glas merkt víetnömskum bjór, heim og Ólympíuleikar restina af kvöldinu. Gaman að horfa á Suður-Afríkustrákinn slá út Phelps í 200 metra flugsundi, tilfinningarnar báru hann algerlega ofurliði.


bland í poka

teljari

  • 371.493 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa