Sarpur fyrir 20. ágúst, 2012

Dagur ellefu. Makrónukökur

Vaknaði klukkan sjö eins og venjulega, framúr og smá net. Gaurarnir vöknuðu ríflega klukkutíma seinna. Finnur fékk kortérið sitt í tölvunni (netnotkun takmörkuð vegna niðurhals, sjá fyrri færslur) og svo kveikti hann á sjónvarpinu og ætlaði í Xbox tölvuna í leikinn sinn. Hitti þá á frönsku Eurosport lýsendurna alveg í botni í æsingnum, verið var að synda fjórum sinnum hundrað metra skriðsund (já veit, „frjáls aðferð“ en það syndir jú enginn það nema á skriði). Franska liðið lá í öðru sætinu, svona fjórðungi úr metra eftir bandaríska liðinu. Þar til á síðasta sprettinum, rétt undir lokin, þá seig sá franski fram úr og liðið vann. Við gríðarlegan fögnuð lýsendanna (hann ÁT besta sundmann í heimi! FEIS!). Hrikalega gaman að sjá þetta.

 

Svo eftir hálftíma auglýsingar kom – hokkí. Finnur fékk leyfi fyrir Xbox. Ýtt við Freyju. Skutumst í búð eftir brýnustu nauðsynjum, meiri bjór ossona, hádegismatur á línuna og svo út.

 

Byrjuðum á Avenue Haussmann. Freyja vildi endilega kíkja inn í stóra H&Mið á horninu, við Jón drógum Finn með okkur í barna- og unglingadeildina á meðan eldri unglingur frílystaði sig í sinni deild. Drengurinn skyldi fataður upp. Uppgötvaði mér til mikillar furðu að honum þykir appelsínugulur flottari en fjólublár. Óskiljanlegt. Allavega fékk hann skærappelsínugula hettupeysu, svartar gallabuxur, appelsínugul- og bláröndóttan bol og gráa hneppta peysu. Og sokka. Drengnum reddað fyrir (gasp!) skólabyrjun eftir tæpan mánuð. (í skrifandi stund eftir tvo daga, enn meira gasp).

 

Við Freyja höfðum afgreitt Lafayette kvennamegin nokkrum dögum fyrr og farið upp á þak, ákváðum að nenna ekki því húsi aftur, tókum út gourmethlutann, fengum að smakka þokkalegt en rándýrt kampavín hjá sölukonu sem var síðan endalaust að sýna okkur pínulitlu flöskurnar sem væru passlegar í ísskápinn á hótelinu. Nenntum ómögulega að leiðrétta hana. Og jafnvel þó við hefðum verið á hóteli erum við fullfær um að deila heilli kampavínsflösku milli okkar tveggja, þyrftum ekki svona 1/4 stærð. Þó tvær hefðu verið. Sáum hins vegar risastórar flöskur þarna líka, ég held þessi stóra þarna heiti Metúsalemog sé 6 lítrar.

Metúsalem og frændur

 

Maður missir alveg áttirnar í svona gígantískum gúrmeibúðum, enduðum á því að kaupa bara einn pastapakka og einn súkkulaðipakka. Langaði í allt.

 

Þá hinn staðurinn, hvað heita svona department stores á íslensku? Printemps. Fórum í vitlaust hús fyrst, upp á áttundu hæð og komumst ekkert ofar. Þar var reyndar hrikalega flotta veitingahúsið undir kúplinum, þess virði að sjá þó við tímdum nú ekki að setjast þar og borða neitt. Ég fékk mér hvítvínsglas þar með Suzukidömunum þegar við fórum í námsferð til Parísar 2008. Í eystri byggingunni var hins vegar hægt að fara alla leið upp á þak. Stórkostlegt útsýni og magnað að vera þarna alveg ofan í gylltu kúplunum á húsunum. Keyptum okkur ekkert á þakveitingahúsinu heldur en það var reyndar ekki vegna þess að við tímdum ekki, þar var ekkert óhemju dýrt, heldur út af næsta stað sem stefnt var á.

 

Sem var semsagt makrónukökustaðurinn, Ladurée. Flettið upp makrónukökum (macaroons) í París og Ladurée dettur inn í flestum niðurstöðunum. Pantaði mér kökur með lakkrís, saltaðri karamellu, sítrónu og hindberjum. Allar mjög góðar, lakkrísinn hefði mátt vera pínulítið bragðmeiri, en bæði sítrónan og sérstaklega saltkaramellukakan var gersamlega himnesk, Held svei mér þá að saltkaramella sé nýja uppáhalds bragðtegundin mín. Einhvern veginn get ég samt ekki alveg ímyndað mér að Kjörís eða Emmess muni búa til svoleiðis ís í nánustu framtíð. Mætti samt alveg skjóta því að Sandholt að prófa…

 

Þau hin voru líka mjög ánægð með sitt, kaffimakrónan (Jón og Freyja) var síst. Finnur pantaði sér reyndar ekki makrónur heldur súkkulaðilúxusköku. Heita súkkulaðið krakkanna var himneskt, ótrúlega þykkt og ríkt. Drykkirnir okkar krakkanna voru líka bornir fram í svo yndislega flottum og gamaldags könnum. Þeir kunna líka að laga te, láta vatnið ekki sjóða eins og gert er á nánast öllum kaffihúsum, allavega heima. 80° er málið (mig langar í ketil sem maður getur valið að slökkvi á sér við 80°. Slíkir eru til, en dýrir).

Makrónukökur og te

 

Eftir Ladurée var strikið tekið á Place de la Concorde og þaðan í gegn um Tuileries garðinn að Louvre. Ég hef aldrei áður gengið í gegn um Tuileries garðinn þó ég hafi komið báðum megin að honum og nánast hringinn. Held ég hafi nefnt það áður, en mér finnst svo mikil snilld við þessa Parísarferð að vera nógu lengi til að geta gert hundrað hluti sem ég hef aldrei haft tíma til áður. Fyrir utan að taka aðal túristastaðina einu sinni enn, fyrir krakkana.

 

Meðfram stórum hluta garðsins er lítið tívolí með slatta af tækjum. Sum voru algjör hryllingur að mínu mati, kúla sem tveir gátu setið í og var þeytt upp í loftið eins og í risastórri teygjubyssu, oj! Nei takk, ekki fyrir mig! Krakkarnir prófuðu einn stuttan vatnsrússibana en fengu ekki leyfi fyrir fleiru, enda var stefnt á Ástríksgarðinn (Parc Asterix) örfáum dögum síðar.

 

Gengið upp að Louvre, gegn um pínulitla sigurbogann, horfðum á hina tvo í gegn um hann, frekar magnað. Engin röð inn í Louvre aldrei þessu vant, giskuðum á að það væri lokað fyrir aðgang klukkan fimm (klukkan var rétt rúmlega), þó safnið sé væntanlega opið lengur þýðir jú ekkert að hoppa þarna inn fyrir nokkrar mínútur (nema þá til að hlaupa og skoða Mónu Lísu, sem er versta ástæða í heimi til að fara í Louvre – sé það eina ástæðan). Ég hef reyndar mjög takmarkaðan áhuga á Louvre en við plönuðum Dali safnið og Orangerie, Picasso safnið var lokað vegna viðgerða því miður.

Við krakkarnir rukum heim í metró, en Jón stefndi á eina vínbúð til – rétt hjá sagði hann, 6 brúm vestar sagði ég – og nei takk það er ekkert rétt hjá. Var síðan ágætt að við strækuðum, þar sem búðin er alls ekki opin á mánudögum. Þar slapp hann við smá röfl frá okkur…

Lasagna úr kjötborði Franprix í kvöldmat, mjög fínt miðað við að vera ekki heimatilbúið. Óratíma að skrifa þessa færslu. Meiri ólympíuleikar. Fínn dagur.


bland í poka

teljari

  • 374.140 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa