Sarpur fyrir 19. ágúst, 2012

Dagur tíu. Upsagrýlur. Ekki.

Vöknuðum ákveðin í því að klifra alla leið upp í turn á Notre Dame. Þrátt fyrir allar tröppurnar (sem eru reyndar ekkert mikið fleiri en upp að Sacré Coeur sem enn var eftir á listanum). Drifum okkur niður á Nation metróstöðina eftir morgunmat, ætluðum í Línu 1 beint niður að Hótel de Ville, rétt hjá Frúarkirkjunni. Þar var fyrsta hindrun. Viðgerð á línu eitt, lokuð til tólf. Vorum smá stund að ákveða hvernig væri best að fara, komumst niður á leið. Ekki stórmál, hoppuðum út við Pompidou safnið til að sýna krökkunum, Freyju þótti byggingin óhugnanlega ljót (enda er hún ekki þekkt fyrir smáfríðleika sinn beinlínis). Finni þótti hún hins vegar töff. Biðröð inn, byggingin var að opna, ákváðum að kíkja þangað aftur á heimleiðinni og skoða innviðina.

Finnur á núllpunkti

Á torginu við Hótel de Ville var búið að setja upp risaskjá með Ólympíuleikunum og það var hægt að leigja sér grjónapúða og liggja fyrir framan og horfa. Slepptum því nú samt. Áfram yfir á eyju. Þá reyndist mörghundruð metra röð til að komast upp í turn. Okkur Jóni og Finni þótti full vel í lagt að standa klukkutíma í biðröð til að þurfa að borga fyrir að labba upp 250 tröppur. Freyja var samt hálffúl en við lofuðum henni að við myndum prófa síðar, kannski einhvern tímann í rigningu, athuga hvort ekki yrði styttri röð. Þannig að ekki skoðuðum við upsagrýlurnar í návígi í þetta skiptið. Freyja náði samt myndum af nokkrum, neðan frá jörðu. Römbuðum í þetta skiptið á Point Zéro sem við fundum ekki fyrir mannþröng í fyrra skiptið.

Til baka yfir á meginlandið, Freyja keypti sér Parísarmynd í túristasjoppu og við fengum okkur rándýran Häagen Dazs ís, þarf ekkert að gera það aftur í þessari ferð. Hann var bæði dýrari og alls ekki eins góður og Berthillion ísinn. Kostur samt að það var engin röð (já skrítið…)

Aftur að Pompidou og núna var engin röð, beint inn. Það er að segja eftir að við horfðum á ótrúlega skemmtilega lúðrasveit leika listir sínar á torginu fyrir framan. Skemmtilegasta við torgið við Pompidou, það er alltaf svo margt að gerast þar fyrir utan. Held það sé bara alveg spontant, efast um að það þurfi leyfi.

Fórum ekki á listasýningu í þetta skiptið, rákum augun í að fyrsta sunnudag í mánuði væri ókeypis inn þannig að við ákváðum að kíkja aftur viku seinna. Búðirnar í Pompidou eru alltaf alveg ógurlega skemmtilegar, ég hefði auðveldlega getað verslað fyrir 500 evrur en eina sem við keyptum voru minjagripir handa dóttur og tengdasyni. Finnur keypti sér samt smá, einhvern tístandi marglitan segulfugl. Í bókabúðinni rákumst við svo á pínulego og hann keypti sér svoleiðis líka, legóvíólu.

Í rúllustigana utan á Pompidou komst maður ekki nema að vera annaðhvort að fara á safnið eða í veitingahúsið, slepptum því í þetta skiptið.

Rákumst á voðalega spennandi veitingahús/vínbúð á leiðinni á metróstöðina en það var bara ekki búið að opna þannig að við drifum okkur uppeftir. Beikon og egg biðu okkar. Héldum við. Svo fundum við hvergi beikonið sem ég hefði getað svarið að væri í ísskápnum. Eggjakaka með pylsu og basil varð þrautalendingin. Horft á Formúluna og svo út í göngutúr, höfðum spottað garð kenndan við Söruh Bernhard. Fínn labbitúr en ég hugsa krakkarnir hefðu nú notið garðsins betur ef þau hefðu verið svona 8 árum yngri. Gerði lítið til samt, gangan stóð fyrir sínu. Gríðarflottar súlur sem ramma inn Nation torgið. Rákumst á veitingastað sem er með píadínur á matseðlinum, það skyldi prófast.

Finnur á hlaupahjólinu við Nation torgið

Stórfurðulegt var að sjá stóra Printemps búð við götuna, furðulegt vegna þess að ég þóttist hafa séð hana úr leigubílnum um morguninn þegar við komum til Frakklands. Fór nefnilega að leita að henni en hún bara gúglaðist alls ekki. Prófið að gúgla Printemps Paris locations. Þar sést eingöngu aðalbúðin við Boulevard Haussmann. Ég hélt hreinlega að ég hefði séð ofsjónir af þreytu þarna um morguninn en svo var búðin bara þarna. Nýju sandalar stóðust þriggja kílómetra göngu, opinberlega gefnir út sem borgarskór.

Marineraðar svínasneiðar af markaðnum ásamt sætum kartöflum og kúrbít elduðum í Le Creuset fati (laaaaangar í!) og ógurlega góðu hrásalati í kvöldmatinn. Matarklám ég? naaah…


bland í poka

teljari

  • 371.493 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa