Dagur níu. Promenade plantée

Við Jón vöknuðum um hálfáttaleytið og kveiktum á sjónvarpinu, Ólympíuleikarnir að byrja. Opnunarhátíðin hafði verið kvöldið áður, við mismikla hrifningu facebookvina. Eurosport hins vegar tók allan morguninn í að sýna opnunarhátíðina aftur, í stað þess að sýna það sem var að gerast. Fundum hvergi stöð sem sýndi keppni. Tékkaði á útvarpi allra landsmanna og að sjálfsögðu var þar verið að sýna undanrásir í sundi. Ekki samt á netinu. (ekki að við hefðum horft á það, á takmarkaða niðurhali Frakkanna okkar).

Skutumst á markað til að kaupa kirsuber, basil, mozzarella, brauð og rósavín. Auðvitað féllum við fyrir aðeins meiru, til þess eru jú markaðir. Krakkarnir urðu eftir heima. Undir hádegið kom svo smá bein útsending frá ÓL, skotfimi, en þá vorum við á leiðinni út og létum útsendinguna ekki kyrrsetja okkur.

Promenade plantée

Fyrir valinu þennan daginn hafði orðið mjög spennandi gönguleið, Promenade plantée. Hún liggur frá Bastillutorginu (næstum því, frá upphafi Avenue Daumesnil) og alla leið út fyrir borgina. Þetta er járnbrautarspor sem var aflagt 1969 og gerður göngustígur í staðinn. Liggur yfir götur og gangstíga og hús, meðfram henni og sums staðar yfir er plantað heilmiklum gróðri. Gríðarlega skemmtileg ganga og flott útsýni sums staðar. Rétt þegar við vorum komin upp urðum við vitni að alvöru frönsku rifrildi. Á götunni beint fyrir neðan okkur stoppaði bíll, kona í farþegasætinu reif upp hurðina, stökk út og hljóp hinum megin við bílinn. Orgaði á bílstjórann, sýndist það vera stelpa en sá ekki vel hve gömul, sú maldaði eitthvað í móinn, sú fyrri löðrungaði bílstjórann og skipaði að hunzkast í farþegasætið. Hin hlýddi, sú fyrri vippaði sér í bílstjórasætið og keyrði burt. Einu sinni urðum við vitni að ítölsku rifrildi og nú höfðum við séð franskt dittó. Á göngustígnum uppgötvaði ég að gleraugun mín voru brotin. Bögg, þrátt fyrir að þetta væru bara ódýr Hagkaupsfjarsýnisgleraugu (mig langar miiiiikið í lasik síðan ég sá að þeir eru farnir að meðhöndla aldurstengda fjarsýni). Allavega var ég með önnur gleraugu heima í húsi þannig að þetta var nú svosem engin katastrófa.

Kíktum á Opéra Bastille, Freyja var aldeilis ekki hrifin af byggingunni og fannst hún forljót, sérstaklega miðað við gömlu óperuna. Því miður eru engar óperusýningar í gangi yfir hásumarið, annars hefði verið ógurlega gaman að fara á einhverja flotta sýningu.

Gengum heim eftir Rue du Fouberge Saint-Antoine, rak augun í hroðalega flotta græna og hvíta handtösku og splæsti í hana. (mín ástralska tveggja ára gamla var farin að láta á sjá). Vorum svo búin að lofa krökkunum að setjast inn á créperiestaðinn rétt hjá okkur og fá okkur crepu. Hann reyndist síðan lokaður þannig að það fór aðeins út um þúfur. Lítil hrifning. Heim, áttum crépur með sykri í ísskápnum, hituðum þær og settum nutella á. Ekki alveg eins gott og á crépustað en ágætis sárabót samt.

Jón Lárus náði að horfa á tímatökuna í Formúlunni, eftir það kom ógurlega löng og ekki sérlega skemmtileg klippa sem maður hefði getað svarið að Ingólfur Hannesson hefði sett saman. Hvað er með samsetningar af slysum og óhöppum í íþróttum? Ég bara næ ómögulega upp í hvað er skemmtilegt við að horfa á fólk meiða sig og klúðra. (já þarna meiddust alveg pottþétt nokkrir). Eftir það kom reyndar hjólakeppni sem var alveg hörkuspennandi (allavega undir lokin). Ég sofnaði samt yfir henni, alveg að farast úr syfju. Krakkarnir fengu síðan leyfi til að svissa yfir í tölvuleikinn sinn, Lego Pirates of the Caribbean.

Svo datt inn sms. Kattalúgan heima hafði brotnað og stóð nú galopin. Þetta hefur gerst áður og Jóni Lárusi alltaf tekist að laga hana. Sendum leiðbeiningar en það gekk ekki, þannig að Frakkarnir þurftu að fara í Dýraríkið og kaupa nýja lúgu. Bauðst til að Fífa færi með þau þangað en þau vildu ekki heyra á það minnst, kortér með strætó, engin ástæða til að ómaka hana. Ég heimtaði allavega að þau segðu mér hvað hún kostaði, ætlaði aldeilis ekki að þau þyrftu að borga nýja lúgu, rándýrt dót. Mjög leiðinlegt að þetta skyldi einmitt gerast á þeirra vakt. Lúgan var reyndar eldgömul og orðin ansi léleg en ég hélt nú ekki að hún myndi detta endanlega í sundur akkúrat á þessum þremur vikum. Sérstaklega súrt vegna þess að við höfðum hugsað okkur, þegar þyrfti að skipta um lúgu, að fá þá lúgu sem maður gæti látið setja örmerkingu í eyrað á kisu sem opnaði lúguna, þá gæti hún ekki týnt aðgangnum sínum ef ólin hennar slitnaði. Eins og hefur gerst nokkur skipti.

Tómata- og mozzarellasalat

Tómata- og mozzarellasalat í kvöldmatinn. Gæti vanist þessu. Tókst reyndar ekki að láta það líta eins skrautlega út, þar sem við keyptum mozzarelluna á ítalska básnum á markaðnum, sölumaðurinn varaði okkur við að það þyrfti að borða hann mjög fljótlega því hann geymdist ekki vel, það var svo ekki nokkur leið að skera hann í fallegar sneiðar þannig að það endaði á því að þetta varð salat í skál. Bragðið var jafnvel enn betra en fyrri daginn, samt.  Alveg væri mér sama þó kúlan af svona mozzarella kostaði þúsundkall heima, ég myndi samt splæsa í það stundum!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: