Sarpur fyrir 14. ágúst, 2012

Dagur fimm. Splitt

Þessum degi hafði verið ákveðið að eyða í búðaráp. Unglinginn langaði voðalega að kaupa sér föt en við vissum sem var að sá stutti myndi ekki njóta slíks ráps. Ekki að ræða það að hann yrði eftir einn heima þannig að við plottuðum að finna eitthvað sem hann hefði áhuga á og pabbi hans færi með honum þangað en ég elti Freyju í HáOgEmmin.

Krakkarnir á líbanska staðnum

Fyrst var samt planið að fara á uppáhalds veitingastaðinn okkar Jóns, L’Incroyable, á Rue de Richelieu. Frábær staður með ekta frönskum heimilismat, sérstaklega góðum kökum í desert og víni hússins í karöfluvís. Okkur til sorgar virtist sem staðurinn væri hættur, byrgt fyrir glugga og ekkert sem gaf til kynna að um tímabundna lokun væri að ræða. Eigum samt eftir að kíkja aftur þangað í von um að eitthvað líf leynist með staðnum.

Í staðinn fórum við yfir götuna og rötuðum á líbanskan veitingastað. Það reyndist hin besta ákvörðun, sérstaklega voru grilluðu lambaspjótin okkar Finns frábær, ásamt rauða kúskúsinu og jógúrtsósunni sem fylgdi réttunum.

Löbbuðum niður á Rue de Rivoli og þar skildu leiðir. Jón Lárus og Finnur stefndu á uppfinningasafnið í Palais de la découverte en við Freyja í búðir. Svo sem ekki frá miklu að segja, unglingurinn keypti sér einar 12 flíkur og ég ekkert. Nei skrökva því, keypti mér fjólubláa alpahúfu og klút í stíl. Í túristabúð, ekki H&M. Karlpeningurinn skoðaði safnið og fór í Planetarium, dauðsáu reyndar eftir að hafa ekki haft talsvert betri tíma, Finn langaði að sjá efnafræðihlutann og píhlutann og margt fleira sem ekki reyndist tími til. Fóru svo síðan í uppáhalds vínbúðina okkar, Lavinia, til að kaupa smá lúxusvöru.

Citron pressé

Mæltum okkur mót við Lafayette, við vorum svolítið fyrr á ferðinni og stoppuðum á veitingahúsi til að fá okkur að drekka, maður var endalaust þyrstur í hitanum. Freyja drekkur ekki gos en vildi límónaði, við fundum stað sem seldi slíkt (Café Opera eða álíka á götunni upp að gömlu Óperunni). Þjónninn spottaði okkur strax sem túrista og ávarpaði á ensku en svo pantaði ég á frönsku og ruglaði hann alveg í ríminu. Ég kann vægast sagt litla frönsku, rétt svo get reddað mér að panta á veitingahúsum, en er hins vegar með þokkalegan framburð þannig að fólk heldur alltaf að ég tali miklu meira en ég síðan geri. Allavega fengum við límónaði og Orangina, þjónninn hélt síðan auðvitað að unglingurinn vildi gosið en sú fullorðna límonaðið og plantaði því fyrir framan mig. Það var borið fram svolítið flott, nýkreistur sítrónusafi sem fyllti hálft glas, lítil vatnskarafla (reyndar með besta vatni sem við fengum í ferðinni) og svo sykur til að sæta. Freyja ætlaði aldrei að hætta að hella sykri, mömmunni ofbauð alveg. Þetta varð síðan uppáhaldsdrykkur krakkanna í ferðinni, fékkst nánast alls staðar. Finnur gat á endanum pantað sér það sjálfur, meira að segja.

Nú svo fundum við Lafayette og skoðuðum smá, unglingurinn keypti sér eina flík til og við enduðum uppi á toppi. Frábært útsýni frá þaki Lafayette. Jón Lárus hringdi akkúrat þegar við vorum þar uppi, þá voru þeir feðgarnir að lenda. Mæltum okkur mót við götuna milli húsanna tveggja sem Lafayette fyllir. Komum á svipuðum tíma, Finnur var orðinn gersamlega búinn á því þannig að í staðinn fyrir að kíkja á gúrmeibúðina í hinu LaFayettehúsinu drifum við okkur á Opéra metróstöðina (sem við vissum um), fundum þar út að við gætum tekið lest eina stöð og þar næðum við lestinni sem stoppaði næst íbúðinni okkar. Flott. Þar til við sáum að lestin fór til baka og við hefðum getað tekið hina lestina beint frá stöð sem heitir, já La Fayette og var talsvert nær staðnum sem við vorum á þegar við lögðum af stað til Opéra stöðvarinnar. Nevermænd, vitum það þá næst. Stefnum á að kíkja aftur á LaFayette og Printemps.

Restin af austurlenska matnum í matinn og afslöppun. Ekki sem verst. Sérstaklega að sitja úti á svölum með rósavínsglas vegna þess að rauðvín er of heví fyrir hitastigið. Sérstaklega að vera nánast of heitt klukkan tíu, úti á svölum. Sérstaklega að spjalla við nágrannann á frönsku og skilja nánast allt (sko Jón en ekki ég). Er þetta lífið eða er þetta lífið?


bland í poka

teljari

  • 373.923 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa