Sarpur fyrir 12. ágúst, 2012

Dagur þrjú. Vor frú og ís

Daginn þennan var stefnt á eyjarnar. Fyrsta metróferðin, loksins, sagði Finnur. (Svo var hann auðvitað fljótur að verða blasé).

Byrjuðum á Notre Dame, stutt röð og labbað gegn um kirkjuna. Fallegur kórsöngur en við fundum hvergi kórinn. Alltaf eru gluggarnir nú jafn fallegir. Enga stillansa var að sjá, ég held þetta sé í fyrsta skipti sem ég sé kirkjuna án viðgerðar- eða hreinsunarstillansa. Enda var hún ekki svört lengur.

Berthillion bragðtegundir

Gengum sunnan við kirkjuna til að fara út á næstu eyju. Tókst þar að láta gabba okkur (held ég), við brúna milli eyjanna stóð hópur af stelpum að safna undirskriftum að við héldum. Virtust mállausar og væru að safna fyrir málleysingja. Héldu á spjöldum með merkjum frá Unesco og Amnesty og Rauða krossinum og ég veit ekki hverju. Svo átti maður auðvitað að skrifa hvað maður vildi gefa. Ég henti í þær tíu evrum, svo vildu þær annað eins frá Finni, (þar neitaði ég) Jón rétti sinni tuttugu og hélt hann myndi fá til baka en það gerðist að sjálfsögðu ekki. Neituðum að greiða stelpunni sem Freyja skrifaði hjá neitt. Heimsku túristarnir fóru semsagt þrjátíu evrum fátækari frá stelpunum og ég á eftir að sjá málleysingja fá eitt einasta sent af þessu.

Röðin í Berthillionísbúðina var stutt, hægfara en vel þess virði. Smökkuðum 8 mismunandi bragðtegundir, ég var hrifnust af karamellu með söltuðu smjöri. Ótrúlega góður ís.

Þá var nánast kominn tími á að eltast við lokin á Tour de France. Ákváðum  að labba, ekki svo langt frá endanum á eystri eyjunni að Champs Élysées. Gengum niður meðfram Signuströndinni og ákváðum að þangað þyrftum við ekkert að fara. Hvað er spennandi við strönd ef maður getur ekki farið í sjóinn (eða ána)? Bara sjóðandi heitur sandur og ekki möguleiki að kæla sig niður. Úff.

Alveg að bráðna í sólinni, settumst inn á stað og fengum okkur að drekka. Finnur pantaði aftur tiramisú ásamt safa að drekka (við hin bara drykki) og einhvern veginn misskildi þjónninn hann, hann fékk bara safann, þannig að þetta var önnur tiramisúpöntunin sem fór út um þúfur hjá honum. Frekar erfitt.

Þá var plampað fram með öllu Louvre til að komast við endann á Champs Elysées. Fórum eins langt og við komumst, það var auðvitað troðið, allir að bíða eftir hjólaköppunum. Áreiðanlega meira en 30° hiti í sólinni. Biðum þar í þokkalegustu stöppu fólks í meira en hálftíma. Finnur var orðinn ansi þreyttur á þessu en við tókum hundraðogelleftu meðferð á hann og hann fékk að bíða áfram með okkur. Vorum reyndar heppin, fyrir aftan þvöguna birtist sjúkrabíll sem þurfti að komast fram hjá, hópurinn þurfti að víkja til hliðar og þegar hann var kominn framhjá náðum við að komast svo sem eins og tveimur röðum nær þannig að við sáum götuna þar sem hjólagengið fór framhjá. Þarna var ekki pláss fyrir neitt personal space.

Svo komu þeir. Í einni þvögu. Við sáum fyrst ekki mikið, rétt í skottið á þeim. Þá fóru einhverjir sem voru þarna fremstir í þvögunni þannig að við komumst örlítið framar. Hinkruðum eftir öðrum hringnum hjá genginu. Sáum þá svo ansi vel þegar þeir komu í annað skiptið framhjá. Þá var þetta nú orðið nokkuð gott og við drifum okkur út úr hópnum.

Pelotónninn

Gersamlega búin á því, næsta metróstöð og heim. Lákum niður í sófa og stóla. Úff. Sátum svo úti með rósavínsglös á svölunum hálft kvöldið og lásum. Unaður, eftir að sólin var farin af svölunum.


bland í poka

teljari

  • 373.923 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa