París dagur tvö. Markaður og jurtagarður

Vorum búin að ákveða að vakna nú ekki of seint, Jón talaði um að vakna klukkan átta en ég gat nú talað hann ofan af því – feikinóg að vakna níu svona í fríinu. Nægur tími til stefnu. Hefði verið allt annað mál ef við hefðum bara verið í helgarferð og ætlað að ná að gera ALLT í París. En ekki svo, þrjár vikur höfðum við til stefnu.

Vaknaði síðan um tvöleytið um nóttina og fannst endilega Loppa vera til fóta í rúminu mínu, eitt andartak áður en ég áttaði mig á því að það væri víst ómögulegt. Þá sat Finnur þar og spilaði á Nintendo DS vélina sína. Hafði ekki getað sofið í sínu herbergi og flutt sig til okkar en sofnaði samt ekki strax. Ég tók af honum tölvuleikinn og sagði að hann mætti sofa uppi í hjá okkur þessa nótt.

Við steinsofnuðum strax. Ég vaknaði síðan um hálfátta og laumaðist fram úr. Kíkti á netið og las svolitla stund og vakti síðan hin klukkan hálftíu. Reyndist feikinóg.

Þennan dag var stefnt á stóran matarmarkað sem er haldinn á laugardögum og miðvikudögum. Dýrka svona markaði, endalaust af ávöxtum, grænmeti, kjötvörum , sveppum, brauði og fleiru. Keyptum slatta inn fyrir daginn og næstu daga (þrjár týpur af osti í viðbót, áttum þá sjö) .Heim aftur, hádegismatur og svo drifum við okkur af stað í göngutúr í Jardin des plantes.

Freyju crépe

Góður göngutúr þangað, um 4 kílómetrar, Finnur var hálfpirraður enda svefninn ekki alveg kominn í lag hjá honum eftir fyrrinóttina. Skapið lagaðist þó talsvert þegar við settumst inn á veitingahús og fengum okkur hressingu. Mismunandi crépes, Nutella, Grand Marnier og sulta (sem reyndist vera marmelaði) með rjóma, Finnur ætlaði að panta sér tiramisú en það var ekki til þannig að hann fékk súkkulaðibúðing í staðinn. Konan í veitingahúsinu skildi ekkert í því að við fengjum okkur bara desert og bauð okkur að kaupa steik líka. Slepptum því nú samt. Þjónninn ætlaði heldur ekki að trúa því að við vildum kaupa dökkan bjór, þráspurði okkur að því hvort við værum örugglega að velja Pelforth brune, ekki blonde. Skil ekkert í þeim.

Grasagarðurinn, Jardin des plantes er uppáhaldsgarðurinn okkar Jóns Lárusar, síðan við komum til Parísar í annað skiptið, frá Danmörku og áttum afskaplega lítinn pening, eyddum síðasta deginum í garðinum.

Garðurinn flottur að vanda, höfum samt stundum séð hann í meiri blóma. Jón fór með krakkana inn í stóra gróðurhúsið til að skoða exótísku plönturnar en ég beið úti, langaði meira til að sitja í sólinni smástund.

Heim aftur,  vorum búin að tala um að taka metro uppeftir en ákváðum síðan að labba bara, Finni til skelfingar. Hann var ekkert að segja okkur frá því að skórnir væru farnir að meiða hann, fyrr en við vorum komin meira en hálfa leið til baka. Uppgötvuðum það á besta stað, beint fyrir utan metro stöð, ætluðum að drífa okkur niður og fara restina með lestinni. Nei þá var bara hægt að fara inn um þennan inngang ef maður átti miða. Sem við áttum ekki. Jón hljóp til að finna hinn innganginn í stöðina en á meðan rak ég augun í að við vorum líka við hliðina á apóteki. Inn og keypti plástur og þegar stráksi var kominn með plástur á hælinn var hann alveg til í að labba restina. Sem var ágætt, því ég efast um að það hafi verið meira en ein metro stöð á þá sem næst var íbúðinni okkar.

Kvöldmaturinn

Tómata/mozzarella/basilsalat í kvöldmatinn. Tómatarnir ekkert þannig mikið betri en þeir íslensku (ég hef talað um það áður hvað ég sé ekkert endilega sammála því að íslenskir tómatar séu óspennandi og það sannaðist þarna líka) en alvöru mozzarella di bufala er hins vegar gersamlega allt annar matur en gúmmímozzarellan sem fæst á Íslandi. Salatið var púra unaður, ákvað strax að það yrði sko gert aftur.

Rólegheitakvöld, dagbókarskrif, lestur og smá net.

5 Responses to “París dagur tvö. Markaður og jurtagarður”


 1. 1 Dagrún 2012-08-11 kl. 11:29

  Já, eru fleiri en ég sem kvarta undan íslenska tómatinum? Ég fæ alltaf á mig flóð af skömmum ef ég voga mér að láta þetta út úr mér.

 2. 2 hildigunnur 2012-08-11 kl. 11:38

  já já fullt af liði – ég hef hins vegar fengið fína tómata hér og alveg jafn góða og þá sem ég fékk þarna úti. Hef svo sem líka fengið harða og bragðlausa tómata hér heima, segi það ekki, en kokkteiltómatarnir sem ég fékk um daginn í Frú Laugu (voru reyndar á útsölu því sumir voru orðnir fullvel þroskaðir) voru hreint og beint æði! Fór aftur daginn eftir og ætlaði að kaupa meira en þá voru þeir auðvitað búnir 😦

 3. 3 parisardaman 2012-08-11 kl. 17:49

  Ég hef orðið fyrir meiri vonbrigðum með gúrkur og síðan almennt með innflutt grænmeti sem er oft komið langt yfir eðlilegan sölutíma á franskan mælikvarða. Tómatarnir íslensku eru oft ágætir. Ekki má gleyma því að uppskeran í Frakklandi í ár ber keim af ofurrigningum og lítilli sól, sem er agalegt fyrir tómataframleiðslu, enda ekkert platljós hér til að bæta upp sólarleysið, sem er aðalfaktorinn í þroska tómata sem og annarra trjáávaxta.
  Hlakka til að lesa ferðasöguna áfram 🙂

  • 4 hildigunnur 2012-08-11 kl. 19:29

   já ég er reyndar ekki bara að tala um þetta skipti heldur hef ég bara fengið svo góða tómata hér eins og ég tala um í fyrra kommenti. Ekki alveg réttlátt að dissa alla íslenska tómata 😉 Innflutt grænmeti hingað til Íslands er hins vegar oft hræðilegt, sérstaklega tómatar sem eru teknir af plöntunum vel óþroskaðir og roðna á leiðinni en þroskast ekki í bragði.


 1. 1 Ferðasaga frá París « Parísardaman Bakvísun við 2012-08-11 kl. 17:30

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.798 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: