Dagur #5. Kassar

Sváfum út, alveg til rúmlega átta. Allir hinir sváfu ekki út (hmm enginn hinna svaf semsagt út). Miljo fór á æfingu, Ivan eldri sonurinn í skólann, Eydís keyrði Hönku út á flugvöll í veg fyrir yngri soninn sem hafði verið í sumarbúðum fyrir astmakrakka í Þýskalandi og fór síðan til Plzen í heimsóknir. Við vorum semsagt í algjöru fríi þennan dag og upp á eigin spýtur. Engar harðsperrur frá deginum áður, mesta furða!

Sturta og morgunmatur sem þau hin höfðu skilið eftir á borðinu fyrir okkur, te og kaffi á brúsum.

Nokkrum dögum fyrr hafði ég nefnt við Miljo að mig bráðvantaði að kaupa víólukassa. Keyptum nefnilega víólu í fullri stærð fyrir Finn í vetur, trekvart hljóðfærið hans var að verða of lítið og við höfum haft þá stefnu að kaupa þokkalega góð hljóðfæri handa krökkunum þegar þau hafa þurft fulla stærð. Nógu góð instrúment til að þau geti látið þau duga, gerist þau ekki atvinnuhljóðfæraleikarar. Freyja á ágætis selló og núna fékk Finnur semsagt víólu. (Fífa var með svo góða fiðlu í láni að hún hefur ekki fengið slíka gjöf – svo þurfti hún auðvitað að skila henni og á bara draslhljóðfæri. Dauðsé eftir því).

Allavega, keypt var gömul víóla sem víóluleikari í Sinfóníunni átti. Sá dó fyrir nokkuð mörgum árum. Hljóðfærið var í eeeeldgömlum kassa, ég er að hugsa um að fara með hann á Þjóðminjasafnið. Eða Tónlistarsafn Íslands. Ég er ekki að grínast.

Já, hafði semsagt spurt hvort þau vissu hvar væri hægt að kaupa þokkalega víólukassa, hvort maður þyrfti að fara til Prag eða Plzen eða álíka. Tja nei, sagði Miljo, það er búð í Karlovy Vary, tékkum á henni fyrst. (Tékkum! Múhahaha). Kvöldið fyrir þennan heita dag rak ég svo augun í búðina. Þriggja mínútna göngutúr frá húsinu okkar.

Við þangað.

Afgreiðslugaurinn sat fyrir utan og las í blaði þegar við komum. Inn í búð og við urðum gersamlega dolfallin. Þetta var ekki beinlínis Tónastöðin.

Kassa áttu þau, jújú. Kostuðu ekkert. Keyptum bæði víólu- og fiðlukassa, samanlagt innan við 11 þúsund krónur. (fiðlukassinn minn er orðinn ansi lélegur, enda orðinn 35 ára gamall. Engin þreytumerki á fiðlunni samt). Kannski er þetta óttalegt drasl, það á eftir að koma bara í ljós en tapið verður þá ekki stórt.

Svona þegar ég skrifa þetta þá hefði ég auðvitað átt að kaupa fiðlu handa Fífu líka…

Svo aftur niður í bæ. Það var heitt. Fórum í austurenda miðbæjarins, þar var risahótel í mörgum byggingum, rándýrt greinilega enda þvílíku glæsikerrurnar fyrir utan.  Var skíthrædd um að bílastæðavörðurinn kæmi hlaupandi eftir mér og skammaði mig fyrir að taka mynd af bílnum á stæðinu.

Þarna uppi í brekku átti víst að vera einhver turn, við reyndum að labba uppeftir en römbuðum ekki á réttan stíg.

Út í hinn enda bæjarins, maður var orðinn ansi þyrstur en bjórverðið þarna var nánast hærra en í miðborg Prag, enda er þetta ekki bara túristastaður heldur sérstaklega sækja ríkir túristar Karlovy Vary heim. Enduðum alveg í hinum enda miðbæjarins og þá var auðvitað bara kominn tími á hádegismat. Langaði í andaconfit en það var alls staðar dýrt, vorum nærri fallin fyrir því á einum veitingastað en það var einhver svo hrikalega ágengur þjónn eða eigandi eða álíka fyrir utan að reyna að troða okkur inn á staðinn að við fengum alveg nóg og hættum við. Enduðum á pizzu og bjór á Litla prinsinum. Fínt bara.

Smá útúrdúr í litla verslunarmiðstöð, tókst að kaupa mér þriðja kjólinn í ferðinni, veit ekki hvað í ósköpunum kom yfir mig í þessari ferð. Ég sem kaupi mér nánast aldrei nein föt…

Fylltum upp af drykkjarvörum og svo heim. Göngutúrinn endaði í ríflega átta kílómetrum þennan dag – og það var sko ekki allt á jafnsléttu! Í ríflega þrjátíu gráðu hita og sól.

Ákváðum að gera nákvæmlega ekkert restina af deginum, plöntuðum okkur út á svalir (sólin var nánast farin af svölunum) með bók og hvítvín. Kláraði þarna aðra bókina í ferðinni en Jón skrapaðist áfram í fimmtu bókinni í Song of Ice and Fire.

Um kvöldið settumst við út með hinu fólkinu og sáum þar í fyrsta skipti eldflugur. Magnað fyrirbæri. Ekki nóg með að við værum að sjá þær í fyrsta skipti heldur höfðu gestgjafar okkar aldrei séð svoleiðis heldur. Tókst ekki að taka mynd af þeim samt. Seinna um kvöldið heyrðum við líka í fyrsta skipti í tékkneskri sekkjapípu, okkur tókst að draga Miljo að hljóðfærinu og hann spilaði fyrir okkur í góða stund.

Allt í allt snilldardagur. Þó það hafi verið fullheitt.

Auglýsingar

3 Responses to “Dagur #5. Kassar”


  1. 1 ella 2012-06-29 kl. 07:20

    Mögnuð búð!

  2. 3 Katla Lárusdóttir 2012-07-5 kl. 07:28

    Gleymi því aldrei þegar ég sá eldflugur í fyrsta skipti í Bandaríkjunum fyrir 18 árum síðan, magnað!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 366,943 heimsóknir

dagatal

júní 2012
S M F V F F S
« Maí   Júl »
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: