Sarpur fyrir 26. júní, 2012

Tékkland dagur #4. Göngur

Vaknaði hálfsjö en gat sem betur fer sofnað aftur og sofið alveg til klukkan átta. Bara sofið út… Restin af húsinu steinsvaf hins vegar til ríflega 10 þannig að við lágum bara uppi í bóli og lásum.

Eftir síðbúinn morgunverð löbbuðum við ásamt Eydísi í bæinn þar sem Miljo og Hanka þurftu að skjótast í búð og vesenast eitthvað. Bráðfallegur miðbær, heitir hverir og hellingur af túristum. Eydís heimtaði að við fengjum okkur oblátur. Já lásuð rétt. Oblátur. Það er sérréttur þarna og hreint ekki eins slæmt og það hljómar, eiginlega bara slatti gott. Hægt að fá þær með vanillukremi, hnetukremi eða súkkulaði. Við Jón Lárus fengum okkur bæði með dökku súkkulaði og það var eiginlega alveg eins og Prins Póló.

Þarna var hægt að kaupa snafs staðarins, hið þekkta Becherovka, á bás. Tæpast sæi maður slíkt hér uppi á klaka:

 

 

Heim aftur, lögðum ekki í snarbröttu brekkuna sem við höfðum gengið niður og tókum aðeins lengri leið. Samt bratt. Jón Lárus loggaði leiðina sem við gengum og hún var um fimm km.

 

 

Eftir léttan hádegismat fórum við síðan í göngutúr um skóg í nágrenni Karlovy Vary. Lenka, annar fiðlarinn í kvartettinum býr í útjaðri skógarins, við byrjuðum á því að pikka hana upp og gengum síðan af stað. Sáum skærgrænt hús (sko skærara en okkar!) og ég sagði að svona lit á húsum sæi maður tæpast á Íslandi. (Svo sá ég reyndar hús í dag í mjög svipuðum lit á Kárastíg – útúrdúr). Upp og niður, þvílíkar hæðir og hóla. Um miðja vegu komum við skyndilega að veitingastað.  Þar inni í miðjum skógi (reyndar við ána) var síðan til Master, mjög sérkennilegt að finna hann þarna. Reyndar alveg nógu spes að koma að þessum veitingastað.

Þarna voru ótrúlega fallegir klettar. Efst á þeim voru síðan stangir til að festa í reipi fyrir klifurvitleysinga. Tók mynd til að sýna tengdasyninum sem er einmitt slíkur klifurvitleysingur…

Mér var ekki alveg sama að labba yfir þessa dúandi brú: 

Miljo og Lenka fóru síðan til baka sömu leið en við hin héldum áfram meðfram ánni þar til við mættum Miljo sem kom á bílnum til að sækja okkur.  Heim til Lenku aftur í kaffi og kökur þó klukkan væri orðin meira en sex. Bráðfallegt hús og risastór og flottur garður.

Heim, stirð og stíf, örugglega harðsperrur á morgun eftir 12 ½ km göngu sem var mjög langt frá því að vera á jafnsléttu. Og enn var borðað…

 


bland í poka

teljari

  • 373.923 heimsóknir

dagatal

júní 2012
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa