Sarpur fyrir 23. júní, 2012

Tékkland dagur #1. Þangað.

Aldrei þessu vant tókum við rútuna út á völl, Fífa ætlaði að fá að nota bílinn og hún var búin að vera lasin þannig að við vorum ekkert að ræsa hana til að skutla okkur. Enda er líka bara ágætlega þægilegt að fara með rútunni.

Höfðum gleymt að tékka okkur inn á netinu um morguninn en sem betur fer er það jú þægilegt í kössunum á vellinum. Losnuðum við þessa einu tösku sem við vorum með – veit ekki hvort Loftbrúrmiðinn minn hefði dugað fyrir 100 kílóum eins og þeir gerðu sjálfkrafa hér einu sinni, þegar ég flaug í fyrsta sinn á slíkum miða hikstaði stelpan í baggage drop á heimildinni minni, hafði aldrei séð þvílíka tölu áður í reitnum leyfileg þyngd farangurs. Og ég sem var bara með ósköp venjulegt magn, eina tösku ef ég man rétt, enda þurfa tónskáld ekki mikið magn af græjum með sér.

Fríhafnarsmotterí, ein bók, reyndar heyrnartól í stað þessarra (sjá líka næstu færslu hér að neðan), samt ekki nándar nærri eins dýr, síðar kannski. Skærgræn og retro. Smágjafir handa gestgjöfum.

Saga Lounge, ég uppgötvaði að ég get ekki boðið með mér gestum á mínu korti (bögg), það er bara aukakort frá bóndans, spurning hvort hann geti tekið með sér inn. Tékka á því fyrir Parísarferðina, hvort krakkarnir geti komið með okkur. Slefuðum nefnilega í platínukort fyrir hrun og höfum haldið þeim síðan. Lúxusdýrin.

Upp að hliði þegar var komið Go to gate melding, dauðsáum eftir því þar sem við stóðum þar upp á endann í 20 mínútur sem hefði verið betur varið í facebook og annan tebolla niðri.

Flugferðin var ekki í frásögur færandi nema flugfreyjan átti í ógurlegu basli með að koma frá sér tilkynningunum sínum á dönsku. Ekki hennar besta hlið. Þjónustan um borð var annars óaðfinnanleg. Lúxusdýrin tímdu annars ekki að kaupa sér mat í vélinni heldur voru með túnfisksamlokur að heiman.

Köben, ná í tösku, geyma tösku í garderoben, lestin til Ørestaden til að kíkja á verslunarmiðstöðina þar. Rándýrt fargjald reyndar, 72 danskar krónur fram og til baka, alveg tvær stöðvar. Hún var alveg eins og aðrar slíkar kringlur. Ætlaði að svipast um eftir sumarkjól en endaði samt á að kaupa mér svartan og ekkert sumarlegan – eitt það leiðinlegasta sem ég geri er að versla. Nema mat, alltaf gaman að koma í útlenskar matarbúðir. Þarna var reyndar bara slík inni í risa Bilka markaði. Freistuðumst líka að kaupa stóran bakka af kirsuberjum. Þau eru ennþá kaupandi í Danmörku, öfugt við hér heima.

Vorum að spá í að fara í ruslfæði en sáum þá sushistað og fengum okkur slíkt í staðinn. Góð skipti og alveg ljómandi sushi.

Aftur á völlinn, enga stund að tékka inn, óratími í “öryggisbiðröðinni”, næsta lounge, ekki eins flott og Saga, reyndar bjartara en ekki eins mikið úrval af mat og drykk. Reyndar annað lounge á Kastrup, prófast síðar. Samt ekki á leiðinni heim.

Flugið til Prag gekk að óskum, ekki í frásögur færandi. Á flugvellinum var hins vegar tekið á móti okkur með kostum og kynjum, brauði og salti, íslenskum fána og snafs.

Þar voru komnar tvær aðalsprauturnar í Íslandsfanatikerunum (nei ekki fanklúbbi, fanatíkerum), Jana og Palli (Pavel). Jana lét ekki fótbrot og hækjur aftra sér frá því að koma og ná í okkur á völlinn. (ókei bóndi hennar, sem er ekki í fanklúbbnum, keyrði).

Við áttum að fá að gista hjá þeim þessa nótt þar sem Miljo víóluleikari og aðalsprautan í verkefninu var að spila á tónleikum þetta kvöld og gat ekki náð í okkur nema við myndum bíða á flugvellinum í tvo klukkutíma. Þáðum frekar gistingu hjá fanatikuliðinu. Sáum auðvitað svo ekki eftir því, yndislegt fólk sem hlóð undir okkur, talaði ágætis ensku og við spjölluðum fram eftir kvöldi yfir mat, bjór, víni og meiri snafsi.


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

júní 2012
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa