Versla við Bílaleigu Akureyrar – Europcar

Einu sinni skrifaði ég póst þar sem ég andskotaðist yfir ömurlegri þjónustu hjá Hljómsýn og Litsýn sjá hér. (heh nei mér finnst ekkert að því að auglýsa það upp á nýtt). Þetta er sú færsla hjá mér sem dúkkar alltaf upp með innlit í hverri einustu viku og er komin með yfir 8000 flettingar. Mikið langt frá því að vera góð auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki og ég vil allavega trúa því að þeir hefðu grætt á því að allavega borga fyrir viðgerðina á bannsettum heyrnartólunum – sem NB eru síðan búin að brotna hinum megin og sambandið er heldur ekki gott í þeim.

Allavega í dag fékk ég alveg öfuga þjónustu.

Forsagan er ekki sérlega skemmtileg reyndar. Við systurnar vorum að baka sörur hér heima, ekki í frásögur færandi per se, eldri unglingur var að fara í síðasta prófið sitt í menntaskóla, ég þurfti að skjótast með yngri ungling úr skólanum til að spila í ráðhúsinu, allavega púslast hlutirnir þannig að sú eldri tekur bíl systurinnar í prófið. Systur minnar bíl, sko ekki sinnar!

Mín systir tekur síðan minn bíl til að sækja sína dóttur (var einhver að tala um flækjustig?) Nema hvað, hún hringir í mig 5 mínútum seinna, ég á kafi í síðustu sörubotnum í ofn og þá er bara búið að klessukeyra aftan á bílinn minn á ljósum, jeppakall að spila angry birds á símann sinn (tja eða tékka á sms eða álíka) og tók ekki eftir því að það væri komið rautt ljós og stopp bílaröð fyrir framan sig. Beint aftan á, af fullum krafti. (allir krossa putta og tær og handleggi og fætur og snúa tungunni við að Hallveig hafi ekki fengið slæman hnykk. Takk!)

Hringt í 112, þessir gaurar mæta á svæðið, áreksturinn er skólabókardæmi um aftanákeyrslu og Hallveig í 100% rétti ef maðurinn hefur nokkurn tímann séð slíkt tilfelli. Mér skipað að fara á bílaleigu og taka bíl, reyndar fyrsti dagurinn á mína ábyrgð þar sem lögregluskýrsla berst ekki fyrr en daginn eftir og þá fer skoðun fram. Ég næ síðan í Hallveigu á slysó (henni skipað að koma aftur daginn eftir þar sem meiðsli koma oft ekki strax fram í svona málum), hún skutlar mér síðan á næstu bílaleigu.

Sem er semsagt Bílaleiga Akureyrar – Europcar í Skeifunni.

Ég inn, jújú, þeir skipta við Vörð, ég tryggi þar og af þægilegri tilviljun var jeppakallinn (sem var NB í sjokki og hinn almennilegasti) líka tryggður þar.

Erum að ganga frá bílaleigu og ég (sem hef alltaf heyrt og reyndar nýtt mér áður) að fólk eigi að fá sambærilegan bíl í svona tilfellum. Það hefur hins vegar greinilega breyst, kannski um hrun, tryggingafyrirtæki borga núna bara minnsta bíl. Ég tek fram í sakleysi mínu að ég þurfi að koma sellókassa í skottið. Þau: Uuuuuuu? hmmm? tjaaa! neeeei! Ætluðu að láta mig hafa eitthvað smábílkríli (Volkswagen Polo ef ég man rétt). Mér líst lítið á það þannig að þau benda mér á að tala við tryggingafélagið og benda reyndar á ákveðinn aðila þar sem sé liðlegur. Ég fæ hins vegar ekki samband við hann, er víst með kúnna hjá sér og lendi á talsvert óalmennilegri manni sem vill lítið fyrir mig gera og biður mig bara vinsamlegast taka tillit til að svona aukaútgjöld komi sko niður á iðgjöldum allra (við erum að tala hér um rétt rúmlega 2000 krónur á dag í 5 daga NB). Fæ ekkert meira út úr honum, að hluta til skiljanlegt því hann var auðvitað ekkert búinn að fá um málið. Hef líka oft fengið mjög fína þjónustu hjá Verði þannig að ég ætla ekki að fara að tala þau niður – í bili…

Allavega, gefst upp á símtalinu en þarna er eigandi eða vaktstjóri hjá Bílaleigu Akureyrar hins vegar kominn fram í afgreiðslu og heyrir símtalið mitt. Spyr hvort tryggingarnar hafi viljað gera eitthvað fyrir mig og ég gef nú lítið fyrir það. Hann skipar þá stelpunni sem var að afgreiða mig að skella á mig fimm flokkum dýrari bíl en rukka bara fyrir þann ódýrasta. Bílaleigan taki muninn bara á sig.

Einhvern veginn held ég að bílaleiguna muni meira um þennan sirka 11 þúsund kall en Vörð.

Hins vegar græddi hún ánægðan kúnna – og vonandi líka 8000 innlit og jákvæðni. Svona á þetta að vera, takk fyrir mig.

3 Responses to “Versla við Bílaleigu Akureyrar – Europcar”


 1. 1 tobbitenor 2011-12-14 kl. 00:11

  Æ, hvað er ömurlegra en að standa í svona? Jú, reyndar margt, en samt, þetta er frekar leiðinlegt. En ég vona að Hallveig fái engin eftirköst af þessu.

  Ég hef notað Europcar í útlöndum og líkað afskaplega vel. Þeir eru hins vegar ekki í ameríku, einhverra hluta vegna, tengist kannski nafninu.

  Vona að málið leysist og þið fáið almennilegan bíl á endanum, stendur til að gera við þann bláa?

 2. 2 hildigunnur 2011-12-14 kl. 00:16

  Efast stórlega um það, samkvæmt Hallveigu er hann bara ónýtur. Höggið var talsvert, brettið fór bara undir bílinn og skottið stóð langt upp í loft. Höfum augastað á þessum í staðinn.

 3. 3 ella 2011-12-14 kl. 01:18

  Hundleiðinlegt allt svona vesen en alltaf gott að lenda á góðu fólki.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 375.556 heimsóknir

dagatal

desember 2011
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: