Maður er nánast alveg hættur að fá gagnrýnendur á tónleika hjá sér, sjávarútvegs„aðallinn“ sem heldur Morgunblaðinu uppi með valdi hefur væntanlega lítinn áhuga á menningu og listum og ég veit ekki hvað Jónas Sen fær að fara á marga tónleika á vegum Fréttablaðsins, ekki sérlega marga. Helgi Jóns fer á tvenna til þrenna í viku, við vorum svo heppin í Hljómeyki að okkar tónleikar voru einir þeirra sem hann fór á hér fyrir nokkrum vikum. Umfjöllun hans má heyra hér: Schnittke umfjöllun
Hins vegar fékk ég skemmtilegt bréf inn um raflúguna í morgun frá gagnrýnanda Moggans:
Sæl Hildigunnur.
Frumheyrði stykki í RÚV 1 fyrripartinn í dag sem kom mér hressilega á óvart.
Ekki fyrir „nie erhörte Klänge“ né „gjörnýtingu á möguleikum hljóðfærisins“
heldur heillandi ferskleika og skemmtilega samtvinnun í anda þeirrar
millimúsíkur sem brúar bezt gjána milli popps og framúrstefnu.
Það var fyrir kvennakór og selló, og reyndist í afkynningu vera eftir þig –
hvað kom mér enn meir á óvart! Að vísu afspyrnuvel flutt (Graduale Nobili
og Bryndís Halla). En mér er sama. Verkið kom þrælskemmtilega út; heiðtært
og gáskafullt í senn.
Það vantar meira af svona lögðu hér, ef ný tónlist á að komast aftur inn á heilbrigða
þróunarbraut, burt frá steingeldum akademisma í frjótt jarðsamband við
venjulega hlustendur.
Bravó!
Með hvatningarkveðju,
SMNV,
RÖP
Fékk góðfúslegt leyfi til að birta bréfið hér, takk fyrir það. Ekki leiðinleg sending atarna.
Gaman! Það er ósköp gott að fá að vita það stundum að maður sé að gera góða hluti.
Satt er það 🙂
Flott krítík. Veit ekki til þess að RÖP skrifi neitt nema að geta staðið við það, en háfleygur er hann í orðavali. Kær í bæinn. Guðlaug Hestnes
Frábært. Nú langar mig að heyra verkið.