Lokadagur og heim

Eins og það var nú þægilegt að byrja ferðina á að þurfa ekki að vakna snemma og flýta sér grútsyfjaður út á völl er frekar óþægilegt að þurfa að tékka út af hótelinu fyrir hádegi (sekt ef maður kemur mínútunni eftir tólf) þegar flugið fer ekki fyrr en níu um kvöldið. Vöknuðum á skikkanlegum tíma, fórum út í morgunmat og svo aftur upp á herbergi að pakka í rólegheitum. Einhverjar drifu sig strax klukkan 10 í meiri búðir, við vorum eiginlega komnar með nóg. Næstum nóg allavega.

Heilmikil rekistefna með töskumál, ég var skíthrædd um að stóra taskan mín væri komin langt yfir þessi 23 kíló sem má vera. Vorum búnar að fá skilaboð um að vélin væri gersamlega stappfull og það yrði ekki gefinn gramms afsláttur af leyfilegri þyngd jafnvel þó maður væri bara með eina tösku, yfir 23 kíló = sekt. Samt var í lagi að vera með tvær töskur sem hvor vó 23 kíló. Spes. Ég var semsagt bara með eina og þó ég hefði ekki misst mig algerlega í verslunarleiðöngrum var hún vel troðin og ansi þung. Bryndís var með tvær, sú minni greinilega miklu léttari og leyfði mér náðarsamlegast að hlaða. Hún fékk að bera allar bækurnar og skóna en það þyngsta voru náttúrlega vínflöskurnar og ekki að ræða það að ég setti þær yfir. Best að hætta bara á að skemma mín föt og dót ef flöskur myndu taka upp á því að brotna í meðförum flugvallarstarfsfólks eða álíka.

Jæja, út skráðum við okkur, ekki penní aukalega á herberginu (reyndar hissa á því þar sem ein ferðafélagsveran hafði fengið að hringja hjá okkur, síminn í hennar herbergi virkaði ekki) en kvartaði ekki. Töskur í geymsluherbergi hótelsins yfir daginn, nóg að vera á hálfgerðum hrakhólum fram til sjö um kvöldið þó ekki þyrfti maður að dragnast með níðþungan farangur líka. Selvfølgelighed færslunnar afstaðin.

Eitthvað vorum við búnar að ætla okkur að hitta á hinar, enn í Prudential en á endanum nenntum við ómögulega þangað úteftir, fórum frekar að skoða Faneuil Hall Market Place. Auðvitað var það svo langskemmtilegasta svæðið, dauðsáum eftir að hafa ekki verið mikið meira þar. Bryndís sá sparitösku sérstaklega merkta henni í búð. Tímdi henni samt tæpast, frekar dýr. Sett í salt.

Löbbuðum niður að höfn, hefðum viljað fara í siglingu en hafnarskottúrarnir byrja víst ekki fyrr en í maí, þannig að það var út úr myndinni.

Skutumst upp á Washington Street, fengum okkur borgara á Wendy’s stað – úfffff hvað það voru mikil vonbrigði, mundi eftir að Wendy’s höfðu verið langskemmtilegustu skyndibitastaðirnir þarna í fornöld þegar ég fór síðast til BNA, borgarinn var ágætur svo sem en staðurinn verulega sjabbí. Dauðsá eftir að hafa eytt dýrmætri svengd í stóra matarlandi á svona rusl. Stefndum síðan á Macy’s vöruhúsið, enn vantaði Bryndísi allavega eitt ef ekki tvö ilmvötn. Var ég búin að nefna að meðal afraksturs ferðarinnar hjá henni voru 7 svuntur og 5 mismunandi ilmvötn, annars?

Í búðinni skildu leiðir, hún fékk annað ilmvatnið sem hana vantaði og ég fékk – húrra, sumarjakka, eða reyndar stutta sumarkápu. Og ég sem var annars búin að gefa upp von um að finna slíkt. Búin að leita alveg slatta, fann annaðhvort dökkbláa eða svarta jakka eða þá beige og ég þoli ekki beige! Þarna var hins vegar enn bleikari kápa en jakkinn minn slitni heima. Vérí happí, sérstaklega þegar afgreiðslustúlkan straujaði eitthvað Macy’s kort og ég fékk 25% afslátt af henni alveg óumbeðið.

Aftur til Faneuil Hall. Svakalega flottur matarmarkaður, verst að vera ekki svengri eftir árans borgarann! Röltum þarna um í góða stund, eitt ilmvatnið til keypt í Abercrombie & Fitch (draumabúð dætra minna en ekki ódýr).

Settist og horfði á einhvern Houdiniwannabe sem var rígbundinn og hengdur upp á fótunum en tókst auðvitað að losa sig, á meðan Bryndís keypti sér töskuna. Hlakka til að sjá hana í notkun (Bryndís, átt inni matarboð, þó ekki væri nema fyrir að halda á heilum bókaflokki og þrennum skóm fyrir mig til Íslands. Verður að koma með töskuna!)

Alveg hef ég gleymt að segja frá aðaltískunni í Boston. Gúmmístígvélum í öllum stærðum og gerðum, litum og lögunum. Örugglega ekki langur tími þar til við förum að sjá svonalagað hér heima:

Snemmbúinn kvöldmatur á Wagamama, ágætt en kannski pínulítið ofmetið. Gæti haft eitthvað með að gera að í innihaldslýsingunni á salatinu mínu var ekki minnst á engiferinn (þetta rauða) sem ég tíndi svo allan ofan af, svo var líka fullmikið fyrir minn smekk af baunaspírum.


Samt ekki vont, hreint ekki vont og bjórinn var góður:

Nújæja, kominn tími á að drífa sig aftur upp á hótel, höfðum ætlað að hitta hinar klukkan sex í anddyrinu. Nokkrar voru komnar og við lögðum alveg undir okkur herbergi með hægindastólum næsta klukkutímann eða svo, endurraðað í töskur og fært á milli, smá bjór og hvítvín og enn meiri hlátur. Allar vorum við orðnar tilbúnar til að fara heim. Leigubílar út á völl, taskan mín vó 23 kíló og 100 grömm, fékk að færa örlítið í viðbót yfir (fjúkk). Nokkuð nákvæmt bara.

Inn í flugstöð, dæmigert, ekki miklar raðir samt, fór að leita að Tax-free booth, fann enga en fór í gjaldeyrisskiptibás, þurfti reyndar að bíða þar í óratíma eftir einhverjum manni sem var að skipta svo miklum peningum að ég gapti bara. Ekki dettur manni í hug að vera með svona seðlahrúgur á sér, ég myndi aldrei þora það. Nema hvað þegar ég loksins komst að, gat afgreiðslumaðurinn frætt mig um að State of Massachusetts borgar bara alls ekki til baka söluskatt. Hefði þurft að fljúga gegn um New York til þess eða þá fara til NH þar sem ég hefði getað keypt tölvuna skattfrjálsa. Garg.

En lítið við því að gera. Komst á netið í blessaðri tölvunni minni, sniðugt hjá þeim á Logan að maður getur komist frítt á net með því að taka svo sem eins og eina netkönnun frá fyrirtæki eða horfa á nokkrar auglýsingar fyrst. Hef hvergi komist á alveg frítt net á flugvelli nema reyndar í Abu Dhabi en þetta kemst næst því. Þarna datt inn afmælisdagurinn minn heima á Íslandi þótt ekki væri kominn sá fjórtándi að staðartíma. Var samt skálað fyrir mér.

Draslast út í vél, sátum svolítið á tvist og bast en gerði ekkert til, ég fékk hálfa svefntöflu hjá Önnu og tók hana um leið og ég var búin að koma mér fyrir í sætinu. Náði að lesa smástund og fylgjast með að við tókum á loft en svo gersamlega hrundi ég út, enda alls óvön svefnlyfjum. (man ekki eftir að hafa tekið slík áður, fyrir utan reyndar tvær svæfingar). Rumskaði varla fyrr en við lendingu en var þá nokkurn veginn stálslegin. Ég sem aldrei get sofið almennilega í flugvélum! Hefði viljað vita af þessu í Ástralíufluginu fyrir tæpu ári.

Leifsstöð, keyrt með okkur frá rana og að aðalbyggingu, lúxus, smotterí í fríhöfn, rauða hliðið með tölvuna og þetta smá auka vín úr fínu vínholunni, Jón Lárus sótti mig, keyrðum Bryndísi heim, hinar fóru í rútunni (nibb hefði ekki verið pláss fyrir eina til í bílnum, ekki séns! Stórar töskur, munið þið?)

Ahhbú ferð. Eftirmáli, ætlaði að reyna að halda mér alveg uppi þennan mánudag, var að kenna frá hálfþrjú til hálfsjö en gat ekki alveg, leyfði mér að sofna í einn og hálfan tíma um morguninn en fór svo að kenna og að sofa á nokkurn veginn eðlilegum tíma. Allt svefntöflunni að þakka, það er ég viss um.

5 Responses to “Lokadagur og heim”


 1. 1 ella 2011-03-25 kl. 06:16

  Flott stígvél! Svínvirkar þegar er fljótandi krap út um allt.

 2. 2 Harpa Jónsdóttir 2011-03-25 kl. 11:15

  „…dýrmætri svengd…“ það hef ég ekki heyrt áður 🙂
  Gúmmístígvél með hæl hafa lengi verið í tísku held ég – allavega eru þau til í Hafnarbúðinni á Ísafirði. En kannski ekki svona skrautleg.
  Þessi eru ægilega töff.

 3. 3 hildigunnur 2011-03-25 kl. 11:27

  Stígvél, já, það var ótrúlega mikið úrval af þeim, hreint ekki ódýr og þetta var á fótunum á svona þriðju hverri konu.

 4. 4 baun 2011-03-26 kl. 07:42

  Ohh, Faneuil Hall, það fannst okkur Hjálmari dásamlegur staður…fengum okkur allt mögulegt í gogginn, t.d. fantagóðar ostrur.

  Ég væri annars alveg til í svona stígvél.

 5. 5 hildigunnur 2011-03-26 kl. 09:51

  Baun úff já – og ég sem var gersamlega ekkert svöng eftir ómerkilegan borgara 😦

  Segi sama með stígvélin, ég á ekki einu sinni vaðstígvél þannig að ég hefði vel getað réttlætt svona…


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 371.336 heimsóknir

dagatal

mars 2011
S M F V F F S
« Feb   Apr »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: