Sarpur fyrir 23. mars, 2011

og loksins

var komið að því að ég gerði eitthvað í þessari námsferð! Allir hinir kennararnir voru búnir að fara og sitja Suzukitíma sem mér fannst eiginlega ekki vera það sem ég þyrfti mest á að halda.

Reif mig á lappir snemma um morguninn og fór í heimsókn í New England Conservatory. Fékk að sitja tónheyrnartíma og skoðaði aðeins, skemmtilegt að sjá þennan fína skóla. Fékk slatta af nýjum hugmyndum en líka sönnun á því að ég er ekki að gera svo vitlausa hluti í minni kennslu. Gaman. Kíkti á Symphony Hall líka:

Meðan á þessu stóð voru hinir kennararnir að hitta Suzukigúrú mikinn, það var víst líka ansi magnað.

Seinnipartinn – já getið hvað nema meiri – verslunarferðir! Ég var samt eiginlega búin að kaupa allt sem ég ætlaði nema reyndar skó á stelpurnar og sumarjakka á sjálfa mig í staðinn fyrir bleika gallajakkann sem þeir sem þekkja mig hafa bókað séð mig í – en var orðinn ansi hreint slitinn. Fengum okkur síðbúinn hádegismat á írskum pöbb, reyndi aftur við Buffalóeitthvað og aftur voru vængirnir svo níðsterkir að ég þurfti að taka mér pásu frá því að borða af og til, til að leggja í næsta bita.

Prudential Mall upp á nýtt og bókabúðin aftur. Keypti ekki mikið í þetta skiptið, eina bók fyrir flugið heim (sem ég nýtti svo reyndar ekki), fann Art Supply búð (hmm, reyndar á sömu slóðum og ég hafði verið um morguninn, smáspöl frá verslunarmiðstöðinni) og keypti gjöf fyrir elsta ungling. Hitti Bryndísi aftur í bókabúðinni, klyfjaða ilmvötnum. Kolféllum svo fyrir sömu svuntunni á standi úti á gangi og keyptum okkur eins, þessi mynd á þeim:

Bjór og aðra ostaköku á Cheesecake Factory (já, ekki hlakkaði ég svo sem til að koma heim og stíga á v….na), sem betur fer höfðum við vit á að deila henni.

Crate&Barrel aftur, ég væflaðist fram og til baka og upp og niður og pældi í blessuðum eftirréttadiskunum en svei mér þá ef ég stóðst ekki freistinguna enn og aftur. Keypti bara eitt pínulítið mæliglas. Meðan við vorum inni í búðinni kom inn einhver klikkaður maður og hrifsaði stóran búrhníf af standi rétt við dyrnar. Öryggisverðir komu að honum og annað starfsfólk reyndi að láta á engu bera til að skapa ekki panikástand í búðinni, hringjandi í 911 í hálfum hljóðum, ég hugsa að fólkið uppi á lofti og innst í búðinni hafi ekki endilega orðið vart við þetta (ekki stór búð). Einhvern veginn tókst þeim að koma gaurnum út, hníflausum, áður en lögreglan kæmi. Búðarstjórinn var alveg í öngum sínum, sagði okkur að fara endilega til vinstri þegar við fórum út, því sá klikkaði hafði haldið til hægri. Ég sagði okkur helst ætla í leigubíl og hann stökk strax út á götu og veiddi bíla fyrir okkur (vorum 5 og komumst ekki í einn). Ljótu lætin. Ég var samt aldrei neitt hrædd, var ekkert í neinu návígi við hann, maður bara færði sig innar í búðina og sá að hlutirnir voru nokkurn veginn undir kontról. Ævintýri samt.

Hótel, afhlaða, síðasta búðarferð dagsins. Höfðum síðan mælt okkur mót hjá skrifstofustelpunum um kvöldið og fólk skyldi sýna afrakstur dagsins. Bryndís átti alveg eftir að kaupa gjafir handa einum.

Yfir til þeirra sem var farið að lengja eftir okkur (samtal fært í stílinn)

Anna: Hmm, ætli Bryndís og Hildigunnur fari ekki að koma?
Arnheiður: Veit ekki, best að senda SMS
*sent* Erud thid a leidinni?
*svar* Erum ad versla a Lyd, komum eftir sma.
Arnheiður les upp svarið
Anna: Ha? Hvað er þetta Lyd? Gata? Búð? Af hverju erum við að missa?
Arnheiður: Hmm veit ekki, kannski eru þær bara að kaupa sér vatn?

Til baka til okkar sem vorum búnar að versla á Lyd – og skó á stelpurnar mínar. Upp á hótel, rétt inn í herbergi og svo til þeirra, með smá bjór og flögur, já og Haagen-Dazs jarðarberjaís, namm! Tekið með kostum og kynjum og hvítvínsglasi. Byrjuðum að sýna afraksturinn, þar á meðal frakka og gríðarflotta fjólubláköflótta skyrtu á Lýð, kærasta Bryndísar. Sem Arnheiður þekkir frá fornu fari og var farin að hafa áhyggjur af að Bryndís ætlaði ekki að kaupa neitt fyrir…

Síðar um kvöldið komu allir kennararnir líka upp á þetta herbergi, kjaftað lengi fram eftir kvöldi og ég hef sjaldan hlegið jafn mikið á ævinni. Snilldardagur.


bland í poka

teljari

  • 371.336 heimsóknir

dagatal

mars 2011
S M F V F F S
« Feb   Apr »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa