ferðasaga frá punktum

jamm, allavega fyrsta daginn, tók ekki tölvugarminn minn með þar sem planið var að kaupa tölvu úti – tók heldur ekki dedicated travel diary með (rauða stílabók sem ég skrifaði ferðapunkta þar til ég fattaði (fyrir svona tveimur ferðum síðan) að ég væri jú með tölvu meðferðis og gæti auðvitað skrifað beint á hana).

Allavega, maður er gersamlega óvanur að ferðast til útlanda án þess að þurfa að vakna grútmyglaður klukkan fjögur að nóttu, geta sofið út og pakkað í rólegheitum og gengið frá lausum endum fyrir ferð. Átti nokkrar bækur ólesnar, kippti með.

Rútan út á völl, maður er steinhættur að tíma að láta keyra sig (ekki sækja samt), Bryndís vinkona náði í mig til að keyra niður á bsí í veg fyrir rútuna. Hittum þar tvær aðrar ferðafélögur, mokuðum okkur upp í rútu og upp á völl.

Svona úr því klukkan var ekki sex um morgun fannst mér í fína lagi að fá sér bjór á vellinum í stað heita súkkulaðisins sem er annars standard flugvallardrykkurinn minn. Veit ekki með ykkur en ég man vel þá tíma þegar barinn í flugstöðinni (og fjárinn, líka gömlu flugstöðinni inni á varnarsvæðinu, svona er maður nú orðinn gamall) var fullur af íslendingum sem ætluðu SVO að fá sér fyrsta bjórinn í ferðinni. Góð breyting, satt að segja.

Bjórinn er samt betri en óspennandi heita súkkulaðið sem Kaffitár býður upp á. Sjá hér meðal annars.

Keypti mér Auðnina eftir Yrsu, nibb var greinilega ekki með nógu margar bækur. Líka sudokubók, reyndar pínu fyndið að bókin sem ég keypti mér í Noregsferðinni fyrir nánast nákvæmlega ári, kláraðist kvöldið áður en ég fór af stað til BNA. Alveg óvart.

Út í vél, einn samkennara lenti í tékki, þurfti nánast að berhátta sig fyrir framan röð af svipbrigðalausu fólki, jakk! Fékk afsökunarbeiðni þegar (auðvitað) ekkert fannst hættulegt. Ljóta ruglið! En í vélina komumst við á endanum. Pakkaði mér inn í Etihad teppið sem við fengum í einni vélinni í Ástralíuferðinni, gamli Icelandair lofthálspúðinn reyndist götóttur og ónothæfur en sem betur fer fékk ég annað teppi og tvo kodda, verður alltaf svo kalt við gluggann. Enda, við lok flugferðar voru þessar líka fögru frostrósir á glugganum. Nei, ekki söngkonurnar. Ísingin.

Nema hvað, flogið af stað nokkurn veginn á tíma. Flugið gekk smurt, hundvond samloka reyndar og skjárinn minn var bilaður en Auðnin reyndist bráðspennandi. Sérstaklega yfir þessu landslagi:

Grænland

Lent klakklaust á Logan, út, gegn um Immigration, ég var bráðheppin með eftirlitsmann, spurði hve langt væri síðan ég hefði komið síðast til Bandaríkjanna. Þegar ég nefndi þessi ríflega 25 ár varð hann alveg steinhissa, hvernig stæði eiginlega á því að ég hefði ekki komið síðan! (what kept you?!) Vildi síðan vita hvort ég semdi rapptónlist, þegar ég sagðist vera tónskáld. Ég spurði til baka hvort ég liti út fyrir það. Bað mig svo bara vel að lifa og að skemmta mér vel í ferðinni.

Ekki allir voru svona heppnir, sumar okkar lentu á ógurlega fúlum eftirlitsmönnum. Heppin ég.

Leigubílar upp á hótel, inn með farangurinn, mundi eftir að gefa vikapiltinum (stór og feitur og svartur og eldri en ég) þjórfé og aftur út að finna eitthvað ætilegt. Enduðum á írskum pöbb á þarnæsta horni við hótelið, allt morandi í þeim í Boston auðvitað. Buffalókjúklingasalatið mitt var svo níðsterkt að mig sveið í eyrun af því en gott var það.

Leiðindafyrirbæri þetta þjórfé annars. Hví er ekki hægt að borga fólki mannsæmandi laun og láta síðan standa á matseðli og annars staðar hvað hlutirnir kosta mann í raun og veru?

Aftur á hótelið, himnaríki að fara í örstutt fótabað, skríða undir sæng og leysa smá sudoku í nýju bókinni minni.

Þessir koddar á Hilton eru ÆÐI – mig langar í svoleiðis!

1 Response to “ferðasaga frá punktum”


  1. 1 ella 2011-03-16 kl. 00:06

    Hlustaði á þig í útvarpinu í dag á meðan ég var á útopnu í búningavinnunni. Fínt.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 373.762 heimsóknir

dagatal

mars 2011
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: