Sarpur fyrir október, 2010ég vildi

óska að einhver hefði tekið mynd af kórnum á tónleikunum á föstudaginn, venjulega erum við íklædd svörtu með einhverju rauðu skrauti (nokkuð sem er reyndar orðið frekar þreytt, þar sem allir virðast vera komnir með þetta trend, við vorum með þeim fyrstu en samt held ég ekki trendsetters, fleiri sem duttu inn á sama tíma), en föstudagurinn var eins og fólk veit, bleiki dagurinn þannig að sú hugmynd kom upp að í stað rauðs kæmi fólk með bleikt skraut.

Rautt er frekar auðveldur litur, maður einhvern veginn veit hvað hárautt er, ég er ekki viss um að það sé neinn annar litur sem er svona afgerandi, nema þá helst svartur. Ekki einu sinni alveg viss með það, spurning hve kolsvart og svo virkar svartur misdökkur eftir glansstigi. Bleikur getur hins vegar verið afskaplega mismunandi, ég nefndi hot pink og fagurfölbleikan þegar ég var að ákveða hvað ég ætti að velja mér bleikt fyrir tónleika. Smettisvinir voru sammála, hot pink væri málið, þannig að ég rændi naglalakki frá yngri dóttur og skaust svo í Skarthúsið eftir einhverju aðeins meiru (næla og eyrnalokkar).

En semsagt, ég væri verulega til í að vita hvernig þetta bleika konsept, með öllum möguleikum af bleikum leyfðum, kom út. Veit samt ekki til að það hafi verið tekin mynd af okkur.

og svo auðvitað

eru þvílík fráhvarfseinkenni frá Gershwin. Alltaf tómlegt þegar svona intensíft verkefni eru búin, hugsa að flestir kannist við slíkt. Mjög vel þess virði samt, allavega þegar verkefnið er jafn skemmtilegt og þetta.

Framundan í Hljómeyki eru svo auðvitað fullt af verkefnum, tónleikar með lögum um ástina (ekkert væmið samt, lofa) í nóvember, tónleikar og upptökur í Skálholti og á Myrkum músíkdögum í janúar með verki Sigurðar Sævarssonar sem við sungum í Skálholti í sumar, kórkonsertinn eftir Schnittke í maí og svo eitt mjög spennandi lokaverkefni á starfsárinu sem segist frá síðar.

hrrrikalega

var gaman í gær! Fyrir utan nú flottu sólistana og bandið sem er alltaf gott þá fékk kórinn endalaust hrós og ekki síður einsöngvararnir úr okkar röðum. Hlustið endilega á útsendinguna hér eða enn betra, tryggið ykkur einn þeirra fáu miða sem eru eftir í kvöld og skellið ykkur – lofa frábærri upplifun. sinfonia.is…

kvótaþingmaðurinn og listamennirnir

Var að lesa ágæta grein Stefáns Snævarrs um Listamannalaun, ofbauð auðvitað mörg kommentin (kemur ekki alveg á óvart, frá Eyjukommenturum, maður fær stundum alveg upp í kok) og skrifaði svar sem ég held að geti alveg staðið sjálft hér.

Listamannalaun eru verkefnatengd starfslaun. Ég veit ekki betur en að enginn treysti á þau sér til aðalframfæris nema í stuttan tíma í senn, mjög margir 4 mánaða styrkir, slatti af 6 mánaða, nokkrir eins árs og örfáir þriggja ára samningar. Launin eru miðuð við lektorslaun í Háskóla Íslands – ég satt að segja þekki nokkra kollega mína sem sækja aldrei um starfslaun listamanna vegna þess að maður verður að hætta að kenna (eða minnka það mjög mikið) og þeir kenna kannski 150% til að hafa í sig og á (já, „heiðarleg vinna“) og hafa hreinlega ekki efni á því að þiggja starfslaun listamanna. Þetta er nú allt bruðlið.

Stór verk, hvort sem það heita bækur, kvikmyndir, tónverk eða önnur list verða ekki svo glatt unnin á kvöldin eftir langan vinnudag – til þess eru launin að þannig verk geti orðið til hér. Auðvitað er hægt að setja spurningarmerki við hverjir fá, en reyndar eru úthlutunarnefndir skipaðar fulltrúum stéttar- og fagfélaga listamanna sjálfra, það er ekki einhver á skrifstofu í menntamálaráðuneyti sem úthlutar, þannig að allt tal um að verða of háður ríkinu per se er út í hött. Það er talsverður þrýstingur innan félaganna um að skiptingin sé réttlát og að enginn sé áskrifandi að starfslaunum. Tek líka fram að það eru engan veginn bara það sem var einu sinni kallað „æðri listar“ iðkendur sem fá starfslaun. Dugar að skoða síðasta lista til að sannfærast um slíkt. Jú, það eru fleiri úr þeim geira – en það eru kannski líka þeir sem eru að fást við stærri verk.

(Tek fram hér, sem ekki kom fram í svari, að ég hef tvívegis fengið starfslaun, annað skiptið til fjögurra mánaða og hitt til sex mánaða og ég hef ekki sótt um síðustu 6-7 árin þannig að ég er ekki að verja eigin tekjur).

Harpa já – það má svo sannarlega vera ósáttur við hvernig að þessari byggingu var staðið, ég veit að fullt af fólki er búið að berjast fyrir tónlistarhúsi hér, man eftir foreldrum mínum síðustu amk. 30 árin í Samtökum um byggingu tónlistarhúss. Margt þess fólks var satt að segja afar sárt þegar loksins kom að því að skyldi byggja og allt í einu var bara einhver ríkisbubbi búinn að eigna sér málið og reist skyldi gríðarlega stórt og dýrt hús sem aldrei var beðið um. En þetta var nú tíðarandinn á þessum tíma og þegar allt hrundi, mátu bæði borg og ríki að það myndi á endanum kosta talsvert meira að fresta byggingunni í óákveðinn tíma en hreinlega að keyra áfram og klára.

Ég veit frá fyrstu hendi að það er þegar búið að bóka stórar ráðstefnur og tónleika í húsinu, ég er svo sem ekki bjartsýn um að það muni standa algerlega undir sér en ég veit heldur ekki um neitt slíkt hús í heiminum sem stendur undir sér. Og stendur svo sem Laugardalshöll undir sér? eða öll íþróttamannvirkin sem er allt morandi í úti um allt land? Ekki dettur mér í hug að vera brjáluð yfir því að þau geri það ekki – en skil ekki almennilega í því hvers vegna það má ekki rísa eitt einasta hús undir tónlist án þess að allir brjálist (og það er ekki eins og það einskorðist við þetta sannarlega dýra hús).

Ansi hreint margir eru síðan búnir að benda á að hækkunin á listamannalaunum er ekki nema brot af upphæðinni sem þingmaðurinn greiddi sér „óvart“ í arð eftir hrun.

Sporting Life

heitir einn karakterinn í Porgy and Bess, einn af vonduköllunum í óperunni. Söngvarinn sem syngur hans hlutverk er æði (líka sú sem syngur Serenu, Porgy og Bess sjálf eru mjög fín en ég er enn hrifnari af þessum tveimur).

Hann setur meðal annars spurningar við sannleika Biblíunnar (enda vondurkall, munið þið). Arían er hrikalega skemmtileg, kórinn tekur undir og við þurfum að herma algerlega eftir því sem hann gerir og vitum ekkert fyrirfram hvernig hann syngur frasana. Fáránlega skemmtilegt, þið sem komið á tónleikana eða hlustið í útvarpinu, endilega hlusta eftir kórnum í aríunni It Ain’t Necessarily So, og sjá hvernig okkur tekst til. Þetta er ekki löngu eftir hlé ef ég man rétt.

Porgy og Bess

Hljómeyki og Kór Áskirkju ásamt svolitlu af aukafólki er að syngja með Sinfóníunni í frægustu jazzóperu tónlistarsögunnar. Stjórnandinn með þekktari túlkendum Gershwin, enda jazzpíanisti með meiru. Við æfðum með honum á mánudagskvöldið, hann var gersamlega með á hreinu hvað hann vildi og hætti ekki fyrr en við náðum stöðunum. Það var gríðarlega gaman.

Fyrsta æfing með Melabandinu í fyrramálið, ég get ekki beðið! Víst mjög flottir sólistar, allir útlenskir nema okkar eigin kórsólistar, Hallveig systir og Einar Clausen sem fá nokkrar strófur.

Eitthvað pínulítið eftir af miðum á föstudaginn, ég held það sé orðið uppselt á fimmtudagskvöldið. Ekki missa af þessu. Dat’s an aawdahh!

vikufrí

Listaháskólinn bara hefði ekki getað valið betri tíma til að senda fyrsta árið til Ísafjarðar í vinnuviku – við að syngja með Sinfóníunni (morgunæfingar) og svo er eldri unglingur að fara í hálskirtlatöku á morgun þannig að það er ógurlega gott að geta verið mikið heima. Tek mér líka frí úr kennslunni í Hafnarfirði á morgun til að geta verið hjá henni þannig að eina kennslan í vikunni var í gær. Ansi stutt kennsluvika það.

Svo er samt spurning hvort maður nái að nota tímann og semja. Má allavega reyna…

Apakattaeyja

Var með krakkana í Finns bekk í tónfræðinni í formgreiningu í dag. Lét þau greina þriðja kaflann úr E-dúr fiðlukonsert Bachs, þetta líka fína rondóform (sonurinn fattaði það, mamman montin).

Frekar auðgreinanlegt form, ABACADAEA þar sem A hlutinn kemur alltaf eins, tutti í hljómsveitinni en B-E kaflarnir eru grand sólókaflar hjá einleiksfiðlunni.

Auðvitað fóru krakkarnir að reyna að lesa eitthvað út úr stöfunum…

(og þið sem hélduð að ég væri að lýsa Íslandi með titlinum, vaþaggi???)

sushi partí

annað skipti hjá sushivinahópnum í kvöld. Frábært. Hittumst klukkan rúmlega þrjú og hömuðumst við að smíða maki, nigiri og sashimi í tonnavís (tja allavega svona þriðjungi meira en við fjórtán torguðum)

Höfðum skipt með okkur verkum, eða allavega að koma með það sem til þurfti, grjónið (að eigin sögn) kom með það sem viðáttiaðéta og flestöll áhöldin, við hin fisk og grænmeti. Fundum út að í stað tveggja og hálfs kílós af fiski myndi eitt og hálft væntanlega duga og 13 bollar af hrísgrjónum var OF MIKIÐ.

En hei, við eigum í nesti á morgun…

Ungsveitin

Fífa tók í dag þátt í öðru ævintýri Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta er svo mikið frábært framtak, krakkarnir fá nefnilega nánast engin tækifæri til að spila þessi stóru hljómsveitarverk með fullri stærð af hljómsveit. Ungfónían hans Gunnsteins er auðvitað fín og það er hægt að spila með okkur í áhugamannabandinu líka en hvorugt er neitt nálægt þessum level. Vinnan þarna algerlega á topp basis, krakkarnir taka þetta líka þvílíkt alvarlega, allir mæta á allar æfingar á réttum tíma, búnir að læra partinn sinn heima þannig að það þarf ekki nema að fínpússa og svo er tími til að búa til músík á æfingunum í stað þess að hamast á einhverjum stöðum sem sitja ekki.

Ég sat þarna ásamt nær fullum sal í Háskólabíói, á frábærum stað, 10. bekk nálægt miðju og naut Nóttar á Nornagnípu og fjórðu sinfóníu Tjækofskís. Að sjá alla þessa glæsilegu og kláru krakka, spilandi þarna eins og atvinnufólk, það var ótrúlega magnað.

Að ári er stefnt á fimmtu Mahler, í Hörpu, Fífa stefnir á að sækja um þá og Freyja líka. Samt ansi erfitt að komast að í sellóunum, þarf að undirbúa sig mjög vel. En fimmta sinfónía Mahlers er auðvitað ótrúlega flott stykki, við spiluðum hana hjá Zukofsky hér í fornöld og ég hef haldið mikið upp á hana síðan þá.

Allavega er ég bara svo ótrúlega þakklát fyrir að krökkunum bjóðist þetta tækifæri, Sinfó, takk fyrir okkur!

bíddubíddu

hvurslags október er þetta eiginlega? Maður bara úti hálfan daginn berfættur í sandölum og þunnri peysu.

Sá upp að 15 gráðum á mæli í dag, flestir voru svona 13-14°. Hér fyrir nokkrum árum hefði maður þakkað fyrir svona dag í júlí!

Draumurinn

Já takk – svona vildi ég gjarnan fá. Þá mætti leggja niður Reykjavíkurflugvöll á nóinu…


bland í poka

teljari

  • 373.229 heimsóknir

dagatal

október 2010
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa