mikið var skemmtilegt að skjótast norður, tónleikarnir hjá Ásdísi, Petreu, Láru Sóleyju, Helgu Bryndísi og Eyrúnu alveg frábærir, svo skemmtilegt að hafa ljóðalestur og málaralist og fatahönnun á tónleikunum (ókei, það var reyndar búið að hanna og sauma flíkurnar). Hvað hét nú ljóðskáldið? Gréta eitthvað – mig dauðlangar í bókina hennar þegar hún kemur út.
Bryndís Ásmundsdóttir kynnti þarna eins og herforingi með húmor – ekki skemmdi það fyrir heldur.
Við Jón bjuggum til úr þessu snemmbúna helgarferð, flugum norður í vetrarríkið seinnipart fimmtudags, tónleikar þá um kvöldið, nutum lífsins í rólegheitum í gær, náðum hluta af kórahátíð í Hofi í dag (reitar eiginlega sér blogg reyndar) og svo flogið heim klukkan fjögur. Og helgin ekki einu sinni búin. Gæti varla verið betra. Systir Jóns og mágur eiga stúdíóíbúð á besta stað í bænum og við fengum að vera þar, allt í auðveldu göngufæri.
Tókum út nokkra veitingastaði bæjarins á þessum örfáu dögum:
Bautinn – alveg fínn bara, ágætis borgari og pizza en það var eiginlega ekkert bearnaisebragð að bearnaisesósunni sem annars seldi mér borgarann.
Bláa kannan – alveg nothæft heitt súkkulaði, ég er búin að læra að sleppa þeytta rjómanum þegar ég veit ekki hvernig súkkulaðið á viðkomandi stað er, eiginlega bara súkkulaðið á Mokka, 10 dropar og 101 restaurant sem þolir að hafa þeytta rjómann án þess að verða of bragðlaust. Rúnnstykki með osti sosum svipað og hvar sem er annars staðar. Tvöfaldi espressóinn hans Jóns og langlokan voru ljómandi góð.
1862 Nordic Bistro í Hofi – afskaplega góðar smurbrauðsneiðar og fínt hvítvín með.
Strikið – besta risotto sem ég hef fengið á veitingastað hér á landi. Kjúklingabitar að mestu mjög góðir en þeir þynnstu voru við það að verða þurrir. Þjónustan fín, ágætis brauð og pestó borið fram fyrir mat, hvítvín hússins líka ljómandi gott.
Pizzustaðurinn Bryggjan var síðan langsíst – hvernig í ósköpunum dettur fólki sem rekur veitingastað í hug að hafa enska boltann gersamlega í botni yfir saklausu fólki sem er að reyna að borða í friði? Nevermænd boltapöbba en svona á ekki heima á veitingastað. (Enda var staðurinn galtómur). Sem betur fer datt okkur í hug að fá bara pizzurnar okkar í kassa og röltum með þær upp í íbúð hvar við kveiktum á kertum og skiptum á milli okkar einum bjór sem ég hafði ekki haft lyst á kvöldið áður eftir rísottóið á Strikinu. Pizzurnar voru sosum ekkert vondar reyndar.
Verst að hafa ekki asnast til að taka vídjóvélina með og taka upp tónleikana, eða allavega verkið mitt. Stelpurnar ætla að renna því inn fyrir mig fljótlega.
Eftir tónleika – komin í lopapeysuna frá mömmu:
á ég að trúa því að þið hafið ekki farið á Rub 23????
Jamm, fór þangað í vor þegar Hljómeyki var með tónleikana fyrir norðan og var ekki nema svona semiánægð með það. Þjónustan léleg og maturinn minn bara svona la-la.
Við vorum líka fyrir norðan um síðustu helgi – með unglingana okkar með okkur. Og bjuggum í Listagilinu – fyrir ofan fornbókabúðina við hliðina á kirkjutröppunum. Alveg hreint frábær staðsetning. Fórum á Sigló á föstudeginum – heimsókn til bróður míns og að sjálfsögðu að prófa nýju göngin. Sund á Hofsósi. Borðuðum reyndar ekki úti en gerðum vel við okkur í mat og drykk. Kíktum á kóramótið. Útlanda fílingur á Akureyri er svakalega skemmtilegur. Bláa kannan, Frúin í Hamborg. Og stelpurnar fóru á Rocky Horror og á Óróa. Nauðsylegt að samstilla fjölskylduna við og við. Ein tölva með í för en annars bara við fjögur og ekkert áreiti….
já það hefur örugglega verið æði – við förum líka reglulega með krakkana eitthvað svona en í þetta skiptið bara við tvö. Íbúðin sem systir Jóns Lárusar á er í gamla Tónlistarskólanum (eldgamla, þeas, við hliðina á hótel KEA. Mesta furða að við skyldum ekkert rekast saman! Fórum einmitt í Frúna í Hamborg og féllum fyrir einu stykki kertastjaka.
Við vorum reyndar bæði með tölvurnar en fórum ekkert á netið, það var ekki net í íbúðinni og við nenntum ekki að dragnast með þær út í bókabúð.
Ég keypti ekkert í Frúnni að þessu sinni – en í ágúst þegar við vorum á Akureyri keypi ég sex svona tekk bakka eins og voru til á hverju heimili í gamladaga og notaðir í veislum. Tilvalið undir smárétti…..