Sarpur fyrir 6. október, 2010

kvótaþingmaðurinn og listamennirnir

Var að lesa ágæta grein Stefáns Snævarrs um Listamannalaun, ofbauð auðvitað mörg kommentin (kemur ekki alveg á óvart, frá Eyjukommenturum, maður fær stundum alveg upp í kok) og skrifaði svar sem ég held að geti alveg staðið sjálft hér.

Listamannalaun eru verkefnatengd starfslaun. Ég veit ekki betur en að enginn treysti á þau sér til aðalframfæris nema í stuttan tíma í senn, mjög margir 4 mánaða styrkir, slatti af 6 mánaða, nokkrir eins árs og örfáir þriggja ára samningar. Launin eru miðuð við lektorslaun í Háskóla Íslands – ég satt að segja þekki nokkra kollega mína sem sækja aldrei um starfslaun listamanna vegna þess að maður verður að hætta að kenna (eða minnka það mjög mikið) og þeir kenna kannski 150% til að hafa í sig og á (já, „heiðarleg vinna“) og hafa hreinlega ekki efni á því að þiggja starfslaun listamanna. Þetta er nú allt bruðlið.

Stór verk, hvort sem það heita bækur, kvikmyndir, tónverk eða önnur list verða ekki svo glatt unnin á kvöldin eftir langan vinnudag – til þess eru launin að þannig verk geti orðið til hér. Auðvitað er hægt að setja spurningarmerki við hverjir fá, en reyndar eru úthlutunarnefndir skipaðar fulltrúum stéttar- og fagfélaga listamanna sjálfra, það er ekki einhver á skrifstofu í menntamálaráðuneyti sem úthlutar, þannig að allt tal um að verða of háður ríkinu per se er út í hött. Það er talsverður þrýstingur innan félaganna um að skiptingin sé réttlát og að enginn sé áskrifandi að starfslaunum. Tek líka fram að það eru engan veginn bara það sem var einu sinni kallað „æðri listar“ iðkendur sem fá starfslaun. Dugar að skoða síðasta lista til að sannfærast um slíkt. Jú, það eru fleiri úr þeim geira – en það eru kannski líka þeir sem eru að fást við stærri verk.

(Tek fram hér, sem ekki kom fram í svari, að ég hef tvívegis fengið starfslaun, annað skiptið til fjögurra mánaða og hitt til sex mánaða og ég hef ekki sótt um síðustu 6-7 árin þannig að ég er ekki að verja eigin tekjur).

Harpa já – það má svo sannarlega vera ósáttur við hvernig að þessari byggingu var staðið, ég veit að fullt af fólki er búið að berjast fyrir tónlistarhúsi hér, man eftir foreldrum mínum síðustu amk. 30 árin í Samtökum um byggingu tónlistarhúss. Margt þess fólks var satt að segja afar sárt þegar loksins kom að því að skyldi byggja og allt í einu var bara einhver ríkisbubbi búinn að eigna sér málið og reist skyldi gríðarlega stórt og dýrt hús sem aldrei var beðið um. En þetta var nú tíðarandinn á þessum tíma og þegar allt hrundi, mátu bæði borg og ríki að það myndi á endanum kosta talsvert meira að fresta byggingunni í óákveðinn tíma en hreinlega að keyra áfram og klára.

Ég veit frá fyrstu hendi að það er þegar búið að bóka stórar ráðstefnur og tónleika í húsinu, ég er svo sem ekki bjartsýn um að það muni standa algerlega undir sér en ég veit heldur ekki um neitt slíkt hús í heiminum sem stendur undir sér. Og stendur svo sem Laugardalshöll undir sér? eða öll íþróttamannvirkin sem er allt morandi í úti um allt land? Ekki dettur mér í hug að vera brjáluð yfir því að þau geri það ekki – en skil ekki almennilega í því hvers vegna það má ekki rísa eitt einasta hús undir tónlist án þess að allir brjálist (og það er ekki eins og það einskorðist við þetta sannarlega dýra hús).

Ansi hreint margir eru síðan búnir að benda á að hækkunin á listamannalaunum er ekki nema brot af upphæðinni sem þingmaðurinn greiddi sér „óvart“ í arð eftir hrun.

Sporting Life

heitir einn karakterinn í Porgy and Bess, einn af vonduköllunum í óperunni. Söngvarinn sem syngur hans hlutverk er æði (líka sú sem syngur Serenu, Porgy og Bess sjálf eru mjög fín en ég er enn hrifnari af þessum tveimur).

Hann setur meðal annars spurningar við sannleika Biblíunnar (enda vondurkall, munið þið). Arían er hrikalega skemmtileg, kórinn tekur undir og við þurfum að herma algerlega eftir því sem hann gerir og vitum ekkert fyrirfram hvernig hann syngur frasana. Fáránlega skemmtilegt, þið sem komið á tónleikana eða hlustið í útvarpinu, endilega hlusta eftir kórnum í aríunni It Ain’t Necessarily So, og sjá hvernig okkur tekst til. Þetta er ekki löngu eftir hlé ef ég man rétt.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

október 2010
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa