Stavanger dagur #5

Við vorum _sérlega_ upplitsdjarfar þegar við rifum okkur upp tveimur tímum eftir að hafa farið í háttinn en hljómsveitaræfingin beið víst ekki eftir að okkur þóknaðist að vakna. Þannig að við fórum á fætur klukkan 8, ösluðum gegnum venjulegu teppiseðjuna, slabb slabb.

Við vorum sótt 20 mín. fyrir 9. Keyrð til Tastaveden skóla þar sem æfingin átti að vera. Okkur leist minna og minna á þetta, helst leit út fyrir að fólkið sem átti að spila með okkur hefði lært max. 1 ár á hljóðfærin, amk. strengjaleikararnir. Það voru 2 konur þarna (örugglega útkjálkafiðlukennarar) sem gátu svolítið spilað en greinilega óvanar hljómsveitavinnu (finnst þér ekki augljóst að ef maður á að spila langan tón í crescendo að byrja þá á uppstroki? Þær föttuðu það ekkert fyrr en þær sáu okkur Hildu gera slíkt). Hinir voru svona ca. fyrsta árs nemendur. Verkið (Latin Suite eftir Bent Lorentzen) var svona effektastykki, ekkert erfitt þegar maður er búinn að fatta það. En þessi æfing var samt ein alleiðinlegasta upplifun ævi minnar. (gæti svo sem líka haft með eigin svefnleysi að gera). Við flýttum okkur, þegar æfingin var búin, að biðja um frí daginn eftir vegna þess að þá áttum við að halda tvenna tónleika. Það var sem betur fer auðsótt. Æfingin var búin klukkan 11 og svo átti að vera matur klukkan 12:30. Við nenntum ekki að hanga þarna í 1 1/2 tíma, þar sem ekkert var við að vera þannig að við löbbuðum niður í bæ. Tvö okkar ætluðu svo að koma aftur í skólann og borða en við Bryndís vorum búin að ákveða að fá okkur pizzu niðri í bæ. Tók kortér að labba niður í Tónlistarhús þar sem við gátum skilið hljóðfærin eftir og svo annað kortér niður í miðbæ. Skoðuðum pínulítið í búðir en fórum svo á pizzustaðinn (Peppe’s, mjög góðar pizzur). Þau tvö sem höfðu ætlað að fara til baka í skólann hættu við og fengu sér pizzu með okkur því þau nenntu ómögulega að labba hálftíma til að fá mötuneytismat. Sáu ekki eftir því, þar sem þetta var besti maturinn sem við fengum alla ferðina, kannski fyrir utan kjúkling og salatbar sem við keyptum á Grand Café í Osló á leiðinni til Stavanger. Á meðan hinir… tja…

Þegar við komum aftur upp í konserthús til að æfa fyrir tónleikana daginn eftir hittum við hina í hópnum (sem voru ekki í hljómsveitinni). Þau spurðu okkur hvar við hefðum verið, þar sem þau höfðu ekki séð okkur í matnum. Þau höfðu fengið einhverja viðbjóðslega kássu; soðið kjöt, grænmeti og kartöflur, allt algerlega mauksoðið og fullkomlega bragðlaust. Það hlakkaði náttúrlega í okkur hljómsveitargenginu.

Þennan dag, daginn fyrir konsertana okkar, fengum við að æfa í 2 tíma í litla konsertsalnum. Það var fínt. Hefðum reyndar líklegast verið rekin út ef mamma hefði ekki tilfallandi verið með blaðið með æfingatímunum þar sem stóð svart á hvítu að við ættum salinn þennan tíma. En við vorum semsagt heppin með það. Höfðum salinn frá 5-7.

Fórum svo heim til Ramsvíkur. Lyktin á ganginum var verri en nokkru sinni fyrr. Teppið var samt farið að þorna frá um nóttina. Allt í einu stoppaði ég. „Bryndís“! „Já“? „ÞAÐ RIGNDI EKKERT Í NÓTT!!!“

Geturðu ímyndað þér hvað þessi leki reyndist vera? Frárennslisvatnið frá sturtunum á hæðinni fyrir ofan!!! Ekki furða þó það hafi alltaf lyktað illa. Þetta myndu held ég flestir kalla óheilsusamlegar aðstæður. Eða hvað?

Ég var annars held ég ekki búin að lýsa fyrir þér herbergjunum. Við 9 fengum 2 1/2 herbergi (2 herbergi og stóran fataskáp með rúmi) Mamma og pabbi fengu fataskápinn, strákarnir tveir gátu breitt úr sér í stóru herbergi og við stelpurnar 5 höfðum eitt herbergi saman, sem betur fer þokkalega stórt. Þar var 1 rúm, 1 sófi og þrjár sváfu á dýnum á gólfinu.

En þetta var nú útúrdúr. Þarna um kvöldið borðuðum við ávexti, osta og smá bjór og allir fóru snemma að sofa, enda urðum við að vera vel upplögð fyrir tónleikana daginn eftir. Íslenskur tónmenntakennari sem var þarna á mótinu átti að stjórna samsöng með íslenskum lögum morguninn eftir og hafði ætlað að biðja okkur að leiða sönginn en hætti sem betur fer við það svo við fengum að sofa út.

0 Responses to “Stavanger dagur #5”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 373.752 heimsóknir

dagatal

ágúst 2010
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: