eldgömul ferðasaga

Eins og dyggir lesendur þessa bloggs hafa væntanlega tekið eftir, hefur það eiginlega breyst í ferðasögublogg með fáeinum öðrum færslum inn á milli, svona þegar eitthvað liggur á hjarta sem þarf lengra mál en flettismettistatus (ég ÆTLAÐI ekki að hrynja svona – dauðsé eftir blogginu sko).

Nú sé ég ekki fram á neinar ferðir til að skrifa sögur um næstu marga mánuði (stefnt á Boston í mars reyndar, en það er laaaangt þangað til). Þannig að mér datt í hug að henda inn gömlu ferðasögubréfi sem ég skrifaði til vinkonu minnar eftir kórferð til Noregs þegar ég var, tja, ríflega tvítug.

Já, hvers vegna ég eigi bréfið? – ég tók reyndar ljósrit af því áður en ég sendi…

Ferðin var á NMPU þing (Nordisk musikpedagogisk union) í Stavanger, við vorum um 10 krakkar sem bæði sungum og spiluðum á hljóðfæri, fórum sem fulltrúi Íslands undir stjórn móður minnar.

Byrja eftir smá inngang sem kemur hvorki sögunni né ykkur nokkurn hlut við.

Nú nú, ætli ekki sé best að byrja á ferðasögunni. Eins og að hefur verið ýjað tóku Norðmenn ekki ýkja höfðinglega á móti okkur, þú hefðir t.d. átt að sjá húsið sem við sváfum í (tja, það varð svo sem ekki mjög mikill svefn, því skal ég segja frá svolítið seinna). Leit ekkert mjög hryllilega út að utan en herbergin voru ferlega shabby, vægast sagt. Og GANGURINN, oj barasta! Það var ógeðsleg lykt þar, sem magnaðist með hverjum deginum sem leið. Það var viss ástæða fyrir því!

Nú, þegar við komum þarna fyrst, leist okkur heldur lítið á þetta. Fengum morgunmat, brauð, te, jarðarberjasultu og lifrarkæfu, það var svo sem ágætt (við urðum samt svolítið leið á því, fengum þetta sama hvern morgun og hvert kvöld meðan við vorum þarna). Fengum nóg af þessu, eins mikið og við vildum, konan sem sá um okkur þarna var alveg ágæt. Eftir morgunmatinn fórum við niður í bæ => upp í konserthús. Vorum við opnun þingsins, þar spilaði Rogalands Ungdomssymfoniorkester. Þau spiluðu meðal annars síðasta kaflann úr fimmtu sinfóníu Beethovens EINFALDAÐAN!!! Það myndi ekki einu sinni (setjið hér inn nafnið á ómerkilegum hljómsveitarstjóra – ritskoðað) gera! Hálfgerð guðspjöll (guðlast/helgispjöll). En það var svo sem í lagi (ég meina spilamennskan).

Á eftir fórum við að vesenast í hvernig þetta ætti að vera allt saman. Fengum að vita að við yrðum sótt í allt sem við þyrftum að mæta í (hljómsveitaræfingar og konserta). Fyrir aðrar ferðir myndum við sjálf borga í strætó, gætum líka alveg verið uppi í Ramsvik þar sem við bjuggum. Nema hvað, við áttum auðvitað að borða í Konserthallen í hádeginu en það þurftum við náttúrlega ekkert. Borða – til hvurs??! En við fengum þessu ekkert breytt þannig að það þýddi ekkert að hugsa um það (kom í ljós að við hefðum eins getað sleppt þessum mat; fyrsta daginn fengum við tvær minikjötbollur, 2 stórar (!!) kartöflur og smá sósulafs, vatnsþunnt. Annað eftir þessu).

En við ákváðum að gera eins gott og hægt var úr fremur lélegum aðstæðum. Eins gott að byrja á jákvæðu hugarfari. Þessu héldum við svo áfram, gerðum bara grín að öllu saman. Ekki veitti af.

Við ákváðum að æfa á hverjum degi fram að konsertum, (það veitti ekkert af því heldur) og fengum stofu í Musikkskolen sem við gátum æft í og læst hljóðfærin inni yfir nóttina svo við þyrftum ekki að dröslast með þau fram og til baka frá Ramsvik á hverjum degi. Það var mikill munur. Nefnilega ekki svo auðvelt að komast frá Ramsvik til konserthússins, það gekk strætó frá miðbænum (svona þriggja kortéra ferð – innskot) og síðan var kortérs gangur í húsið.

Þegar við komum aftur til Ramsvik um kvöldið hittum við big-bandið sænska, þá grúppu sem við áttum eftir að hafa mest samskipti við, allavega ég og tvær vinkonur mínar. Fundum okkur strax kavaléra, Jonas, Jonas og Janus (kallaðir Jomas hinn símalandi, (J)Onassis og Pianus (sá spilaði á píanó), þeir snerust í kring um okkur sirkabát þar til þeir fóru. Það var fínt, mikið meira en annars.

Nú nú, þessa fyrstu nótt fórum við (þrjár) að sofa um klukkan 2:30. Ekki sem verst.

Framhald einhvern næstu daga.

Auglýsingar

2 Responses to “eldgömul ferðasaga”


 1. 1 baldur mcqueen 2010-08-15 kl. 00:16

  Gaman að þessu!

  Ég fór einhvern tíma í ferðalag um norðurlöndin með blásarasveit tónlistarskólans á Akureyri – en allt klúður í þeirri ferð var heldur mér að kenna (og aldrinum), en Norðmönnum eða fararstjórum 😉

  Annars vildi ég þakka þér fyrir „Mass of Guðbrandur“, sem ég hlusta reglulega á milli Leeds og Manchester. Sérstaklega þegar það er þungbúið eða rigning (er mjög mikið í að tengja tónlist og veður).

  Einhvern vegin finnst mér „Inspired by Iceland“ hefði heppnast mun betur ef peningunum hefði verið veitt í hæfileikarík tónskáld og aðra listamenn, sem sannarlega eru fyllilega samkeppnishæf(ir) við það sem best gerist í „úglöndum“!!!!

  Meira um það síðar á eigin bloggi, e.t.v. 😉

 2. 2 hildigunnur 2010-08-15 kl. 00:23

  Takk fyrir það – gott að vita að Guðbrandsmessa fellur í góðan jarðveg.

  Ekki að við höfum aldrei klúðrað neinu, en í þessari ferð voru það sannarlega Nojararnir en ekki við.

  Hlakka til að lesa, ef þú skrifar um Inspired 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 367,022 heimsóknir

dagatal

ágúst 2010
S M F V F F S
« Júl   Sep »
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: