Dagur #16. Nei, ekki heim.

Svaf ekki sérlega vel, var alltaf að vakna þarna í Londonfluginu, Dottaði þó alltaf á milli. En fluginu miðaði vel og ekkert var minnst á ösku í tilkynningum frá áhöfn vélarinnar fyrr en rétt í lokin þegar við þurftum að taka aukahring vegna þess að völlurinn var rétt nýopnaður og biðröð var af vélum til lendingar.

hringsól

spes að sjá ísland á arabísku:

Lentum áfallalaust, meira að segja óvenju mjúklega. Út fórum við. Þá tók nú við vesen dauðans.
Auðvitað hafði fluginu okkar verið aflýst eins og ég var ansi hrædd um . Ekki einu sinni flogið til Akureyrar. Við lentum í þvílíkum vandræðum með að finna út úr málunum, fórum fyrst þar sem var merkt Upplýsingar, það reyndust bara vera innritunarborð, stelpan sem sat undir Icelandair merkinu vissi gersamlega ekkert í sinn haus, sú sem sat við hliðina á henni undir Aer Lingus merki virtist voða hjálpleg og sagði að við ættum að fara á hlið númer 14 til að fá meiri upplýsingar. Hlið númer 14 var bara óvart ekkert til á terminal 1. Bara hlið 1-12 og svo 16-29 og upp úr eitthvað, 60 minnir mig. Fórum aftur til hennar – ha, ó þá hafa þeir breytt þessu eitthvað…
Vísaði okkur fram að öryggishliði og þar fundum við loksins mann sem gat leiðbeint okkur. Sagði okkur að fara gegn um vegabréfaskoðun og inn að farangursrúlluböndum, þar ætti dótið okkar að koma úr því flugið hefði verið fellt niður. Við þangað, enginn farangur reyndar en töluðum við alveg ógurlega almennilegan mann í týnds farangurs afgreiðslubás sem þjónustar Icelandair. Hann ráðlagði okkur að bíða 10-15 mínútur, við biðum reyndar alveg vel það en eftir tæpan hálftíma kom hann til okkar aftur þar sem ekkert gerðist og fékk farangursmiðana okkar. Hringdi í Etihad og þeir höfðu þá haldið töskunum eftir þar sem fluginu var aflýst. Ekki veit ég hvernig þeir ætluðu síðan að vita með hvaða vél við færum heim, en jæja, töskurnar fundust allavega. Sá almennilegi fór út í eigin persónu og tók á móti töskunum fyrir okkur og kom með inn á vagni. Sagði okkur síðan hvert við ættum að fara og við hverja ættum að tala í framhaldinu. Reyndist lítil afgreiðslulúga við innskráningarborð fyrir Icelandair, þar var líka hinn indælasti maður sem skráði okkur í fyrsta flug morguninn eftir (krossa putta að Eyjó hagi sér) og sagði að við ættum að tala við hótelbókunarfólk á hæðinni fyrir ofan, Icelandair myndi svo borga hótelið, þar sem við vorum búin að tékka okkur inn eiga þeir að bera ábyrgð á því.

Við upp, það var þvílíkt vesen að finna hótel, gaurinn missti af allavega tveimur herbergjum sem hann ætlaði að bóka vegna þess að hann vildi vera viss um að við gætum tékkað okkur strax inn, þyrftum ekki að bíða til klukkan tvö eða eitthvað (hrollur!) og það tók tíma að ná í afgreiðsluborðin á hótelunum. Tókst samt á endanum, fengum alveg tígrisdýrt herbergi á hóteli samföstu Terminal 5. Ég held að við höfum einu sinni gist í svona fínu herbergi áður. Risastórt með lötustrákastólum og baðsloppum og baðkari sem átti greinilega að nota, ekki sem sturtubotn, meira að segja sjónvarp við endann (ekki nýttist það nú, þetta var kaldasta heitt bað sem ég hef tekið – himneskt samt) en frítt net, neeeeiiii! Gat nú verið.

Þetta hér var fögur sjón:

stóra rúmið
ég gæti vel vanist svona rúmi…

Skutumst í bæinn (tja, skutumst, tók klukkutíma með tube hvora leið) og fengum okkur að borða á breskum pöbb, ekki frítt net þar heldur en fínn pöbbamatur. Var allt í einu ekkert viss um hvort maður ætti að tipsa á pöbbum þannig að ég sendi einum af bretlandssérfræðingum familíunnar sms – jú hann vildi meina að maður gerði slíkt, þegar maður fengi sér að borða. Skildum samviskusamlega eftir 2 pund. Næsta sem við reyndum var Starbucks, keyptum okkur risastóran tebolla (ég) og oggupínulítinn espressobolla (Jón Lárus), ég var of þreytt og dösuð til að nenna að draga upp vídjóvélina til að taka mynd af Litla og Stóra bolla, ásamt sitthvorri brúnkunni en auðvitað þurfti maður síðan að vera með eitthvað Starbuckskort, notendanafn og lykilorð til að tengjast netinu sem kaffihúsið lofaði á miða á hurðinni. Great! Skutumst í Marks&Sparks og keyptum eitthvað smotterí til að hafa á hótelinu og tókum tube aftur upp á Heathrow. Var sídottandi í lestinni, vildi til að Terminal 5 var endastöðin annars hefði ég verið skíthrædd um að fara of langt.

Hótelherbergið var himnaríki að koma inn í, keyptum klukkutíma netaðgang og kíktum örstutt og svo bara í bólið þó klukkan væri bara um sjö – okkar líkamsklukka sagði 5 næsta morgun. Reyndist síðan þrautin þyngri að ná í restina af netklukkutímanum – reyndar bara ekki hægt, það var þó hægt að kaupa sér klukkutíma af neti á ástralska talsvert ekki jafnfína eða dýra hótelinu. Spes.

Ljósin á okkur slökknuðu rétt upp úr sjö, náðum ekki einu sinni að borða Marks&Sparks kvöldmatinn (ólífur og þistilhjörtu í brine, 4 grillpinnar af kjúklingi og 2 box af súkkulaði- og vanillubúðingi). Bara hrundum útaf.

4 Responses to “Dagur #16. Nei, ekki heim.”


 1. 1 Guðlaug Hestnes 2010-06-17 kl. 23:07

  Ja þetta hefur ekki verið neitt grín. Kærust í bæinn.

 2. 2 hildigunnur 2010-06-18 kl. 00:19

  Mesta furða hvað þetta var lítið erfitt reyndar – svona rétt fyrir utan þegar við vissum ekki hvernig við ættum að finna farangurinn og redda ferðinni heim daginn eftir.

 3. 3 baun 2010-06-22 kl. 17:14

  Æ, það er svo leiðinlegt að lenda í svona veseni á ferðalögum. Og ég höndla svefnleysi og tímamismun afar illa, þannig að ég finn til með ykkur, þótt það sé auðvitað vita gagnslaust:)

 4. 4 hildigunnur 2010-06-22 kl. 19:00

  Úff já leiðinda vesen en það var nú gott að geta farið á hótelið og sofið – heimleiðin var svo ekkert mál. Ég sé mig ekki hafa getað sungið á tónleikunum um kvöldið sem ég annars átti að gera.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.752 heimsóknir

dagatal

júní 2010
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: