Dagur 13. Loksins kengúrur.

Steinsváfum til hálfátta, hrikalega gott. Jón Lárus tók morgunskokkið í rólegheitunum (HAHAHAHA, held hann gæti ekki skokkað rólega þó hann reyndi) ég í sturtu á meðan. French toast í morgunmatnum, það var nýjung.

Þennan daginn bara skyldum við ná að sjá kengúrur. Það hreinlega gengur engan veginn að koma til Ástralíu og sjá ekki þjóðardýrið, þjóðarblómið sáum við daginn áður. Úrkula vonar um að sjá þær lausar í náttúrulegu umhverfi en langaði ekki sérstaklega í dýragarðinn fórum við milliveg, lítinn dýragarð í úthverfi Sydneyborgar. Út á lestarstöð, keyptum miða fram og til baka til Pennant Hills og strætó þaðan. Gekk reyndar ekki alveg þrautalaust, metró tafðist um meira en hálftíma, fyrst vegna slyss á farþega á stöð einhvers staðar á undan, svo breyttist það í dauðsfall og endaði á lögregluaðgerðum, ófagurt. Lentum einu sinni í svipuðu í Kaupmannahöfn, frekar óhugnanlegt.

Ferðin gekk síðan ágætlega þegar við loksins komumst af stað. Lestin fór yfir Hafnarbrúna, því miður var ég ekki nógu fljót upp með vídjóvélina, hefði verið gaman að ná bút þar. Einni mynd náði ég nú samt.

Lestarferðin tók tæpan klukkutíma. Fórum vitlausu megin út úr stöðinni í Pennant Hills og fundum ekki strætóstoppustöðina en sem betur fer kom það ekki að sök, náðum samt vagninum þegar við vorum búin að átta okkur á málinu. Væri reyndar synd að segja að merkingar í og við lestirnar séu góðar, engin kort né listi inni í vögnunum um hvert lestin sé að fara né stoppustöðvar á leiðinni, frekar óskýrar merkingar á brautarpöllunum, litakóðar jú á leiðunum en alls ekki nógu vel nýttir. Kannski fara hönnuðir kerfisins þarna álíka oft með lestum og stjórnendur Strætó í Rvk stíga upp í strætisvagna.

Litli dýragarðurinn virtist fremur févana, svolítill skortur á umhirðu en dýrunum virtist líða vel að maður fengi séð, þokkalega stór svæði sem þau höfðu og skuggsæl svæði sem þau gátu leitað skjóls. Þarna mátti bæði klappa kengúrum og kóalabangsa, feldurinn á kengúrunum var mýkri, það hefði ég ekki ímyndað mér.

Tók slatta af myndum, þar af nokkrar á símann til að geta sent Freyju, hún var búin að biðja um að við sendum kengúrumynd til sín.


Þessi mynd af símanum fór til Freyju.

Kláruðum dýragarðinn og þurftum síðan að bíða smástund eftir strætó til baka. Sá runna sem mig langar óhemju í, í garðinn minn (hugsa að familían fari að hlæja að myndinni)

Til baka með strætó og lest, fórum tveimur stöðvum fyrr út þar sem við ætluðum ekki alla leið á hótelið strax heldur út að borða í Circular Quay (sem mig minnir ég hafa verið búin að tala um að sé alls ekkert hringlaga). Þorbjörn bróðir og Helga mágkona höfðu eindregið mælt með að við settumst niður á kínverskt veitingahús við Circular, með útsýni yfir að óperuhúsinu og fengjum okkur að borða.

Enduðum reyndar á veitingahúsinu við hlið þess kínverska, búandi í Kínahverfinu miðju höfðum við jú borðað austurlenskan mat nær alla dagana þannig að þarna þegar við fórum einna fínast út að borða fengum við okkur ástralskan mat. Jón Lárus fékk sér Barramundifisk, hafði alltaf langað að bragða slíkan en ég fékk kengúru og krókódíl á kartöflubeði og með bearnaisesósu.

Alveg fáránlega gott og auðvitað gríðarleg stemning að sitja á útiveitingahúsi með útsýni yfir frægasta og mögulega flottasta óperuhús í heimi.
Þannig að ég sá og borðaði kengúru sama daginn. Krókódíllinn bragðaðist svo eins og kjúklingur…

Eftir mat gengum við síðan yfir í Óperuhúsið, ætluðum að taka þar rúnt með leiðsögumanni en hneyksluðumst á verðinu og tókum Bryson á þetta, tímdum því ekki. Því miður voru engar óperusýningar allan tímann sem við vorum þarna, ég hefði mikið frekar tímt að borga mig inn á flotta sýningu en að borga 4000 kall á manninn fyrir að fara í göngutúr um húsið og heyra enga tónlist nema þá kannski af upptöku. Nei takk – maður verður bara að fara aftur til Ástralíu og fara á almennilega sýningu í húsinu.

Skroppið í aðal vínbúðina, sem var ekki langt frá Circular, keyptar 2 flöskur af víni sem var komið í algjört uppáhald, Jón Lárus segir betur frá því hér:

Sydneyjarferja frá Circular yfir í Darling Harbour, stoppað á 3 stöðum á leiðinni, farið að skyggja, skemmtilegt. Hér sést mynd af innganginum í Luna Park, aðalskemmtigarð Sydney.

Unaðslegt að sigla þarna um kvöldið, ég held að höfnin og allt það svæði sé það sem heillar mig mest við Sydney. Ótrúlega margar víkur og vogir, eyjar og strendur og allt svo hreint, eitthvað.

Hótel, net, bók og rauðvín í vatnsglasi, bara einn heill dagur eftir.

4 Responses to “Dagur 13. Loksins kengúrur.”


  1. 1 Eva Hauksdóttir 2010-06-4 kl. 08:40

    Oh, mig langar ekkert smá að klappa kóalabirni. Ég hefði líka giskað á að kóalabirnir hlytu að vera mýkri en kengúrur.

  2. 3 vinur 2010-06-6 kl. 02:13

    Skemmtilegt að lesa ferðasöguna.Ég smakkaði krókódíl í fyrra og fannst hann ekki góður því mér fannst hann svo seigur og það truflaði mig líka að vita að ég væri að borða krókódíl held ég 😉 Yndisleg myndin af þér með kóalabirninum,svo fallegir.Kveðjur,Svanfríður.

  3. 4 hildigunnur 2010-06-6 kl. 09:09

    Svanfríður, þessi var sko langt langt frá því seigur, nánast eins meyr og kjúklingabringa elduð hárrétt 🙂 Truflaði mig eiginlega meira að borða kengúru, þær eru svo sææætar…


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 373.752 heimsóknir

dagatal

júní 2010
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: