Í dag er frumburðurinn sjálfráða, tíminn flýgur víst svolítið hratt.
Ekki var það nú eingöngu þess vegna sem við ákváðum að grilla í dag, við Jón Lárus höfðum samþykkt að sýna mat í grillblaði Vikunnar sem er á leiðinni út. Þegar ég hafði játað þessu við hana Gurrí mína uppgötvaði ég að þó við séum óhemju dugleg að prófa nýja rétti og prófa okkur áfram með ýmsan mat erum við ekki sérlega tilraunaglöð við grillið. Oftast grillum við lambalundir, bara með salti og pipri, bakaðar kartöflur og laukur með, stundum borgara eða pylsur, stundum fisk, yfirleitt afskaplega einfalt. Eins og er svo sem oft best.
Það er samt kannski ekki nógu spennandi til að gefa sem uppskrift í grillblaði. Lagðist í netrannsóknir, fann eina uppskrift sem mér leist á, hnikaði henni nú talsvert til samt svo ég stæli ekki beint og við prófuðum þetta um daginn. Reyndist mjög gott.
Svo hringdi ljósmyndarinn í morgun og spurði hvenær hann gæti komið og tekið mynd. Jújú, í kvöld, allt í fína með það, klukkan 6 skyldi hann koma.
Hjólaði í snilldar veðri út í Melabúð og keypti lambakótilettur, átti allt í löginn (þegar blaðið kemur út verður uppskriftinni velt út á Brallið). Heim, blanda lög, settist aftur við tölvuna og veit ekki fyrr en það er farið að hellirigna.
Nújæja, skúrin gengur yfir. Jón Lárus kemur heim um hálfsexleytið og hendir yfir kolunum, tíu mínútum eða svo seinna mætir síðan ljósmyndarinn. Og næsta skúr.
Ekki dugði að bíða, kolin orðin grá, við út, tekin af okkur mynd úti í garði í hellirigningunni og svo grilluðum við í sameiningu, Jón Lárus á grillinu og ég með regnhlífina fyrir ofan.
Stundum væri ég til í að eiga ekki svona kreppugrill…
Ég HATA grillmat! Við keyptum kreppugrill í apríl á 200 kall (það eru sko allir með fokdýr weber-grill úti á palli hér í kring um okkur). Það var svo grillað á því pylsur í rigningu og það mislukkaðist alveg heilt yfir.
Ég á aldrei eftir að grilla aftur.
tíhí, mig langar reyndar í Weber, kolagrill samt en ég hugsa ég láti 7-8 ára kreppugrillið duga í sumar samt.
Vonlaust þegar eldamennskan klikkar svona heilt yfir!
Innilega til hamingju með Fífu. (Ég held ég hafi haldið í mér í gær á feisbúkk, því ég nennti ekki að fá 100 notifications allan daginn:))
Kristín haha takk – það er líka mikið meira gaman að fá komment á bloggið en á smettið, það týnist ekki eins.