Dagur #11. Brunabjallan

Sváfum út, vöknuðum ekki fyrr en hálfátta bæði tvö, fyrsta skipti í allri ferðinni sem við fengum almennilegan nánast óslitinn svefn heila nótt. Og styttist í brottför, auðvitað.

Hefðum kannski sofið enn lengur hefði ekki brunabjallan í hótelinu farið af stað þarna klukkan hálfátta, við auðvitað hoppuðum í fötin og hrifsuðum veskin og ætluðum út en þá þagnaði bjallan þannig að við fórum niður í morgunmat í staðinn. Veltum fyrir okkur hvort við ættum að þora að taka lyftuna, það er enginn almennur stigagangur á hótelinu, bara brunastigar og svo lyfta. Enduðum á að hætta á lyftuna. Sáum tvo slökkvibíla með blikkandi ljós fyrir utan, út um gluggann í morgunmatnum, bjallan fór aðeins aftur í gang en hótelstaffið í morgunmatnum var hið rólegasta þannig að við vorum ekkert að rjúka alla leið út á götu. Mætti halda að maður væri á Íslandi.

Bláfjallaferðin frestaðist fram á fimmtudaginn, þessi dagur færi í safna- og garðaskoðun. Fórum í Australian Museum og sáum stórkostlega sýningu um risaeðlur og um dýra- og fuglalíf Ástralíu. Snilldar gagnvirkt borð með upplýsingum um hættuleg dýr sem virtust stökkva upp að fólki. Hrikalega flott.

Japanskur hádegismatur, skemmtilegt hlaðborð, ég hef ekki áður séð viðvörun á hlaðborði að ef maður taki sér meira en maður geti borðað þurfi að borga aukalega. Sniðugt.

Svo tókum við annan rúnt í Grasagarðinum. Ég gæti sett upp hálftíma myndasýningu bara með myndunum þaðan. Gríðarlega skrítið að sjá allar þessar plöntur, maður verður bara hissa að sjá einhverja þekkta. Nema reyndar slatti af blómum sem eru stofublóm hérna heima. Sáum rósmarínrunna sem er svipað stór þeim sem við eigum í forstofuglugganum, hann er reyndar alveg magnað stór.

Hljómar eins og við höfum ekki gert nokkurn skapaðan hlut þennan dag en klukkan var nú samt orðin rúmlega þrjú þegar þarna var komið. Maður verður alltaf svo þreyttur í fótunum á svona borgaplampi, ákváðum að drífa okkur upp á hótel, þrjár búðir í leiðinni, keyptum stórt púsluspil með heimskorti handa Finni og eina bók, við áttum nefnilega svo fáar…

Skiptum milli okkar síðasta klukkutímanum, algerlega skítkalt inni á hótelherberginu, Ástralir eru örugglega eins og Bretar, byrja ekki að hita húsin fyrr en einhvern ákveðinn dag, alveg sama hvort kalt er eða heitt úti. Svo sem ekkert ískalt, 11-19° úti þennan dag en munaði samt alveg nokkrum °, hafði verið alveg upp í 26° dagana á undan. Stakk tölvunni heitri undir sængina mína til að halda heitu, meðan við skruppum út að borða.

Tælenskur staður varð fyrir valinu þetta kvöldið, búandi í Kínahverfinu miðju notuðum við tækifærið að taka út mismunandi asíska matargerð. Búin með kínverskt, japanskt, malasískt, suðurkóreskt, tælenskt í kvöld, víetnamskt og mögulega tævanskt eftir. Skemmtilegt. Höfðum hins vegar hvergi séð ástralska staði, ítalskt, spænskt, þýskt, meira að segja breskt og portúgalskt en enga surf’n’turf staði eða þá kengúrukjöt og krókódíla. Skrítið.
Á þessum greinilega vinsæla tælenska stað (stappfullt á miðvikudagskvöldi) urðum við að prófa pad-thai núðlur og sveimérþá ef Krúa er ekki bara betra! Ísinn og kaffið voru hins vegar snilld.

Upp á hótel og í náttföt, skriðum beina leið undir sæng og teppi, tölvan hafði haldið heitu fyrir mig. Var að spá í að ná mér niðri á hótelinu fyrir kuldann og fara í karbað alla dagana sem eftir væri…

Auglýsingar

2 Responses to “Dagur #11. Brunabjallan”


  1. 1 Eva Hauksdóttir 2010-06-2 kl. 07:20

    Auglýsingin á japanska hlaðborðinu er tær snilld. Það er allt of miklum mat hent að óþörfu og sjálfsagt að fólk borgi sekt ef það eyðileggur mat.

  2. 2 hildigunnur 2010-06-2 kl. 08:01

    Eva já akkúrat, okkur þótti þetta frábær hugmynd.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 365,965 heimsóknir

dagatal

júní 2010
S M F V F F S
« Maí   Júl »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: