Norvegur dagur #4. Tónleikar

Og afmæli reyndar.

Vaknaði auðvitað klukkan hálfátta þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en klukkan tvö, hefði mátt vita þetta. Sturta og svo ljómandi góður morgunmatur, brauð með alls konar áleggi auðvitað, egg og beikon, safi og te, stór ávaxtabar og svo var hægt að steikja sér vöfflur en ég gerði það nú samt ekki.

Var að farast úr varaþurrki, spurði á hótelinu hvort einhvers staðar væri opið apótek, jú stúlkan hélt nú að eitt væri væntanlega opið, þó ekki fyrr en ellefu (klukkan var rúmlega tíu). Rölti nú þangað samt. Neibb, opnar sko ekki klukkan 11 heldur klukkan ÞRJÚ! Og opið til sex. Sá ekki fram á að geta keypt mér varasalva, var farin að plotta að biðja Maju að koma með varasalva á tónleikana, sá svo opna sjoppu og sveimérþá ef þar var ekki til varasalvi. Fjúkk.

Nákvæmlega ekkert við að vera í bænum, jújú, hefði getað farið í messu reyndar :þ en miðað við að norskir sálmar eru allir 118 erindi og alltaf öll sungin leist mér nú ekki sérlega vel á það.

Það er örugglega mjög fallegt þarna í Kristiansand á sumrin. Ekki akkúrat þarna, samt.


bak við kirkjuna.


hún sjálf bráðfalleg samt.

Fór því aftur inn á hótel, í bólið og á netið, talaði við Finn og Jón Lárus og Hallveigu á msn, sofnaði smástund, fór svo út og fékk mér kínamat í middag (varla hádegismat þar sem þetta var klukkan hálfþrjú). Það átti eftir að koma sér vel. Fékk sms frá Maju um að hún kæmi með vinkonum sínum á seinni tónleikana, hinir of langt í burtu.

Við Úlfar vorum sótt klukkan þrjú á Hotel Norge, keyrðum í Søgne Hovedkirke, skildi Maju mjög vel, þetta var allavega hálftíma keyrsla í vitlausa átt. Falleg sveitakirkja, þokkalega stór samt. Smá æfing og svo tónleikar klukkan fimm. Fínt brassband, þokkaleg hljómsveitin í Úlfars verki en ég verð að viðurkenna að ég ætlaði niður úr sætinu í messunni minni.

Klarinettin duttu út á stórum parti í Kyrie kaflanum þar sem þau hafa gríðarlega mikilvæga parta – sums staðar var bara óvart nánast engin músík þar sem ekki áttu að vera þagnir til dæmis. Fór í sundur á fleiri stöðum líka og ég sárvorkenndi tenórunum tveimur sem þurftu ekki bara að standa fyrir tenórappartinum í kórköflunum heldur auðvitað öllum hetjutenórsólópörtunum líka. Agnus Deikaflinn var sá eini sem var í lagi.


Søgne hovedkirke.

Við Úlfar fengum sitt hvora rósina, svo var pakkað saman og keyrt á hinn staðinn – alveg hafði gleymst að segja okkur að athuga að taka með einhvers konar nesti þannig að ég var ansi hreint fegin að hafa fengið mér þennan síðbúna hádegismat.
Maja og vinkonur mættu á seinni konsertinn. Mikið var ég fegin – hann nefnilega tókst fínt. Hefði fyrir minn smekk mátt vera allavega tvöfalt stærri kór en reyndar naut verkið sín merkilega vel með því að kórinn væri bara eins og eitt af hljóðfærunum í hljómsveitinni í stað þess að vera í forgrunni. Sólóstaðirnir voru nú samt verulega ræfilslegir. En allavega þurfti ég ekkert að síga niður í sætinu á þessum konsert. Meiri blóm, gaf Maju mín þar sem ég myndi nú ekki geta notið þeirra mjög lengi á hótelherberginu.

Eftir tónleikana var okkur skutlað niður í bæ, við Úlfar fórum og fundum opið veitingahús, fengum okkur sitt hvorn bjórinn og pizzu. Hef aldrei fengið sýrðan rjóma með pizzu áður, merkilega gott.

Bara næs, svo upp á hótel, kíkja enn á netið. Yfir 280 ammliskveðjur á smettinu, ekki sem verst. Allt í allt ágætis tónleika- og afmælisdagur.

9 Responses to “Norvegur dagur #4. Tónleikar”


 1. 1 Fríða 2010-03-28 kl. 16:37

  vaá hvað þetta er flott samt. Þrátt fyrir pínulítinn kór sem hljómar nú reyndar mikið stærri en bara 12 manns. Hefurðu skrifað eitthvað fyrir stóran kvennakór? 🙂 66 og frábæran píanóleikara

 2. 2 hildigunnur 2010-03-28 kl. 16:46

  Fríða takk – þessi kafli kom líka langbest út á báðum tónleikunum, minnst læti í hljómsveitinni og þannig.

  Ég hef skrifað alveg helling fyrir kvennakór sem ætti að virka bæði fyrir litla og stóra, bæði með píanói og án, já 🙂

 3. 3 ella 2010-03-28 kl. 21:39

  Til hamingju með afmælisdaginn um daginn.

 4. 4 hildigunnur 2010-03-28 kl. 21:48

  Takk fyrir það 🙂

 5. 5 vinur 2010-03-28 kl. 22:18

  Til hamingju með afmælið og tónleikana. Hnökrana heyrir þú best. Agnus Dei er mjög fallegt,og gaman væri að heyra það flutt við bestu aðstæður. Kærust í kotið. Guðlaug Hestnes

 6. 6 HarpaJ 2010-03-30 kl. 11:40

  Til hamingju með þetta allt saman!

 7. 7 hildigunnur 2010-03-30 kl. 23:35

  Takk, Gulla og Harpa.

 8. 8 Frú Sigurbjörg 2010-04-2 kl. 13:18

  Ég verð nú bara að fá að spyrja; hvaða rauða sósa er þetta ofan á pizzunni?? Sýrðann rjóma með pizzu er góð prufu-hugmynd.

 9. 9 hildigunnur 2010-04-2 kl. 13:27

  Frú Sigurbjörg, þetta er einhvers konar tómatsósa, var alveg ágæt. Það var eiginlega bara mjög gott að hafa þennan sýrða rjóma með, sérstaklega vegna þess að pizzudeigið var mjög þykkt og hefði verið frekar þurrt annars. Gleymdi svo að segja að það var íslensk stelpa sem afgreiddi okkur á veitingastaðnum 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.752 heimsóknir

dagatal

mars 2010
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: