Norvegur dagur #3. Bregður

Að morgni laugardagsins 13 mars vaknaði ég, já snemma en dreif mig þó strax á fætur þar sem ég þurfti að koma mér niður til Kristiansand með strætó ekki of seint. Maja og Steini gáfu mér alveg mega morgunmat-slash-brunch, brauð og salöt og egg og síld og ávextir og te og safi í boði, var vel sett langt fram eftir degi. Stormur, litli dóttursonurinn kom í heimsókn, pínu feiminn við þessa ókunnu frænku sem hann skildi ekkert hvað sagði, óttalegir dónar við, að tala ekki norsku fyrir framan barnið. (ekki það, hann má sosum alveg heyra íslenskuna, alíslenskur í aðra ættina).

Kvaddi Steina, Storm og Tim hund, Maja keyrði mig niður á rútustöð í veg fyrir strætó. Þakkaði fyrir mig og steig upp í vagn vopnuð bók.

Komin svona um hálfa leið hendast allir til í vagninum þegar vagnstjórinn klossbremsar – ég sat fremst og leit upp og sá að einhver hafði misst vandlega innpakkaðan sófa á götuna. Bílstjórinn, greinilega brugðið, tók míkrófóninn og afsakaði snarstoppið, sem betur fer hafði nú enginn meitt sig. Það var samt ekki þarna sem mér brá (sjá titil). Svona 3-4 mínútum seinna keyrðum við síðan framhjá bíl með kerru hangandi aftan í, búnum að leggja í útskoti, bílstjórinn að klifra út úr bílnum klórandi sér í hausnum. Held ekki við þurfum að velkjast í vafa um hvers vegna.

Ekki las ég nú alla leiðina, horfði slatta út um annars frekar skítugar strætórúðurnar. Sló mig hvað voru margar kirkjur og bænhús þarna úti um allt. Enda biblíubelti Noregs.

Lent í Kristjánssandi, þvældist nokkrar kantaðar götur til að leita að hótelinu, fann það á endanum – hafði farið stoppustöð of seint út. Rakst á þrumandi trúboða á torginu á leiðinni, frekar fljót að forða mér. Hótelið reyndist ljómandi fínt, snyrtilegt herbergi á 6. hæð. Norðmenn kunna að telja og eiga enga núlltu hæð.


uppbúið hótelrúm og elsku litli tölvuræfillinn minn með skemmda skjáinn.

Ég hef nú reyndar séð fallegra útsýni frá hótelglugga:

en frá ganginum sást þetta:

Ekki verst, hreint ekki verst.

Netið náði upp á vel þrjá fjórðu signal á vélinni, dugði fínt. Náði sambandi við Úlfar Inga, hitt íslenska tónskáldið sem átti verk á tónleikunum, sammæltumst í lobbíinu á mínu hóteli, þangað vorum við svo sótt til að fara á æfingu.

Naglakirkja (þýðir annars ekki søm nagli á norsku eins og dönsku?), bráðfalleg nýleg hringlaga kirkja með mögnuðum glerlistaverkum upp miðja kirkju og yfir þakið.

Søm kirkja

í loftinu

Hljómburðurinn var mjög spes, endurkast út um allt ekki ósvipað Hallgrímskirkju, það var alls ekki sama hvar maður sat. Best var að sitja alveg úti í horni þar sem veggur kom inni í hringnum. Ákvað að sitja þar á tónleikunum daginn eftir.

Hittum Martin stjórnanda og aðalsprautu, hér sjást þeir Úlfar á rökstólum um uppsetningu. Úlfar greinilega að pæla í hæðinni.

Martin og Úlfar

Fyrst var Úlfars verk æft, mér leist ljómandi vel á hljómsveitina, ágætis áhugamannaband ekkert ósvipað okkar eigin Sinfóníuhljómsveit áhugamanna – meira að segja með aðkeyptan pákuleikara eins og við venjulega. Sem var reyndar afskaplega ánægjulegt þar sem pákuparturinn er mjög mikilvægur í verkinu mínu.

Svo mætti kórinn á svæðið fyrir æfingu á Guðbrandsmessunni.

Fyrst skildi ég lítið í því hvað fáir væru mættir í tíma. Svo fékk ég hreinlega áfall – verkið var skrifað fyrir Langholtskórinn þegar hann var stór, um 60 manns. Þarna mættu 12.

tólf.

Þar af tveir tenórar og þrír bassar.

Ekki nóg með það heldur voru þau ekki með sólista heldur söng kórinn sólistapartana.

ÞARNA brá mér. Er nefnilega ekki alveg sama hvernig er farið með þessi sköpunarverk mín.

Reyndar alveg mesta furða hvað þetta lítill kór stóð í hljómsveit í spariMozartstærð. Úlfari fannst hljómsveitin njóta sín talsvert betur en á diskinum þar sem söngurinn er mikið meira í forgrunni. Mér fannst hann hins vegar týnast of mikið fyrir minn smekk.

Áhugamannakór og dittó hljómsveit þannig að þetta var ekki alveg eins pottþétt og hér heima en samt músíkalskt og fínt, fyrsta klarinett pínu óstabílt, hafði tendens til að vera annað hvort slagi á undan eða slagi á eftir, krossum putta fyrir tónleikana. 2-3 staðir pínu shaky hjá kórnum líka.

Keyrð heim á hótelin okkar, gat lagt mig í góða stund og svo vorum við sótt aftur og keyrð heim til stjórnandans sem bauð okkur í mat og spjall ásamt formanni hljómsveitarinnar og frú, ljómandi skemmtilegt og indælt kvöld, ekkert of lengi enda tónleikar daginn eftir. Hótel, náði emmessennsambandi við bóndann og góðu spjalli, fór svo illu heilli að lesa allt of spennandi bók sem ég auðvitað kláraði – sem betur fór enginn doðrantur en samt til tvö. Alltaf held ég að „ég geti jú bara sofið út“. Mun ég einhvern tímann læra?

7 Responses to “Norvegur dagur #3. Bregður”


 1. 1 Jón Lárus 2010-03-27 kl. 00:28

  Will pigs ever fly?

 2. 2 Fríða 2010-03-27 kl. 18:56

  þetta fer nú að verða spennandi

 3. 3 ella 2010-03-27 kl. 21:14

  Hvað meinar maðurinn með því að fara að spjalla um svín?

 4. 4 hildigunnur 2010-03-27 kl. 22:20

  Ella, tja svín fljúga væntanlega aldrei – og væntanlega mun ég heldur aldrei læra að fara snemma að sofa…

 5. 5 ella 2010-03-27 kl. 23:48

  Seisei já en fyrir mína parta fellur mér nú betur að vera líkt við ..tja, til dæmis engil? Ekki nógu algengt að vísu en maður getur alltaf vonað. 🙂

 6. 6 hildigunnur 2010-03-28 kl. 00:08

  haha englar eru ekki til en svín eru það sannarlega…

 7. 7 ella 2010-03-28 kl. 21:38

  Góður punktur. 🙂 Merkilegt samt hvað eru til margar myndir af einhverju sem er ekki til. Og ég framleiði og sel helling af þessu.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.752 heimsóknir

dagatal

mars 2010
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: