þessi sem syngur jólalög hástöfum á leiðinni í skólann á morgnana fékk útkomu úr samræmdu prófum fjórða bekkjar heim með sér í gær.
Stendur sig stórvel í stærðfræði (botna, einhver?) er í efsta prósentinu, íslenskan þokkaleg líka, 8,5 í stafsetningu, sama í málfræði – en ritunin dregur minn mann niður. Tvo, fékk hann þar. Ekki get ég sagt að ég sé hissa, þvílík harmkvæli þegar er ritunarverkefni heima, bæði kvíðir hann fyrir að finna eitthvað að skrifa og svo er hann lengi að skrifa líka. Hugsa að hann hafi skrifað nafnið sitt í prófinu, örugglega ekki mikið meira.
Flottur samt og það er ekki hægt að vera bestur í öllu.
Auglýsingar
Flottur!
Hvað er annars ritun? Er það sama og hét skrift í gamla daga eða er stafsetning og þessháttar með?
Það er ekkert að marka ritunina á þessu samræmda prófi. EKKERT.
Skapandi börn sem skrifa frábærar sögur geta farið illa út úr ritunarhlutanum ef þau gleyma sér í sögugerðinni og klikka á að skrifa nafnið, byrja á óhefðbundinn hátt, enda snöggt og svo framvegis. Sögurnar eru dæmdar ansi tæknilega, enda er annað kannski varla hægt þegar farið er yfir svona mikið magn á svona stuttum tíma. Svo er ritunin líka í lokin, þegar krakkarnir eru kannski orðin lúin og farin að missa einbeitinguna. Þannig að ég tek yfirleitt lítið eða ekkert mark á ritunareinkunninni í fjórða bekk. Fyrir utan það að mér finnst að það eigi að kenna börnum að vanda ritunarverkefni, hugsa um þau, liggja svolítið yfir þeim, teikna kannski mynd fyrst (hjálpar mörgum strákum, hefurðu prófað það? – koma aftur að þeim daginn eftir og bæta við, breyta og svo framvegis, en ekki rumpa þessu af á próftíma.
Fyrirgefðu langlokuna – en ég missi mig stundum í umræðum um samræmd próf og lítil börn…
Sammála síðasta ræðumanni, það er voðalega lítið að marka ritunina í 4. bekk, sérstaklega hjá strákunum. Nema þetta er náttúrulega merki um að það þurfi að vanda betur kennsluna og kennarar þurfa líklega að gera sér grein fyrir að það er hægt að kenna ritun. Því það er nefnilega hægt. Það er alltaf það sama uppi á teningnum hjá mínum syni, það er óttalega erfitt fyrir hann að koma frá sér skrifuðu máli þótt oftast sé útkoman alveg frábær þegar hún loks kemur. En ef það verður að sjást árangur á svona stuttum tíma eins og próftími samræmda prófsins er, þá er útkoman bara svona eins og vindurinn blæs. En, þeir verða að geta þetta, þannig að ef kennararnir gera ekkert í málinu, þá er það okkar foreldranna að benda kennurum/sonum okkar á leiðir til að laga þetta.
Ella ritun er í raun sagnagerð eða frásögn, ekki skrift né stafsetning eða þannig þó það komi væntanlega eitthvað inn í einkunnina. Harpa jámm, ég efast reyndar satt að segja um að Finnur hafi skrifað neitt í ritun, þegar hann er að gera verkefni heima situr hann endalaust og gerir ekkert. Mynd hjálpar lítið, já við höfum prófað það líka. Honum gekk reyndar ágætlega með ritunarverkefnið núna í gær, þar sem hann átti að finna frétt og segja frá henni frá sínum sjónarhóli. Kennarinn hans er ágæt með hann og reynir alveg hitt og þetta.
Próftími segirðu – hann er nú ekkert stuttur, mér finnst fáránlegt að setja 9 ára gömul börn í þriggja tíma próf…
Skottan mín fékk 5 fyrir ritunina – ætli hún hafi ekki farið út fyrir fyrimælin. Sagan er enda nokkuð póst-módernísk. Fékkst þú ekki úrlausnina í hendur?
Meinhorn, ekki ennþá, örugglega í næstu viku bara. Ólöf Lena fimm jahá!
Ragnheiður fékk líka 5 í ritun.. og barnið er með mesta hugmyndaflug í heimi og kann sko ALVEG að skrifa sögu rétt upp setta.. upphaf, aðaltexta, niðurlag! þetta eru bara einhverjir helvítis fasistar sem eru að fara yfir þessi próf, það er alveg á hreinu.
Ég er alveg ROSALEGA á móti þessum prófum meðan þau eru ekki eldri, þetta var nú ekki beint til að slá á prófkvíðann hjá minni, kennararnir í skólanum hjá henni taka tillit til hennar en í þessu þurfti hún að vera með svipuna á sér.. fáránlegt djöfuls rugl!
jahá, úff, var einmitt talað um grát og fleira í bekknum hans Finns, ekki hann samt, því hann tekur svona ekki nærri sér. Ég er ekki í sjálfu sér á móti því að tékka hvað krakkar kunna og geta, jafnvel á landsvísu en það er ótrúlega mikil spurning hvernig hlutir eru lagðir upp og undirbúnir og þriggja tíma próf hjá níu ára eru BARA fáránleg!
(reyndar var gráturinn og niðurbrotið í bekknum aðallega í stærðfræðinni víst – sem skýrir hvers vegna Finnur fann ekki fyrir neinu, stærðfræðiheili sem barnið er. Hjálpandi fjórum árum eldri systur sinni með hennar verkefni. Og hún er NB með þeim bestu í sínum bekk…)
Góður!
Ég er rosalega ánægð að hafa sloppið úr landi áður en minn fór í samræmdu prófin – 3 tímar eru auðvitað bara rugl fyrir 9 ára börn!
Hef annars grun um að minn hefði fengið svipaða ritunar-einkunn, þótt hann geti hæglega búið til sögur og sagt okkur þá hatar hann að þurfa að koma þeim á blað…
Hófí, akkúrat! Hugsa að Finni muni ganga betur með ritun þegar hann má fara að skrifa í tölvunni líka.
Sama á teningnum hér :0)