Sarpur fyrir 27. nóvember, 2009

snareldun

Hljómsveitaræfingin hjá Finni fór hálftíma fram úr áætlun (á þetta til hún Ewa blessunin), ég sat og beið eftir honum, stelpurnar á leið í óperuna í kvöld þannig að ég var að verða pínu stressuð. Æfing búin klukkan kortér fyrir sex, búið að setja fram kex, safa og mandarínur eftir æfingu, Finnur náttúrlega varð að fá sér svoleiðis, ég pakka og hrifsa drenginn heim, komin klukkan sex. Fífa var reyndar búin að búa til tortilludeig, ég tek til við að hakka lauk og ólífur og hvítlauk og blaðlauk og jalapenos, steikt ásamt hakki og tómatjukki og tacokryddi á pönnu, Freyja reif bita af osti, hitað í ofni, búið til guacamole (rétt mundi eftir avocadoinu tilbúnu úti í glugga) steiktar tortillur á píadínupönnunni góðu (Fífa rúllar út), passar nákvæmlega að hakkjukkið pípir þegar ég steiki síðustu tortilluna, borðað, gengið frá, uppþvottavél sett af stað, þurrkað af borðinu, sest við tölvuna. Klukkan er sjö.

Miðað við alveg frá grunni (mínus deigið), ekki slæmt, ekki slæmt!

(já, Jón Lárus er semsagt í viðskiptavinahófi Samskipa – annars hefði ég örugglega ekki þurft að gera neitt af þessu…)

litli guttinn

þessi sem syngur jólalög hástöfum á leiðinni í skólann á morgnana fékk útkomu úr samræmdu prófum fjórða bekkjar heim með sér í gær.

Stendur sig stórvel í stærðfræði (botna, einhver?) er í efsta prósentinu, íslenskan þokkaleg líka, 8,5 í stafsetningu, sama í málfræði – en ritunin dregur minn mann niður. Tvo, fékk hann þar. Ekki get ég sagt að ég sé hissa, þvílík harmkvæli þegar er ritunarverkefni heima, bæði kvíðir hann fyrir að finna eitthvað að skrifa og svo er hann lengi að skrifa líka. Hugsa að hann hafi skrifað nafnið sitt í prófinu, örugglega ekki mikið meira.

Flottur samt og það er ekki hægt að vera bestur í öllu.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

nóvember 2009
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930  

sagan endalausa