Sarpur fyrir 25. nóvember, 2009

barbíkjöt

einhvern tímann hef ég nefnt að Freyja var illa haldin af eyrnabólgu þegar hún var lítil, heyrði ekki sérlega vel. Það er orðið allt í fína núna sem betur fer.

Einu sinni vorum við í Krónunni með hana, ætli hún hafi ekki verið um fimm ára eða svo. Stóð einhvers staðar aðeins frá okkur, væntanlega við nammihilluna, mér verður að orði: Já, það vantar barbekjúsósu. Freyja lítur upp með skelfingarsvip: Barbíkjötsósu??? :O

Nú er búið að finna hvað maður notar slíka í:

löngunin

til að fara í sumarbústað helltist allt í einu yfir mig af fullum þunga. Væntanlega vegna þess hve fráleitt það er að það verði tími til þess í desember að fara í svoleiðis útstáelsi. Langar samt til að fara í heitan pott í myrkri og labba niður að Glanna og bara hafa fjölskylduna saman að gera ekkert nema spila Trivial og Skrabbl og leggja kapal. Og grilla.

Spurning um að tékka á janúar? Verður maður ekki að hafa eitthvað til að hlakka til eftir jólin líka. Reyndar plottuð árshátíð kórsins og sushipartí nú þegar í jan en aldrei of margt skemmtilegt í janúar er það nokkuð? Febrúar í allra síðasta lagi.

meira púsl

Finnur (eða réttara sagt við foreldrarnir) verðum pínu óvinsæl í dag, hann fær nú í fyrsta skipti að spila með í White Christmashópnum í Suzuki (já, þarna vídjóið sem ég set inn á hverju ári – ég tími ekki einu sinni að taka nýtt því ég er komin með svo mörg innlit á þetta…) og það verða bara tvær æfingar á því. Í kvöld og á sunnudaginn. Í kvöld þarf hann semsagt að skjótast af kóræfingu. Það er ekki vinsælt, tónleikar strákanna á sunnudaginn kemur. Verður samt eiginlega að vera þannig. Pabbi hans sækir hann klukkan rétt fyrir sex, skýtur honum og Freyju á æfinguna, aftur til baka í kirkjuna á kóræfinguna, ætti að ná í skottið á henni, pabbinn nær í Freyju aftur, hún er að spila með í Kanon eftir Pachelbel, æft beint á eftir White Christmas, þá beint í Hafnarfjörð að ná í mig. Eða heim fyrst, fer eftir hvort æfing dregst eitthvað, í Suz eða ekki.

Sunnudagurinn verður svo svipaður, ég reyndar með sýningu klukkan tvö, allt í lagi með það, tónleikar hjá Finni klukkan fimm til svona hálfsjö, æfing í Grensáskirkju (Suz) tíu mínútur fyrir sjö (White Christmas), sjö til kortér yfir (Pachelbel) og svo eru stelpurnar báðar að fara að syngja á aðventukvöldi í Langholtskirkju klukkan átta, eiga eiginlega að mæta sjö en Freyja verður að fá að koma aðeins seint. Suztónleikarnir eru síðan á mánudagskvöld og ég kemst ekki 😥 ekki vinsælt að sleppa tveimur Hljómeykisæfingum og ég valdi Beethoven. Jón Lárus verður bara að vera með vídjóvélina á staðnum.

Voða sniðugt að vera með jólatónleikana snemma en ekki alveg eins þegar allir ætla að hugsa þannig.

Langar annars ekki einhvern að hlusta á litlu englana syngja í Hallgrímskirkju á sunnudaginn klukkan fimm? Eigum enn 3 miðum óráðstafað – og þurfum að borga þá ef við getum ekki selt. Fimmtán hundruð kall miðinn hjá okkur, tvöþúsund við innganginn. Plííís!?


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

nóvember 2009
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930  

sagan endalausa