Sarpur fyrir 7. nóvember, 2009

Ástardrykkurinn

jæja, þá er maður búinn að fara í óperuna, Donizetti stóð fyrir kvöldinu hjá okkur bóndanum.

Ekki var sýningin af verri endanum, Dísella, Garðar, Ágúst, Bjarni Thor og svo auðvitað Hallveig mín stóðu sig brilljant og það þrátt fyrir að við værum í arfavondum sætum, alveg innst undir svölunum. Kórinn var líka fínn, ekki get ég sagt að ég hafi tekið eftir því að þau dönsuðu og léku eitthvað illa, söngurinn var samt bestur hjá þeim. Enda eru þau jú söngvarar öll með tölu.

Músíkin – já gagnrýnendur hafa verið að agnúast út í að hún sé nú ekki merkileg, en samt hafi þeim þótt gaman á sýningunni og hvetja fólk til að fara. Nei, það er svo sem ekki mikið sem kemur á óvart, hljómagangurinn er frekar fyrirsjáanlegur, laglínurnar sætar og fínar, þetta sannar bara það sem tónsmíðakennarinn minn hann Þorkell sagði einu sinni við okkur í tíma: Maður getur alveg sagt: Þessi músík var gríðarlega merkileg og vel samin og úthugsuð, djúp eins og hafið – en mér hundleiddist og mig langar aldrei til að heyra hana aftur. Á móti, stundum hugsar maður: Þetta var nú svosem ekki par merkilegt en mikið var þetta yndislegt og ég komst í svo gott skap, þetta gæti ég vel hugsað mér að heyra aftur sem allra fyrst.

Kærar þakkir fyrir okkur, já ég get sannarlega vel hugsað mér að koma aftur og sjá ykkur. Verst að ná ekki að sjá Gissur minn og Þóru í aðalhlutverkunum.

(myndinni stolið af vef Óperunnar án þess ég skammist mín – hlýtur að vera í lagi fyrir auglýsingu á sýningunni :þ)


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

nóvember 2009
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930  

sagan endalausa