dagur 7 – kastalaferð

Þarna um nóttina, ég ætlaði bara að kíkja pínulítið á netið, Jón Lárus var sofnaður, ég alltaf að fylgjast með klukkunni í tölvunni því ég ætlaði ekkert að fara seint að sofa, þegar hún var að verða tólf fór ég að bursta tennur, leit á klukkuna í símanum og fékk áfall – klukkan var auðvitað að verða tvö, ekki tólf. Tölvan auðvitað á íslenskum tíma. Fékk að heyra þetta nokkrum sinnum næstu daga ef ég spurði hvað klukkan var fékk ég spurningu á móti: viltu símatíma eða tölvutíma?

Vaknaði svo við sms klukkan fimm frá bróður mínum, varð frekar fúl yfir tímasetningunni (frétti svo seinna að hann hefði sent þetta klukkan 10 að kvöldi hér heima en svo ekki skilað sér fyrr en þarna – miðað við hvað gekk hrikalega illa að senda sms frá Tékkó trúi ég því fullkomlega), ætlaði ekki að geta sofnað aftur, gekk samt, vaknaði svo klukkan sjö, var að pæla í að sleppa morgunmatnum bara, en meðan Jón Lárus klæddi sig fann ég út að ég gæti örugglega ekki sofnað aftur þannig að dreif mig niður. Ágætt bara. Aftur upp þar sem ekkert prógramm var þennan morguninn, Jón Lárus fór út að skokka en ég dottaði yfir netinu, síðurnar hlóðust svo hægt að ég náði að blunda rétt á meðan (minnir mig á Finale í árdaga þegar ég var á LC tölvunni að semja barnaóperuna, fletti milli takta, tók svo langan tíma að ég náði að hita mér te á milli flettinga – myndi maður sætta sig við það núna? ónei!)

Planaður Emm Sé Dónaldshádegisverður á torginu, ég er ekki viss um að ég hafi áður vitað til þess að það sé hægt að panta þannig skyndibita fyrirfram. Þeir hjá Emm Sé voru greinilega ekki sérlega vanir þessu heldur, því þrátt fyrir pöntunina þurftum við að bíða í um hálftíma eftir að fá pokana okkar með einum ræfils Emm Sé Ostborgara og nokkrum frönskum og kókglasið. Var samt ekkert vont.

Hér sitjum við og bíðum (Hrefna Björg, takk fyrir lánið, átti enga svona mynd sjálf)

Hei, gleymdi annars að segja frá því í gær að þegar við gengum út frá að syngja á upphafstónleikunum réðst hópur svissneskra dómara að okkur og þurfti endilega að hrista hramminn á Jónsa og óska til hamingju með frábæran hóp. Verð að viðurkenna að það lækkaði nú ekkert stemninguna í hópnum…

Eftir gourmethádegismatinn flykktist liðið upp í Íslandsrútuna og við ókum í kastalann sem ég man ómögulega hvað heitir í augnablikinu. Hin fallegasta leið. Komin uppeftir höfðum við misst af göngutúrnum, tveim mínútum of sein, þannig að við biðum í klukkutíma.

Hitt og þetta var gert sér til dundurs, til dæmis svona:

svo sáum við allavega tvenn brúðhjón, greinilega mjög vinsælt að gifta sig í kapellu kastalans. Reyndar frekar fyndið, sáum mann með básúnukassa koma hlaupandi eins hratt og hann gat, inn í kastala, út aftur, fann greinilega ekki hvar hann átti að vera, svo nokkrum mínútum seinna þetta hér. Takið sérstaklega eftir tóma statífinu í miðjunni:

Kastalinn fremur venjulegur þegar maður er búinn að skoða einn svoleiðis eru hinir yfirleitt ekkert sérlega ósvipaðir. Samt margt flott, til dæmis þessar upsagrýlur sem ég laumaðist til að taka mynd af, það var annars bannað að taka myndir inni í kastalanum.

Ég hef reyndar aldrei vitað til þess að maður þurfi að fara í sérstaka flókainniskó til að ganga gegn um kastala, það var eiginlega mjög fyndið að sjá alla á risastórum rauðum fléttuðum inniskóm, vildi ég hefði lagt í að taka mynd af þeim (reyndar ekki alveg auðvelt þar sem þeir voru aðeins á inni í dimmum kastalaherbergjum og vídeóvélin er eins og ég hef áður sagt ekki sérlega ljósnæm).

Eitt ansi slæmt hálsbólgutilfelli með tilheyrandi raddleysi var að gera vart við sig þarna.

Aftur í bæinn eftir vel heppnaða kastalaferðina. Hálsbólgubarnið var nú ekki verr haldið en að hún var til í verslunarferð, ég hætti að hafa miklar áhyggjur þar. Stór hluti hópsins fór í einhverja kringlu í úthverfi borgarinnar, áttum síðan að hittast hjá píparanum. Flestar skiluðu sér á tíma en nokkrar voru í hrikalegum vandræðum með að ná í leigubíl, pantaðir fjórir en fyrst komu tveir, svo einn og síðast, eftir langa bið og nokkrar hringingar, sá síðasti. Vildi til að við þurftum að bíða í óratíma eftir matnum þannig að meira að segja þær síðustu náðu að fá að borða.

Kórstjórinn kíkti í heimsókn upp á herbergi til okkar í spjall um kvöldið, svo bara lesa, kíkja smá á netið og fara að sofa. (ekki á tölvutíma í þetta skiptið)

4 Responses to “dagur 7 – kastalaferð”


 1. 1 Finnbogi 2009-06-16 kl. 12:02

  Ég fékk svona flókaskó þegar ég skoðaði höllina í Potsdam fyrir allmörgum árum síðan. Þar sem við höfðum skoðað allnokkra kastala fyrr í ferðinni sýndu fæstir leiðsögninni mikinn áhuga, hins vegar var mjög gaman að skauta eftir parketinu á lánsskónum.

  Er einmitt að fara að spila í brúðkaupi á eftir – Wagner fyrir 12 manna brass er ekki leiðinlegur…

 2. 2 Bryndís Baldvinsd. 2009-06-16 kl. 20:03

  Alveg frábært að geta lesið ferðasögu Graduale-kórsins, frábært framtak hjá þér Hildigunnur. Skemmtilegur penni 🙂

 3. 3 hildigunnur 2009-06-16 kl. 21:44

  Bryndís, takk takk. Finnbogi, jámm, þarna voru voða fá nógu stór herbergi til að geta rennt sér fótskriðu af nokkru viti.

 4. 4 Jón Lárus 2009-06-17 kl. 11:52

  Bouzov, hann hét það.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.797 heimsóknir

dagatal

júní 2009
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: