Dagur 6 – Mótið hefst

Morgunmatnum á hótelinu í Olomouc lauk þegar sá í Prag byrjaði – hálfníu. Þetta greinilega ekki túristahótel, enda ekki sérlega mikið flæði túrista í Olomouc, amk. ekki í samanburði við Prag. (ekki skrítið, kannski). Mín skrítna morgunmatarhegðun hélt áfram þennan dag, nú tókst mér að missa eggjaskurn í teið. Gerði lítið til. Á miðjum borðum voru litlar ruslafötur með veltiloki fyrir eggjaskurn, tepoka og annað tilfallandi rusl, frekar spes en þó þægilegt. Líka voru tekönnur á borðunum, hér hefði örugglega kaffið verið á borðunum en teið til hliðar. Kann ekkert sérlega illa við þetta.

Hvorki Nutella né kókópöffs í boði í morgunmatnum á þessu hóteli, lítil hrifning unglinganna.

Beint eftir morgunmat var æfing hjá kórnum, þær áttu að syngja á kórmaraþoni klukkan hálfellefu. Sem betur fer voru þær svona snemma, eins og venjulega fara nær engir eftir svona tímasetningum, kórunum gefnar 10 mínútur en margir voru upp undir 15. Ótrúleg ósvífni, eiginlega. Gekk mjög vel hjá stelpunum, sungu 3 lög, Kristín Einars söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns, sjá hér: (var ekki með myndavélarfótinn með mér þarna, þess vegna er svolítið mikil hreyfing á vélinni)

Sátum svo og hlustuðum góða stund í viðbót, stelpurnar urðu fúlar út í annan stúlknakór, einhverjar þar höfðu verið afar dónalegar við okkur, haldið fyrir eyrun og grett sig þegar okkar stelpur voru að syngja (þessar stelpur komust síðan ekkert á pall, hehe). Hlustuðum kurteislega á fyrsta lagið þeirra, klöppuðum, stóðum síðan upp og fórum. Engin ástæða til að haga sér dónalega þó þær hafi gert slíkt (við sátum lengur en flestir aðrir kórar sem við sáum, flestir fóru um leið og þeir sjálfir voru búnir að syngja).

Nújæja, smá labbitúr, örfáar tröppur upp í pínulítinn klukkuturn (hrmm, ég var nú eiginlega ekki alveg í formi fyrir 209 tröppur).

Mér var heldur ekki alveg rótt að labba svona tröppur sem maður getur séð beint niður ógurlega langt. Þurfti að glápa á handriðið á leiðinni niður til að panikkera ekki – þegar ég var krakki var ég alls ekki lofthrædd, það breyttist þegar ég átti Fífu. Skömmu eftir það gat ég ekki stigið upp á svona gegnsæjar tröppur, ekki fræðilegur. Talsvert skárra núna, en ekki leið mér vel með það samt. Slatti af stelpunum var sama sinnis. En útsýnið var mjög gott.

Niður, aðeins að taka út kirkjuna sem turninn var við, þar átti annar keppnisflokkurinn að fara fram. Einhver organisti sat greinilega uppi og skemmti sér konunglega við að prófa raddir, heyrðum harmónikku og sekkjapípu ásamt fleiru en forðuðum okkur þegar Hammondsándið datt inn. (nei þetta var ekki Jónsi, hann var niðri hjá okkur).

Ljómandi gott snitsel og kartöflustappa á Skoska píparanum, betra en á dýra staðnum í Prag. Einhverjar stelpnanna kvörtuðu nú samt, fannst þetta eitthvað feitt. Fífa hnussaði að þessum matvöndu vinkonum sínum… Þurftum að bíða aðeins eftir að komast að í matinn, reyndar, einhver tók eftir því að í búð við hliðina á skoska iðnaðarmanninum voru heilir 3 kettir (það var annars ekkert mikið um ketti, sérstaklega ekki í Prag, þar var hins vegar allt morandi í hundum). Einn kötturinn var með þeim flottari sem ég hef nokkurn tímann séð:

kötturinn

Heim á hótel, fyrirskipuð rólegheit, stelpurnar áttu að syngja á opnunartónleikum hátíðarinnar um kvöldið. Tóku reyndar smá æfingu í höfuðhreyfingum í Bítlasyrpunni, þær nýju í hópnum voru pínu óöruggar.

Niður í bæ,

setning hátíðar,

fánaborg:

Stelpur heim aftur en við Jónarnir fórum í móttöku hjá borgarstjóra, fyrir kórstjóra og fylgdarlið. Fastir liðir eins og venjulega, ræða borgarstjóra (mikill heiður að halda hátíð, hafa ykkur öll hér, blablah), nema hvað allt í einu segir kynnirinn að hún hafi frétt af því að íslenska sendinefndin geti troppað upp með smá skemmtiatriði.

WHAAAT???

Jón Lárus náttúrlega harðneitaði að taka þátt í slíku en við Jónsi stóðum upp og sungum Ísland, farsælda Frón í kvintsöng. Maður hefði nú alveg viljað hafa pínu fyrirvara á svona! Gekk samt ágætlega…

Aftur á hótel, meiri æfingar, við Jón Lárus í bæinn á meðan, vorum að leita að millistykki frá breskri kló yfir í evrópska (litla myndavélin er keypt í Bretlandi og hleðslutækið með slíka kló, ég hélt ég hefði hent því niður en, tja, annaðhvort ekki eða þá það hefur týnst í Tékkó – eiginlega líklegra því við erum ekki enn búin að finna). Fengum okkur síðan pizzu á (örugglega) dýrasta túristastað Olomouc, við torgið. Þetta er sko í fyrsta skipti sem ég hef fengið spælegg á pizzuna mína. Og það síðasta, ætla ég að vona!

spæleggspizza

Allt í einu var klukkan orðin fáránlega margt, lögðum af stað upp á hótel, sáum að ég myndi aldrei ná þangað, Jón Lárus hljóp af stað en ég beið bara í bænum. Fór í bókabúð og fann mjög spennandi matreiðslubók með klassískum tékkneskum réttum meðan ég beið.

Svo kom kórinn og Jónarnir, Jón Lárus hafði rétt náð þessu (og hann hleypur sko ekkert hægt), hann þurfti að skipta um föt fyrir tónleikana og óperusýninguna um kvöldið sko, en ég var nokkurn veginn nógu fín.

Stelpurnar voru gríðarflottar á upphafstónleikunum, hér er Bítlasyrpan:

Náðum ekki að hlusta á alla kórana á þessum tónleikum þar sem öllum var boðið í óperuna að sjá Nabucco. Fullur salur af kórfólki, við Jón Lárus og Kristín Lilja kórstúlka lentum í stúku næst sviðinu á fyrstu svölum ásamt einni slóvenskri stúlku. Ætluðum ekki að trúa eigin augum þegar við sáum sætin, ég hef aldrei setið í svona flottu sæti á nokkurri sýningu, fyrr né síðar. Manni fannst maður vera kóngafólk, minnst.

Svona leit þetta út:

Reyndar var þetta Nabucco Digest, condensed version, öllu þessu leiðinlega sleppt (jájá, ég er að grínast, svona ef einhver ekki veit), bara forleikur, kórar og flottustu aríurnar. Væntanlega vegna áhorfendaskarans, ekki gert ráð fyrir að til dæmis hinir fjölmörgu barnakórar sem þarna komu fram myndu ráða við heila þriggja tíma sýningu. Samt skemmtilegt.

Kvöldmat fengum við hjá píparanum, þurftum að bíða í nær tvo klukkutíma, sumir í bæinn, aðrir á hótel. Svo var þetta eini óspennandi maturinn sem við fengum þarna, eitthvað þurrt hrísgrjónajukk með vel földum pínulitlum svínakjötsbitum. Mikið eftir á diskunum hjá kórnum í þetta sinn.

Hótel, fatta að við þurftum alls ekki breskt millistykki þar sem sams konar snúra var í vídjóhleðslutækinu, gott að fá myndavélina virka aftur. Myndafídusinn á vídjóvélinni er ágætur en hún er ekki nærri eins ljósnæm og litla vélin, sem er alveg ótrúlega góð fyrir svona vasaamatörvél.

4 Responses to “Dagur 6 – Mótið hefst”


  1. 1 vinur 2009-06-15 kl. 02:41

    Mikið svakalega hefur þetta verið skemmtilegt, allavega er ég búin að ná öllum pistlunum og hef haft gaman af. Hjartans kveðja frá Ameríku. Gulla Hestnes

  2. 2 Guðrún S. Hilmisdóttir 2009-06-15 kl. 09:05

    Gaman að þessu, er að fylgjast með ferðasögunni – kórinn er mjög góður – ég var þarna í Olomuc árið 2002 með Kvennakór Reykjavíkur.

  3. 3 hildigunnur 2009-06-15 kl. 09:32

    já, Gulla, ert þú í Ameríku? missti af því. Guðrún, ókei, ég vissi ekki að Kvennakórinn hefði farið þarna líka, en Kór Snælandsskóla fór fyrir nokkrum árum að ég held.

  4. 4 Harpa J 2009-06-15 kl. 10:31

    Skemmtileg ferðasaga og flottar myndir og upptökur!


Færðu inn athugasemd




bland í poka

teljari

  • 380.645 heimsóknir

dagatal

júní 2009
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa