dagur 1. Þangað

Keppnisferð Grallara til Olomouc í Tékklandi, maí-júní 2009

Dagbók skal haldin að vanda. Hefði verið hægt samhliða en meira gaman eftirá, lengir ferðina og þá þarf ég heldur ekki að fylla litlu vélina af myndum og þannig. Höldum vananum, mjaka þessu inn eftirá. Engar myndir fyrsta daginn, mynda- og vídjóvélarnar voru ekki dregnar upp fyrr en daginn eftir.

Sveimérþá, hvað á eiginlega að þýða að boða kórinn inn í kirkju klukkan 4 að nóttu þegar mæting á völlinn er 05:20? Það tekur ekki alveg tvo tíma og 20 mínútur að keyra til Kebblaíkur. (tja, miðað reyndar við ýmsar tímasetningar í ferðinni er þetta væntanlega ekki alvitlaust). Daginn áður, þegar Jón Lárus flaug út á sama tíma höfðum við sett klukkuna á 4:05, sko til að vakna, ekki mæta neinsstaðar…

Rétt mundi eftir að henda niður hlussumillistykkinu fyrir myndavélarhleðslutækið, er með breskri kló. Hvert ég henti því niður var aftur góð spurning (er ekki enn búin að finna það þó ég sé komin heim).

Köttsa hafði ekki kúrt uppi í hjá mér um nóttina eins og hún er vön, heldur ekki Fífu né tómu rúmunum krakkanna, ekki uppi í sófa eða í körfunni í þvottahúsinu. Hmm! Leist ekki á að fara af stað og halda að kisa væri týnd! Sem betur fer sýndi hún sig áður en við Fífa fórum af stað svo við gátum klappað henni smá. Vorum búin að fá riseigandann til að sjá um hana, þar til krakkarnir gætu tekið við eftir helgina.

Nújæja, af stað skyldi haldið, ekki gengi ef fararstjórinn væri (mikið) seinni en kórinn út á völl. Tókst auðveldlega, við Fífa vorum búnar að ganga frá bílnum á rándýra gæslustæðið og tékka okkur inn þegar kórinn og kórstjórinn sýndu sig á svæðinu. Gekk nokkuð átakalaust að fá sæti í vélinni, reyndar skil ég ómögulega fídusinn við sjálfsinnritun þegar maður þarf síðan að standa í sömu röð og hinir til að skila töskunum. Sáum ekkert borð sem var bara baggage drop off, allir fóru í aðalröðina.

Byrjaði áætlun: Láta Fífu í friði.

Venjuleg aðalfundarstörf – neinei fríhafnarstörf, varla þörf á að telja upp, kaupa sjampó og rauðvínsflösku, eitthvað að lesa, danskt kellingablað til að eiga eitthvað að sofna yfir, heitt súkkulaði og croissant á Kaffitári. Súkkulaðið þar er drekkandi ef maður biður um smá salt samanvið og sleppir rjómanum. Enginn Mokkastandard samt, ónei.

Flug ekki viðburðaríkt, Æslander hætt að dæla í mann ókeypis mat og lánar ekki teppi lengur. Við Fífa vorum með nesti en ég splæsti á mig teppi og uppblásnum kodda, kom sér síðan oft vel í ferðinni, hellings rútuferðir. Steinsofnaði undir teppinu. Gott.

Lent í Frankfurt, Jón Lárus og Grétar bílstjóri tóku á móti okkur. Grétar hafði keyrt með okkur áður, þegar Hljómeyki fór í keppnina í Riva del Garda, níu árum fyrr. Ætluðum að stoppa og fá okkur kvöldmat í Plzen en enduðum á að stoppa á landamærastöð. Það var vesen. Enginn hraðbanki! Hvað er með að hafa engan hraðbanka? Vildi til að við JLS höfðum keypt slatta af evrum sem okkar eigin gjaldeyri og þær voru notaðar til að kaupa mat ofan í allt liðið. Eins gott. Settum hámark á hópinn, 100 tékkneskar krónur fyrir mat og drykk á mann. Fékk skrítnasta svínasnitsel ævinnar, ekkert panerað og með sirka hálfum lítra af sveppasósu. Hreint ekki bragðvont samt, súrkál og soðið franskbrauð með.

Áfram til Prag, Þórir ræðismaður tók á móti okkur og lóðsaði áfram, gistum á hosteli í miðbænum, kojur og læti (jámm kojur og jámm læti, við JLS vorum í 12 manna herbergi með yngstu stelpunum í hópnum. Ég er eiginlega orðin of gömul fyrir svona). Þegar allir voru komnir í þessi 4 herbergi sem hópurinn hafði (Jónsi kórstjóri fékk sérherbergi reyndar – það var eitt af þessum fjórum) fór Þórir með okkur í smá rúnt um miðbæinn svo stelpurnar myndu fá pínu hugmynd um hvert skyldi halda þegar þær fengju lausan tíma. Þaddna er H&M, hér er MacDonalds – og svo framvegis.

Einn bjór + með Jónsa í lokin og svo bólið. Stelpurnar í okkar herbergi voru örugglega álíka fúlar að hafa okkur með og við að vera í flatsæng, mesta furða að þær kvörtuðu ekki. Fóru hins vegar að æfa raddirnar sínar þar til ég þaggaði niður í þeim, enda klukkan orðin hálfeitt, mæting fyrir æfingu og messu snemma morguninn eftir og við væntanlega ekki ein á hótelinu.

Gott að fara að sofa. Hvenær er það ekki, annars?

6 Responses to “dagur 1. Þangað”


 1. 1 EinarI 2009-06-9 kl. 07:58

  Eru þeir *ENN* með vesen við landamærin? Ég fór akkúrat þessa sömu leið 2001, flug með Icelandair til Frankfurt, þaðan með rútu til Prag. Við biðum í ca. 3 klukkutíma við landamærin meðan þýsku landamæraverðirnir sátu og klóruðu sér í höfðinu…. báru við einhverjum meintum pappírum sem voru ekki í lagi… 2 rútur, fullar af íslendingum… Ef ég man rétt, þá var byrjað að kalla út starfsmenn í sendiráðinu….
  Leiðin til baka… tók bara smá tíma… Tékkarnir voru mun meira líbó heldur en þjóðverjinn….

  Prag er snilld. Þangað langar mig aftur.

 2. 2 hildigunnur 2009-06-9 kl. 08:06

  Nei nei, við rúlluðum yfir landamærin óstoppuð, engir verðir þar, vesenið var að geta ekki tekið út neinn pening og veitingastaðurinn tók ekki kort. Eins og ég sagði, reddaðist með því að eyða öllum okkar prívat og persónulegu evrum til að gefa börnunum að borða.

  Prag er æði, jámm 😀

 3. 3 ella 2009-06-9 kl. 17:46

  Gaman að fá að fylgjast með.

 4. 4 vælan 2009-06-9 kl. 18:24

  uu frá 4 til 5.20 var einn tími og tuttugu mínútur síðast þegar ég gáði 😛

 5. 5 hildigunnur 2009-06-9 kl. 18:39

  hmm, einn já… Meinti það 😉 Nógu langt samt…

 6. 6 Sara Líf 2009-06-10 kl. 18:32

  það var nú bara nokkuð vel gert að ná að þagga niður í þeim 🙂 þetta varð svo MIKLU verra þegar þið voruð ekki þarna lengur…..enginn svefnfriður ! 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.924 heimsóknir

dagatal

júní 2009
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: