Sarpur fyrir 5. apríl, 2009

búin að vera að hugsa

(jámm, aldrei þessu vant :þ) um bloggið og flettismettið svolítið undanfarið. Verð að segja að mér finnst smettið gersamlega engan veginn koma í stað bloggsins, alveg fyrir utan hvað það er hroðalega grunnt, status tilkynningar þó þær geti verið smellnar og skemmtilegar koma engan veginn í stað (reyndar misskemmtilegra) röfla hér, ég hef fáránlega gaman af því að lesa bloggið mitt og komment við færslur afturábak, hvað var ég nú að gera á þessum tíma á síðasta ári, tildæmis, þegar ég hrundi í lungnabólguna fyrir rétt rúmlega ári síðan, hélt ég í mér lífinu með að skoða ferðasöguna frá Ítalíu árið áður og endurupplifa þá frábæru stórfjölskylduferð (takk enn og aftur, elsku mamma og pabbi). Hefði þetta verið hægt bara á smetti? ónei.

Svo hefur bloggið oft reddað mér með dagsetningar aftur í tímann, tónleika og annað, fyrir nú utan þarna þegar ég skildi ekkert í færslu af Hljómeykisreikningnum inn á minn eigin og bloggið bjargaði mér.

Moggabloggið drap okkur ekki, látum heldur ekki flettismettið gera það.

p.s. reyndar sé ég svo sem ekki mikil merki um slíkt, lesturinn hér hjá mér er ekkert minni en fyrir ári.

p.p.s. já og ég þoli twitter engan veginn. Maður er að reyna að vinna í tölvunni og svo hoppar einhver tilkynning inn í hornið og tekur einbeitinguna algerlega. Smettið ræður maður allavega hvenær maður skoðar.

bústaður

fórum um helgina upp að Hreðavatni í fullkomna afslöppunarferð með krakkana mínus ungling (sem var heima að unglingast). Gerðum nánast ekkert nema slaka á, erfiðasta sem við tókumst á við var að fara í sund. Fór að dæmi pabba og smíðaði vísu í gestabókina (sem ég hef reyndar aldrei séð fyrr en núna, þó við höfum gist í þessum sama bústað tvisvar áður)

Gott er að koma á Hreðavatns hlað
hent er upp grilli með brosi á fési
legið í sófa með sudokublað
sundlaugin heimsótt í Borgarnesi.

(já, veit, þetta er óttalegt hnoð, ég þarf að æfa mig í svona vísnasmíð – þó ég sé með fáránlega öflugt brageyra þá er ég hreint ekki flink að henda fram vísum. Þarf víst æfingu eins og annað)

Snilldarhelgi en samt gott að koma heim eins og alltaf.


bland í poka

teljari

  • 374.200 heimsóknir

dagatal

apríl 2009
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930  

sagan endalausa