snobb

mikið skelfilega fer það í mínar fínustu þegar bókmenntasnobbarar (nei, ekki bókmenntaunnendur – hreint ekki sami pakki) talar niður Harry Potter bækurnar. Jújú, ég er ekki að segja að þetta séu bestu barnabókmenntir allra tíma, en að líkja þeim við rusl og segja að þær séu bara dægurflugur er að mínu mati mjög mikill misskilningur.

Nú er ég svo heppin að hafa verið Potterfan frá því löngu áður en bækurnar urðu heimsfrægar þannig að ég lærði að meta þær án þess að eiga ‘möguleikann’ á því að detta í gryfjuna: Þetta er vinsælt, þess vegna hlýtur það að vera lélegt, sem allt of margir virðast falla í.

Í gærkvöldi var víst danskt viðtal í sjónvarpi við einn á kafi í snobbgryfjunni. Ekki þori ég að sverja að hann hafi ekki lesið bækurnar, eða kannski bara lesið fyrstu tvær og svo jafnvel séð myndirnar (sem mér finnast reyndar óttalegt rusl, vantar allan húmorinn), en hann bar bækurnar saman við bækur C.S.Lewis og hvað þær ættu að vera mikið betri og dýpri. Jújú, persónusköpunin þar er fín en það sem Potterveldið hefur langt fram yfir þær bækur er að Rowling talar ekki niður til barnanna og prédikar heldur ekki yfir þeim, sem ég hef sjálf aldrei þolað við Lewis, hvorki sem barn né fullorðin. Þóttu bækurnar leiðinlegar þegar ég las þær sem krakki, vissi ekki alveg hvers vegna en áttaði mig svo á því þegar ég ákvað að gefa þeim séns aftur áður en ég benti mínum börnum á að lesa þær, eða kannski réttara sagt áður en ég segði við þau að þær væru hundleiðinlegar. Prédikanir hafa aldrei farið vel í mig.

Hins vegar er alrangt að allar persónur séu svarthvítar hjá Rowling. Í fyrstu bókunum lítur það þannig út en eftir því sem bókunum fjölgar – og þær hætta nánast að vera barnabækur – breytist það talsvert, fólk þroskast báðum megin borðsins, maður finnur efa og skelfingu Dracos til dæmis vel, einnig er táningsangist Harrys mjög sannfærandi í bók 5.

Svo er vefurinn náttúrlega algjör snilld, Rowling er á við flinka kónguló í þráðum sem leysast, vísbendingum í bók eitt sem skýrast ekki fyrr en í bók sex og sjö, bækurnar eru líka bráðfyndnar. Ég er margbúin að lesa þær allar og finn alltaf eitthvað fyndið sem ég hafði ekki tekið eftir eða fattað við fyrri lestra.

Leiðinlegir sleggjudómar. Uss.

13 Responses to “snobb”


 1. 1 Daníel 2009-02-25 kl. 18:50

  Ég hef heldur aldrei þolað C.S. Lewis. Þessar Narníu-bækur eru hrokafullar og illa skrifaðar. Þrátt fyrir ákveðna galla er J.K. Rowling mun betri.

 2. 2 vælan 2009-02-25 kl. 19:04

  ég er sammála. Á móti kemur að bækurnar eru mjög misvel skrifaðar, þetta viðurkennir Rowling líka sjálf, miðbækurnar eru skrifaðar undir gífurlegri pressu og eru því ekki jafn hnitmiðaðar og skarpar eins og fyrstu bækurnar og síðustu tvær.

  En ég elska þessar bækur. Það verður ekki af því skafið. Þegar ég keypti þá fyrstu á flugi heim til Íslands í jólafrí gat ég ekki sagt aukatekið orð við foreldra mína elskulega sem komu að sækja mig, þau fengu ekkert að vita um önnina sem var nýliðin fyrr en ég var búin 😀

 3. 3 Svala 2009-02-25 kl. 19:14

  Algerlega sammála. Þoli ekki svona fordómafullt og hamslaust snobb!

  Ég var svo óheppin að horfa á þetta viðtal við þennan hrikalega fordómafulla mann, en gafst þó upp í miðju viðtali og skipti um rás, því að þetta var svo mikið bull sem vall upp úr manninum.

  Byrjaði að lesa Harry Potter eftir hvatningu frá vinkonu minni sem er grunnskólakennari og þá voru þær ekki orðnar jafn gríðarlega vinsælar og þær urðu.

  Prófessorinn fyrrverandi sem talað var við í gær líkti t.a.m. Harry Potter bókunum við bækur Stephen King og sagði að börn sem lesa Harry Potter muni aðeins lesa Stephen King og aðrar „sjoppubókmenntir“ þegar þau vaxa úr grasi. Svo bullaði hann um Shakespeare og bla bla bla.

  Ekki er ég sérlega heilluð af Stephen King og er löngu vaxin upp úr þeim, en ég hafði mjög gaman af Harry Potter. Hef líka lesið talsvert af Shakespeare og það er nú mjög misjafnt…

 4. 4 baun 2009-02-25 kl. 19:24

  æ hvað eruð þið að ergja ykkur yfir gömlum og fúnum hrokagikkjum?

  (ég er ekki að tala um DO)

 5. 5 Gurrí 2009-02-25 kl. 19:47

  Ég heyrði fyrst af Harry Potter heima hjá þér í matarboði, svo sló hann í gegn. Nennti ekki að lesa hann á ensku en eftir fyrstu bókina keypti ég þær fyrst á ensku og las þær síðan síðar á íslensku eftir að þær voru þýddar. Mér fannst reyndar gaman að Narníu en held miklu meira upp á Potter. Þarf að fara að endurlesa þær allar. Jamms, ég þoli ekki bókasnobbara, frekar en þú.

 6. 6 hildigunnur 2009-02-25 kl. 19:51

  tíhí, maður verður nú að finna sér nýja gamlafúna hrokagikki, ekki endalaust hægt að velta sér upp úr pirringi við DO. En ástæðan fyrir því að ég fór að pirrast var samtal í dag við fólk sem trúði þessu bulli – fólk sem einmitt hefur ekki lesið allar bækurnar og jafnvel bara lesið þær á íslensku sem er náttúrlega gersamlega ekkert að marka, þar sem þýðingarnar eru engan veginn nógu góðar.

 7. 7 baun 2009-02-25 kl. 19:56

  amm, skil þig. keypti líka HP á Amason áður en fyrsta bókin var þýdd og finnst þær bráðskemmtilegar.

 8. 8 Kristín Á 2009-02-26 kl. 11:28

  Ég byrjaði að lesa Harry Potter þegar það voru komnar út svona þrjár-fjórar bækur og það var í námskeiði um barnabækur í Háskóla Íslands. Ég er mjög hrifin af þessum bókum og finnst þær eins og þú segir hreinlega ekki barnabækur eftir því sem líður á seríuna. Plottin eru bara mjög góð.

 9. 9 hildigunnur 2009-02-26 kl. 21:34

  Amm, akkúrat.

  Meira að segja Dudley, sem er náttúrlega bara teiknimyndakarakter í fyrstu bókunum, þroskast, ótrúlegt en satt. Pabba hans er samt ekki við bjargandi.

  Gurrí, er í alvöru svona svakalega langt síðan þú komst í mat? Spurning um að bæta úr því… 😀

 10. 10 Elías 2009-02-26 kl. 23:56

  Svo má líka líta á eitt varðandi muninn á Narníu og Harry Potter: Harry Potterbækurnar eru margfalt stærri bækur en Narníubækurnar og frásögnin er mun þéttari. Leyndar tilvísanir í ókomna atburði eru líka nokkuð sem finnst næstum á hverri blaðsíðu í Potter, en finnst lítið í Narníubókunum, sem eru satt að segja frekar einfeldningslegar frásagnir miðað við Potter.

 11. 11 hildigunnur 2009-02-27 kl. 08:50

  Elías, nákvæmlega, þetta benti ég einmitt á í samtalinu þarna í fyrradag. Vísbendingar alveg frá fyrstu bók sem leysast ekki fyrr en í þeirri sjöundu, og ekkert bara nokkrar, allt fullt. Svo líka þessi ótrúlega natni við nöfn, bæði á persónum og göldrum, já og stöðum, það má grafa endalaust til að finna vísanir.

 12. 12 Toggi 2009-03-3 kl. 08:03

  Var þetta ekki Harold Bloom, hinn mikli bókapáfi sem þarna hraunaði yfir Harry?

  Hér er frábær grein um annað dæmi um snobb og hroka gagnvart vinsælu listaverki:

  http://nickhornby.campaignserver.co.uk/?p=121

  Lokaorðin fyrir þá sem ekki nenna að lesa:

  I’m sure they’re [intellectuals, inskot TT] all very clever people, but they can be terribly dim sometimes.

  Ég sé ekki nokkra ástæðu til að vaxa upp úr því að láta heillast (blekkjast?) af vel sögðum sögum. Á sama hátt og það hvað Mahler er frábær á ekkert að þurfa að eyðileggja fyrir manni gleðina yfir góðu pönki.

 13. 13 hildigunnur 2009-03-3 kl. 08:23

  Toggi, nákvæmlega.

  Þetta putdown hjá Hornby (er það ekki hann sjálfur sem skrifar) er snilld, sérstaklega um hvað þetta hafi nú átt að vera mikil peningamaskína 😀


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 373.798 heimsóknir

dagatal

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: