Öll fjölskyldan var um helgina í Lóni, nánar tiltekið í bústað í Grænuhlíð. Hún Helga mágkona mín var fertug, mamma hennar sjötug og dóttir hennar tíu ára, öllu slegið saman í afmælisveislu fyrir fjölskyldurnar. Ógurlega gaman, sveitin óóóótrúlega falleg (myndir síðar, eru að hlaðast inn í vélina og eiga eftir að koma á flickr).
Keyrðum austur í mjög misgóðu veðri á föstudaginn, ætluðum að borða nesti við Seljalandsfoss en þar voru þá þvílíkir hópar af túristum og þessutan dropaði úr lofti. Keyrðum lengra, til að sjá til hvort við fyndum þurran blett, en allir voru orðnir svo svangir að við entumst ekki alla leið að Skógafossi. Fundum okkur bekk fyrir utan Þorvaldseyri, drógum upp nesti – allar fjölskyldurnar reyndust hafa gert nógu mikið nesti fyrir alla, þannig að – tja – við kláruðum ekki alveg.
Ég skil núna alveg frasann: Bjart með ströndinni en rigning inn til landsins.
Nokkrum pissu – og sjoppustoppum síðar (meðal annars í Vík, heimsóttum samt ekki Hörpu komum við í Jökulsárlón, jafnflott og venjulega en ég hef aldrei nokkurn tímann séð svona mikinn ís í lóninu. Hefði viljað fara upp þarna sem maður getur séð klakana falla í vatnið, ég hef aldrei farið þangað og það hljóta að vera magnaðar sýnir.
Rigning – sól – rigning – sól – hellirigning – skýjað – dropar, já sirka svona var veðrið. Gegn um göngin í Almannaskarði, talsverð samgöngubót það. Upp í Lón, þræddum malarveg og fundum þennan líka flotta bústað, í eigu Ruthar, systur Helgu, Jakobs, mannsins hennar og systkina hans. Þau gistu sjálf í bústaðnum þannig að borgarbörnin við gátum fengið lánað stóra tjaldið þeirra, átta manna, þriggja svefnherbergja tjald, kallað Kópavogskirkja. Því var riggað upp á engum tíma (nei, við hjálpuðum bara, ekki séns að við hefðum fundið út úr því sjálf nema með miklum pælingum, Kobbi reddaði málunum).
Grilluðum síðan pylsur og borgara í kvöldmatinn, smá bjór með og svo skreiðst í tjald. Það verður að viðurkennast að það að sofa í tjaldi er ekki í sérlega miklu uppáhaldi hjá undirritaðri, þrátt fyrir að hafa tekið sængurföt með í stað hataðra svefnpoka, fyrri hluti fyrri nætur var heldur ekki sá þægilegasti. Svaf í fötunum, var samt kalt, loftið í glænýju vindsængunum var skítkalt og maður mátti ekki hreyfa sig, þá hrærðist upp í því og kalt loft kom í stað þess sem maður var þó búinn að hita upp með líkamanum. Var mikið að bræða með mér hvort ég ætti að gefast upp og flýja á svefnloftið í bústaðnum (það mátti, ef einhverjum liði ekki vel) en það var þrátt fyrir allt svo mikið vesen að ég lá bara þarna áfram. (Dæturnar flúðu, reyndar). Var hins vegar í megafýlu og harðákveðin í að reyna þetta ekkert aftur, næstu nótt, fara bara beint á loftið.
Nú, svo sofnaði ég loksins þokkalega og vaknaði í talsvert betra skapi, þrátt fyrir þvæld föt.
Of þreytt núna, best að koma með framhaldið bara á morgun…
hmm ég held að það sé aldrei nokkurn tíma farið neitt nálægt því þar sem klakarnir brotna úr jöklinum, allavega ekki nema úr lofti, það er víst alltof hættulegt. Enda engin smá náttúruöfl í gangi!
Spurðum um þetta fyrir tveimur árum þegar við splæstum í siglinguna.. það er rosa gaman að fara í hana!
Væla, einhver var einmitt að tala um að það væri staður sem maður gæti farið (auðvitað í öruggri fjarlægð) og séð þetta spektakel. Verðum að tékka á því betur…
hmm, þetta var víst hægt, en þeir eru hættir að fara með fólk þangað. Megasúrt 😦
Reyndar, er umræddur félagi minn, sem ég minntizt á hér í fyrri athugasemd, kafteinn á dona bát á Jökulzárlóni.
Það er nefnilega allt hægt, sem að er ekki hratt…
Mér finnst svo yndislega gott að sofa í tjaldi.
Ég alveg elska að sofa í tjaldi. Gott ráð gegn köldu lofti í vindsængum er að hafa eina af þessum þunnu ódýru einangunardýnum ofan á vindsænginni. Og ég er alltaf með sængina mína, dettur ekki í hug að vera í svefnpoka.
Halló! Ég bý hérna….menn keyra bara ekki framhjá sisona! Kær kveðja í kotið.
Bæði lónin eru falleg, þ.e Jökulsárlónið og Lón. Gaman að því að þú skyldir hafa heimsótt mitt heimasvæði. Hlakka til að lesa meira.
Lón er yndislegur staður. hef verið þarna í bústað og gengið mikið í Lónsöræfum líka. óviðjafnanleg náttúruperla.
mér finnst yfirleitt óþægilegt að sofa í tjaldi, en í réttum félagsskap er það þó svooo notalegt…
Guðlaug, ég reyndi, hringdi bæði í gemsa og farsíma hjá þér. Ekkert svar 😦 Vorum svo ekki með gott símasamband uppi í bústað.
Smá ábending Hildigunnur. Þið keyrðuð inn Stafafellsfjöll, framhjá Grænuhlíð.(skiltið hefur sennilega snúið vitlaust) Grænahlíð er lögbýli, en bústaðurinn ykkar hét eftir byggingu Barkarstaðir! Leitt að við skyldum ekki hafa náð saman, það hefði verið gaman. Kær kveðja í bæinn.
Hmm, ókei, bústaðurinn heitir reyndar Litla Grund, ég veit ekki hvort hann hefur alltaf heitið það, þarna er fullt af bústöðum. Ég hélt að öll hlíðin þarna inn eftir héti Grænahlíð, það er væntanlega minn misskilningur. Jámm, hefði verið gaman að kíkja til ykkar 🙂
„Datt“ inn á síðuna. Var að leita að mailinu þínu. Diskurinn alveg að verða tilbúinn, við höfum verið dugleg að kynna innihaldið. Sjá t.d. þessi skrif Sverris Páls, þar sem Hildigunnur er nefnd með Rachmaninov og Purcell
http://svp.is/articles/sverrir_pall_segir/hymnodia_a_hjalteyri/
kveðja,
Eyþor og Hymnodia
Eyþór, frábært, hlakka til að heyra 🙂