Sarpur fyrir 10. ágúst, 2008

Lón

Öll fjölskyldan var um helgina í Lóni, nánar tiltekið í bústað í Grænuhlíð. Hún Helga mágkona mín var fertug, mamma hennar sjötug og dóttir hennar tíu ára, öllu slegið saman í afmælisveislu fyrir fjölskyldurnar. Ógurlega gaman, sveitin óóóótrúlega falleg (myndir síðar, eru að hlaðast inn í vélina og eiga eftir að koma á flickr).

Keyrðum austur í mjög misgóðu veðri á föstudaginn, ætluðum að borða nesti við Seljalandsfoss en þar voru þá þvílíkir hópar af túristum og þessutan dropaði úr lofti. Keyrðum lengra, til að sjá til hvort við fyndum þurran blett, en allir voru orðnir svo svangir að við entumst ekki alla leið að Skógafossi. Fundum okkur bekk fyrir utan Þorvaldseyri, drógum upp nesti – allar fjölskyldurnar reyndust hafa gert nógu mikið nesti fyrir alla, þannig að – tja – við kláruðum ekki alveg.

Ég skil núna alveg frasann: Bjart með ströndinni en rigning inn til landsins.

Nokkrum pissu – og sjoppustoppum síðar (meðal annars í Vík, heimsóttum samt ekki Hörpu komum við í Jökulsárlón, jafnflott og venjulega en ég hef aldrei nokkurn tímann séð svona mikinn ís í lóninu. Hefði viljað fara upp þarna sem maður getur séð klakana falla í vatnið, ég hef aldrei farið þangað og það hljóta að vera magnaðar sýnir.

Rigning – sól – rigning – sól – hellirigning – skýjað – dropar, já sirka svona var veðrið. Gegn um göngin í Almannaskarði, talsverð samgöngubót það. Upp í Lón, þræddum malarveg og fundum þennan líka flotta bústað, í eigu Ruthar, systur Helgu, Jakobs, mannsins hennar og systkina hans. Þau gistu sjálf í bústaðnum þannig að borgarbörnin við gátum fengið lánað stóra tjaldið þeirra, átta manna, þriggja svefnherbergja tjald, kallað Kópavogskirkja. Því var riggað upp á engum tíma (nei, við hjálpuðum bara, ekki séns að við hefðum fundið út úr því sjálf nema með miklum pælingum, Kobbi reddaði málunum).

Grilluðum síðan pylsur og borgara í kvöldmatinn, smá bjór með og svo skreiðst í tjald. Það verður að viðurkennast að það að sofa í tjaldi er ekki í sérlega miklu uppáhaldi hjá undirritaðri, þrátt fyrir að hafa tekið sængurföt með í stað hataðra svefnpoka, fyrri hluti fyrri nætur var heldur ekki sá þægilegasti. Svaf í fötunum, var samt kalt, loftið í glænýju vindsængunum var skítkalt og maður mátti ekki hreyfa sig, þá hrærðist upp í því og kalt loft kom í stað þess sem maður var þó búinn að hita upp með líkamanum. Var mikið að bræða með mér hvort ég ætti að gefast upp og flýja á svefnloftið í bústaðnum (það mátti, ef einhverjum liði ekki vel) en það var þrátt fyrir allt svo mikið vesen að ég lá bara þarna áfram. (Dæturnar flúðu, reyndar). Var hins vegar í megafýlu og harðákveðin í að reyna þetta ekkert aftur, næstu nótt, fara bara beint á loftið.

Nú, svo sofnaði ég loksins þokkalega og vaknaði í talsvert betra skapi, þrátt fyrir þvæld föt.

Of þreytt núna, best að koma með framhaldið bara á morgun…


bland í poka

teljari

  • 373.923 heimsóknir

dagatal

ágúst 2008
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa