Sarpur fyrir júlí, 2008fimmeyringur

gessovel:

úff, mistök

leit ekki á hitamælinn áður en ég fór af stað með Finn í morgun á sundnámskeiðið, alskýjað, fór í síðerma peysu undir jakkann, og sokka, setti gutta í jakka og við hjóluðum af stað.

Svo sem ekkert svo svakalegt á leiðinni vestureftir, en á leiðinni heim var sólin farin að kíkja fram úr skýjunum. 20 gráðu hiti, sól, nær logn (eða smá gola á eftir okkur). Bráááðn. Fórum niður í bæ á pósthúsið til að sækja pakka (bókaklúbbur krakkanna) og svo heim, Finnur var ógurlega feginn að komast að brunninum efst í Bankastræti til að fá sér vatnssopa.

Finnur datt reyndar á leiðinni vestureftir, hruflaði sig á öðru hnénu og stórutá hægri fótar. Svo sveið svo mikið í sundinu að hann hélt ekki út og vildi fara upp úr. Synd, síðasti námskeiðsdagurinn og leikjadagur í þokkabót.

ég er ekki að hugsa um

að kaupa efnafræðisett handa Finni :O

í dag

hef ég ekki gert neitt, nema fara með Finn í sund, hjóluðum ekki einu sinni, of mikið rok, og gengið frá kórdiskahlaðanum sem er búinn að vera við hliðina á tölvunni minni í meira en mánuð. Jú og ég skaust reyndar á kaffihús að hitta Fríðu (framkvæmdastjóra ITM) og gefa henni smáskýrslu um ferðina. Meiri og betri skýrslugjafir bíða ágústs.

Hún hafði hins vegar á orði að ég væri þreytuleg. Hmmmm.

æslandekspress

flaug með þeim út og heim, svo sem ágætis þjónusta, en mikið hrikalega var þröngt í vélinni á leiðinni heim. Var þakklát fyrir að hafa hitt Magga og Hrafnhildi, sem vöruðu mig við – þannig að ég passaði mig að vera búin að fara og pissa áður en ég fór út í vél. Ágætt, þar sem ég hefði eiginlega ekki kunnað við að troðast fram hjá dönsku eldri frúnum tveimur sem sátu fyrir utan mig.

Og fínt að vera ekki langleggjaður, ég rak hnén í sætið fyrir framan, þrátt fyrir að vera ekki sérlega hávaxin.

En flugfreyjurnar voru indælar og hjálpsamar og flugstjórinn óvenju fyndinn og lifandi í tilkynningum sínum (møgvejr i Keflavik i dag). Ekki þeim að kenna hvað sætunum í leiguvélinni var þétt pakkað.

hei já

svo fékk ég meira að segja pöntun þarna í útlandinu, ekki útlenska, reyndar, heldur að hún Hrafnhildur Blomsterberg (sem er með Kór Flensborgarskóla) var þarna og vill fá nýtt stykki fyrir kórinn. Þarf að fara að kíkja á ljóð, bæði fyrir það og fyrir verkið fyrir Hljómeyki og hann Kristján Orra, sem ég þarf líka að fara að kíkja á. Hmm, já og svo þetta fyrir Írana. Greinilega nóg að gera ennþá.

aaaahhh

gott að vera komin heim, og nú er ég sko ekki að fara nokkurn skapaðan hlut, takk, allavega ekki langt, ekki lengi og ekki án fjölskyldunnar.

H&M kaupin heppnuðust mjög vel, fötin smellpassa á liðið. Og ég sem keypti meira að segja buxur…

södd,

södd, gersamlega að springa, fyrsti almennilegi maturinn sem ég fæ hér í Kaupmannahöfn. Svo sem algerlega við sjálfa mig að sakast, en það er bara ekkert skemmtilegt að fara aleinn út að borða. Skyndifæði og brauð á hóteli búið að vera aðalmaturinn, pylsur og skinkuhorn og all-time-low, makkdónalds á lestarstöðinni. Úff.

Í kvöld hinsvegar, þegar seinni tónleikum dagsins lauk fór ég til hennar elsku Irme minnar, hún bauð fyrst upp á kaffi (tja, rósavínsglas, drekk ekki kaffi) á ógurlega sætu kaffihúsi og svo í þvílíkan veislumat heima hjá sér. Ég gaf henni disk með nokkrum verkum mínum, hún er eiginlega í áskrift, ég kem alltaf með nýjar upptökur þegar ég kem til hennar.

Skoðuðum myndir af börnum og barnabörnum og rifjuðum upp þegar hún kom til Íslands og söng með í Hljómeyki eitt sumarið í Skálholti, þá var Freyja nýfædd, ég sá nokkrar myndir sem ég hef aldrei séð, frá þeim tíma.

Ógurlega gaman.

Núna, hinsvegar, er ég að hugsa um að fara að sofa. Síðustu tvö kvöld hefur verið svo líflegt og skemmtilegt á ircinu að ég hef ekki farið að sofa fyrr en allt of seint, maður horfir á tímana og hugsar: Kva, ekkert mál, klukkan er bara hálftólf, hins vegar er tölvuklukkan enn á íslenskum tíma…

sein í strætó

ég held ég hafi aldrei áður farið í ferð þar sem ég missti jafn oft af strætó. Hef ekki tölu á skiptunum sem ég hef séð strætó renna af stað, mínútunni á undan mér. Súrt.

(Gæti reyndar haft eitthvað smá með það að gera að klukkan á símanum mínum var 3 mínútum of sein. Þó ekki allt, þar sem ég var ekkert mikið að fara eftir því hvenær strætó ætti að fara – hef venjulega ekkert kíkt eftir því).

Seinni hluti dags

var ekki mikið síðri, fyrirlestur hjá Jean Sturm sem er með Musica kórnótnafyrirbærið, þá aftur á sölubásasvæðið að tala við fólk og mynda kontakta. Rjúka heim á hótel, langa ekkert í brauð og álegg, hafa ekki tíma fyrir almennilegan mat, makkdónalds á lestarstöðinni (bjakk) hendast og pakka restinni af bæklingunum í bakpokann, taka lestina á konsert Hamrahlíðarkórsins. Náðist. Fyrst samt tónleikar hjá brasilískri grúppu, fínt bara, sérstaklega black heritage parturinn hjá þeim, samt óþarflega mikið show, stundum finnst mér vera gert svo mikið úr umgerð tónlistarinnar að hún týnist algerlega sjálf. Og þá er eiginlega verra af stað farið en heima setið.

Mikið hrifin af Vikivakanum hans Atla Heimis – þar er reyndar show en maður sér ástæðuna – og það virkar. Enda var það eina trikkið (fyrir utan kinkakollin í Raupsaldri Þorkels – sem heitir annars Þhorkell í prógramminu, fyrsta skipti sem ég sé þá útgáfu af nafninu).

Allt flott, Scissors vex með hverri hlustun og Haukur er æði.

Eftir tónleika dreifði ég bæklingum og fengu talsvert færri en vildu. Lét slatta fólks fá kort og loforð um að kynningarefnið myndi koma á vefinn. Nú hverfur sól í haf, eftir Þorkel, fékk langflestar beiðnir um að fá sent, sýnist það munu slá í gegn. Enda gríðarfallegt lag.

Eftir tónleikana fórum við Hafdís ásamt finnska kórstjóranum Ritu Varonen áleiðis í bæinn, fengum okkur smá að borða og rauðvínsglas ásamt löngu spjalli. Rita lofaði að dreifa íslenska efninu eftir megni, hlakka til að heyra hvað kemur út úr því.

Leigubíll heim á hótel. Spurning um svefn?

snilldarfyrirlestur

fór eftir morgunsöng undir stjórn Þorgerðar og kórsins á fyrirlestur Erics Whitacre í morgun. Skemmst frá því að segja að maðurinn er snillingur. Á svo sem eftir að hlusta almennilega á músíkina hans, en pælingarnar eru mjög fínar og svo er hann líka ótrúlega skemmtilegur. Fílósófían mjög lík minni, reyndar, þó músíkin sé alls ólík.

Á þvílíkt eftir að kynna mér músíkina betur, við sungum búta úr nokkrum verkum. Eitthvað er nú verið að flytja hér, sé til hvort ég næ að heyra. Hver veit nema við verðum með einhvern Whitacre á komandi tónleikum?

sveimérþá

mér sýnist ég ekki þurfa að trufla Finnana með neinum bunkum, nú er svo lítið eftir af bæklingum að ég sé fram á að klára þá alveg á morgun. Fólk reif þetta í sig á tónleikunum í kvöld.

Nýja verkið hans Þorkels er mjög skemmtilegt. Hlakka til að heyra það aftur. Kórinn flottur að vanda. Aðrir tónleikar á morgun, þá eru líka tveir fyrirlestrar sem ég ætla að sækja.

Ekki byrjaði dagurinn

nú vel.

Hringt í mig klukkan rétt fyrir sex í morgun. Your wake-up call!

Ég: Uhh, Ahh, Hmm???

Lagt á.

Og ég sem gat ekki einu sinni stunið upp úr mér að ég hefði alls ekki beðið um vakningu. Vona að sá/sú í næsta herbergi fyrir ofan/við hliðina hafi ekki misst af neinni flugvél eða lest út af því að það var hringt í mig í stað þeirra.

Nú, fyrir utan þetta er dagurinn búinn að vera afskaplega góður og nýtur. Mætti í frekar shabby hliðarsal í Óperunni þar sem fyrirlestur Þorkels, Þorgerðar og Hamrahlíðarkórsins: Meet Iceland, fór fram. (þegar ég kem myndavélinni í samband við tölvuna mun ég sýna myndir af „kórpöllunum“ sem þau þurftu að notast við). Settist þar niður, fékk bækurnar sem krakkarnir höfðu borið fyrir mig (hmm, einhverjir hafa nú reyndar gleymt bókum heima, vantar smá), fór að pota inn í þær diskunum með tóndæmunum. Hún Hafdís hafði lofað að koma og aðstoða mig, ég hélt að ég gæti örugglega keypt fyrir hana aðgang að stökum fyrirlestrum, þegar hún mætti reyndi ég það en nei, þurfti að kaupa allan daginn fyrir hana. 900 danskar krónur. Úff. En það var gert og reyndist hún betri en enginn. Raðaði í bækur eins og herforingi, en þar sem klukkan var orðin ansi nálægt tíu (fyrirlesturinn hófst þá), voru kórkrakkar og fararstjórar virkjaðir líka.

Komum út nær 300 bókum og diskum bara á þessum fyrirlestri, hreint ekki slæmt. Takk fyrir hjálpina, allir.

Fyrirlesturinn var flottur, Þorkell kynnti íslenska kórtónlist frá miðöldum og upp úr, krakkarnir sungu eins og englar undir styrkri stjórn Þorgerðar.

Eftirá skiluðum við bókum inn á hótel og ég bauð Hafdísi í mat á risnureikningi (hehe, ætli maður sé nú merkilegur), fengum okkur pizzu og salat og gos, fórum síðan á snilldar hádegistónleika í Óperunni.

Eftir það fór Hafdís heim en ég hélt áfram að vinna, fór upp á fjórðu hæð þar sem sölu- og kynningarbásarnir eru. Hafði skilið allar bækurnar eftir á hótelinu sem reyndist mistök (þó ekki óafturkræf), sumir básarnir voru frá stórum kórum, eins og kór heilags Ólafs, þau vildu ólm fá bæklinga, einn eða tveir aðrir líka. Reddast á morgun. Talaði við yfirmann báss finnsku tónverkamiðstöðvarinnar, þar fæ ég að skilja bunkana mína eftir, ef ég næ ekki að koma bókunum öllum út. Snilld.

Kom mér upp á hótel í langþráða sturtu (náði því ekki í morgun) og ætti núna eiginlega að vera að fara á tónleika, en ég hugsa að ég leggi mig frekar í smástund og fari síðan á tónleikana hjá Hamrahlíðarkórnum á eftir, meiri vinna, jámm.

ráðstefnan

sett af stað með glans, flottir danskir kórar að flytja danska músík í röðum, snilldar leikhópur á milli atriða, tók nokkur vídjó en hver ætli hafi nú gleymt snúrunni yfir í tölvuna AFTUR?

Er reyndar með slatti stór minniskort, tvö stykki, duga samt ekki endalaust í vídjó.

frönsk pylsa

í hádegismat, fór svo í REMA discount markað og keypti brauð, safa og fullt af áleggi, morgunmatur á herberginu, sýnist mér á öllu. Nísk á dagpeningana.

Reyndar sýnist mér hafa verið farið í töskuna mína á öðrum hvorum flugvellinum, lásinn bara horfinn, en reyndar sé ég ekki að neitt hafi verið tekið. Kannski voru þessir fimm stóru geisladiskahólkar dularfullir í gegnumlýsingu og þeir viljað tékka á hvort þetta væru sprengjur eða eitthvað, hver veit?

jæja

netið er ókeypis (og fínt signal, hingað til allavega) á Grand Hótel en hins vegar ekki morgunmaturinn, hmm, það yfirsást mér þegar ég bókaði. En hér er allavega minibar þannig að ég bara kaupi mér brauð og salat og safa og spara hótelmorgunmatinn.

Er semsagt komin til útlanda einn ganginn enn. Upp úr klukkan tvö þarf ég að fara inn í Óperuna til að skrá mig inn á ráðstefnuna, hmm, þarf að finna hvaða strætó gengur þangað.

Í kvöld móttaka fyrir alla og svo óperuball síðar um kvöldið. Eins gott að hafa tekið með sér þokkaleg föt.

En núna út að taka út einhvern smá pening og fá mér að borða, ekkert borðað nema tópas síðan í frekar súrum enskum morgunmat í Leifsstöð. Laters.

þetta skýrir ýmislegt…

stráksi

er bara orðinn svo ansi flinkur að synda, fór með honum á sundnámskeiðið í dag í fyrsta skipti í nærri tvær vikur. Snilld að geta sent hann einan í sund með vinum sínum. Samt helst ekki sjálfan inn í Vesturbæjarlaug, hann var fullkaldur á hjólinu, ekkert allt of mikið að líta í kring um sig yfir götur (klárt ég talaði yfir hausamótunum á honum)

Ánægð með að hafa drifið í að fá námskeið handa honum, ég held reyndar að í skólanum séu þau að læra bringusund en skrið á námskeiðinu. Gerir svo sem ekkert til, fínt að kunna hvorttveggja.

þegar hann

Ármann brýtur þögnina er það með góðri spurningu.

Vona hann sé byrjaður aftur, ekki bara þetta eina.

vííí

kom öllum bæklingunum 500 á Hamrhlíðinga, svo er að vita hvort ég þarf að halda á 500 diskum eða hvort ég geti pakkað þeim í tösku sem fari í farangur kórsins, kemur í ljós. Þarf allavega ekki að halda á þessari 70 (á að giska) kílóa tösku.

Nú er ég að fara að búa til nokkra diska með messunni minni, ekki kann ég nú við að dreifa henni með öllum diskunum, en nokkra þekki ég aðeins, og vil endilega koma þessu aðeins á framfæri. Verst að hún er ekki komin út, þetta verður hálfgerð sjóræningjaútgáfa. Var að hugsa um að kaupa frekar slatta af usb lyklum, en það er fáránlega miklu dýrara, yfir þúsundkall lykillinn, í stað innan við hundraðkall fyrir disk.

Já og ég er loksins orðinn stoltur eigandi tölvubakpoka, kominn tími á það fyrir langalöngu.


bland í poka

teljari

  • 373.344 heimsóknir

dagatal

júlí 2008
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa