ferðasagan – dagur 1

Kannski maður geri eins og í fyrra og hendi ferðasögunni inn, þó það sé ekki nema fyrir ferðafélagana (áminning – fá tölvupóstinn hjá samkennurunum)

Alltaf þægilega dagflugið, vöknuðum klukkan 4, Jón Lárus hafði boðist til að skutla mér út á völl (takk luv) og tveir kennarar ætluðu að vera samferða. Gekk nokk hnökralaust að vakna, fara í sturtu, pína í mig smá morgunmat, sækja hinar og keyra úteftir. Svosem ekki í frásögur færandi. Morgunmatur númer 2 á Kaffitári. Út að hliði, einhvern veginn tókst mér að lesa vitlaust á skiltin og hefði farið til London nema fyrir flugvallarstarfsmanninn sem vinnur við að leiðrétta syfjaða farþega, rambaði síðan á rétt hlið og vél. Morgunmatur númer 3 í vélinni, hmm, nei, það var nú eiginlega hádegismatur. Vélin ógurlega flott, skjár við hvert sæti, en maturinn nákvæmlega eins og venjulega, eggjakakan á skinkusneiðinni með kartöfluteningunum. Svo sem bara ágætt.

Komin klakklaust til CDG, eitthvað fannst mér flugvöllurinn hafa látið á sjá síðan við fórum í október 2006, fannst hann flottur þá en núna var fýla og talsvert ósnyrtilegra. Töskur allra skiluðu sér, það hafði greinilega verið reynt að brjótast inn í mína, lásinn var spenntur örlítið upp, nóg til að ég gat engan veginn opnað hann strax. Út, reynt að veiða okkur í 2 stóra leigubíla, væntanlega leyfislausir gaurar, fólk smástund að ákveða hvort því skyldi tekið, 15 evrur á haus, enduðum í löglegum leigubílum – og borguðum 14 evrur á manninn með þjórfé, þrátt fyrir að vera bara 3 í bíl, eitthvað átti nú að okra á túristunum.

Nújæja, á hótelið komumst við, tók reyndar óratíma að finna út úr herbergjaskipuninni, hótelið hafði klúðrað uppsetningunni á herbergjunum royally, ég endaði í herbergi með Elínu Hannesar, nokkuð sem stóð ekkert til, en það var auðvitað bara fínt. Hún hafði átt að vera með Ewu, sem fékk síðan einkaherbergi. Vorum í ógurlega fínu herbergi uppi á sjöttu hæð, líklegast besta herbergi ferðafélaganna, þó hin væru reyndar líka ágæt. Fann upptakara sem ég gat notað til að brjóta upp lásinn, sem betur fór.

Allir hittust niðri í lobbíi og fórum af stað út, einhverjir fóru niður að Signu, ég og Sarah (kennarinn hans Finns) röltum í verslanamiðstöðina stóru, Printemps Haussmann sem var rétt hjá hótelinu, fyrstu ferð þangað, þær urðu nokkrar.

Rándýrt mall, ég keypti held ég ekkert þar nema annan lás á ferðatöskuna og svo reyndar mat á skemmtilegum veitingastað þar uppi á efstu hæð. En útsýnið ofan af efstu hæðinni var gríðarlega flott, það var aðallega það sem heillaði við búðina. Reyndar mjög flottar vörur, alls konar merkjavara, ógurlega gaman að skoða húsbúnaðardeildina og fleira.

Náði að kaupa boli á yngri krakkana (í C&A) og svo tappatogara, sem náttúrlega hafði steingleymst að taka með, dæmigert.

Við Sarah gengum svo fram og til baka að leita að uppáhalds litla franska veitingastaðnum mínum, L’Incroyable, en fundum hann hvergi – hmm, þarf að tékka hvort hann sé nokkuð búinn að leggja upp laupana. Enduðum á stað sem ég man ekki hvað heitir og fengum, ja, kjötsúpu, bara án súpu, mauksoðið kjöt, kartöflur og grænmeti, alveg ágætt en ég geri nú ekkert síðra svoleiðis sjálf. Fín súkkulaðimús í desert, samt.

Aftur á hótelið, eins og venjulega er fáránlega gott að setjast niður með rauðvínsglas eftir endalaust plamp. Sváfum með galopna glugga, við Elín látum hvorugar smá umferðarnið trufla okkur (tja, reyndar lokaði ég glugganum þarna fyrstu nóttina, fullmikið af sírenuvæli, en hinar næturnar voru fínar).

0 Responses to “ferðasagan – dagur 1”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 373.798 heimsóknir

dagatal

maí 2008
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: