Sarpur fyrir 16. febrúar, 2008

snillingurinn ég

í rafmagnsleysinu í gærkvöldi hugsaði ég mér aldeilis gott til glóðarinnar að fara á netið til að tékka á hvort eitthvað væri af rafmagni að frétta, tvær fullhlaðnar fartölvur á svæðinu.

Jón Lárus: Uuuu, það er ekkert rafmagn á beininum…

dómur í mogga

Fékk bara fínan dóm fyrir fiðludúettana, hér fer:

Sópandi bogfimi
Myrkir músíkdagar – Kammertónleikar ****-

Blachly: Boat People (2006). Karólína Eiríksdóttir: Gradus ad Profundum (2002). Jónas Tómasson: Gríma (2007). Bára Grímsdóttir: Dans svíta fyrir Matta (1991). Hildigunnur Rúnarsdóttir: 10 mínútur fyrir 2 fiðlur (frumfl.). Bacewicz: Andante tranquillo. Félagar úr strengjahópnum Aþenu. Laugardaginn 9. febrúar kl. 16.

FJÖLMENNT var á MM tónleikunum í fyrrum Glaumbæ, sennilega einum bezta strengjasal höfuðborgarsvæðisins og því vel valinn undir strengjaverk kvöldsins þar sem sérstaklega ein– og tvíleiksstykkjunum veitti ekki af ríkri ómfyllingu. Eini ókosturinn var þrálátt lampasuð salarins (í námunda við tóninn G) er setti óumbeðinn orgelpunkt á veikustu staði.
Þrjú fyrstu verkin höfðu heyrzt áður, þar af tvö nýlega í Sigurjónssafni, þ.e. Boat People eftir James Blachly og Gríma Jónasar Tómassonar, hvort tveggja fyrir fiðlu og selló Hlínar Sigurjónsdóttur og Julia MacLaine. Á milli flutti Þórir Jóhannsson einleiksverk Karólínu Eiríksdóttur fyrir kontrabassa frá 2002, Gradus ad Profundum, og nutu öll atriðin ljómandi góðrar túlkunar. 12 mín. löng fjórþætt Dans svíta fyrir Matta fyrir fiðlu eftir Báru Grímsdóttur var áheyrileg smíð, borin uppi af seiðandi þjóðlegri tónmennt heima og heiman en gat líka bryddað á afstraktara tónmáli. Þótt snúnustu kaflar útheimtu nánast virtúósa spilamennsku, komst Ólöf Þorvarðsdóttir merkilega vel frá sínu.

Andi meistara Bartóks var ekki langt undan í lokaþætti Báru, og ekki ósvipaðra áhrifa gætti á köflum í sópandi meðferð Hlínar og Martins Frewer á 10 mínútum [reyndust 15] fyrir 2 fiðlur, nýju dúói eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Raunar hefði eins mátt nefna svítuna „10 æfingar“ því flestir þættir takmörkuðu sig við tiltekna áferð eða leikmáta. Þrátt fyrir nokkur dæmi um ljóðræna angurværð einkenndust flest númerin af kraftmiklu fjöri, stundum innblásnu af balkanskri sveitafótmennt, og eiga óefað eftir að heyrast aftur. Fyrir utan að hér fór fyrsta íslenzka verkið fyrir fiðludúó, og má það eiginlega furðu gegna.

Tónleikunum lauk með safaríku Andante tranquillo úr pólskum kvartetti fyrir 4 fiðlur eftir Grazinu Bacewicz (1913–69) með þátttöku 4. fiðlara kvöldsins, Kristínar Bjargar Ragnarsdóttur. Raunar að viðbættu „aukalagi“ (einsdæmi á MM?) í formi örstutts þáttar úr „svo til óspilandi“ nýju fiðludúói eftir Atla Heimi Sveinsson. Svona til að minna á að það „væri til“, eins og Hlíf kynnti. Var því, sem öllu undangengnu, bráðvel tekið og ekki að ástæðulausu.

Ríkarður Ö. Pálsson

Ekki sem verst…

undarlegt

framan á Fréttablaði dagsins er fjallað um afmæli Björns Thoroddsens. Talað um að meðal gesta hafi verið stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson og við fréttina er mynd af Björgvini.

Veit ekki með ykkur, en ef ég væri Björn Thoroddsen væri ég eiginlega frekar móðguð…


bland í poka

teljari

  • 374.140 heimsóknir

dagatal

febrúar 2008
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
242526272829  

sagan endalausa