Sarpur fyrir 10. október, 2007

ariadne

Sátum í rólegheitunum heima við matarborðið, hálfnuð með matinn þegar Óli bróðir hringir: Hei, ég fékk gefins 2 miða í óperuna, er að vinna og get ekki nýtt mér þá, langar ykkur?

Ég: Klukkan hvað?

Óli: Núna eftir tíu mínútur.

Ég: Úpps!

við skildum restina eftir á diskunum, hlupum niður til að skipta um föt í snarhasti (ég fór í Hljómeykisfötunum mínum, einhverra hluta vegna lágu þau fremst í skápnum), og hálfhlupum niður á 101 hótel til að ná í miðana til Óla. Vill til að það er 5 mínútna gangur frá okkur niður á 101 og hótelið er við hliðina á óperunni. Náðist nákvæmlega að fara inn, dyraverðirnir voru búnir að halla aftur annarri vængjahurðinni þegar við hlupum inn í anddyri.

Ég hafði ekki haft tíma til að snyrta mig nokkurn hlut til, ég er ekki viss um að ég hafi áður farið í óperuna ómáluð, skartgripalaus og með tagl í ekki alveg tandurhreinu hárinu. Ekki það, ég efast um að nokkur maður hafi tekið eftir því. Setti á mig maskara og varalit þegar ég var sest í sætið mitt (sem var NB. á besta stað í húsinu)

Allt í kring um okkur sat hópur af Könum sem kunni sig reyndar ekkert allt of vel. Þurfti stöku sinnum að snúa mér við og senda illt augnaráð til þeirra, það er eins og sumir haldi að það megi alveg tala saman í forleikjum og millispilum, émeina, það er nú enginn byrjaður að syngja, er það? Og ekkert að gerast á sviðinu…

Að því frátöldu var sýningin mjög flott, músíkin grand (bý reyndar að því að þekkja hljómsveitartónlist Richards Strauss mjög vel og þar með tónmálið, get skilið að einhverjum gæti mögulega þótt þetta aðeins langdregið). Söngvararnir voru flestir mjög flottir, (klárt að litlasystir bar af, samt, insert smiley), sérlega hrifin af Arndísi Höllu í hlutverki Zerbinettu og Ágústi sem Harlekin.

Eftir einn háa glanstóninn hjá Arndísi í stóru aríunni hennar, kom eitt undrandi Jaá! fyrir aftan okkur. Frekar fyndið, eiginlega. (reyndar var tónninn broti of hár, en glæsilegur samt).

Hin talaða íslenska Ingvars E. Sigurðssonar og sungin þýska söngvaranna í fyrri hluta sýningarinnar kom mjög vel og hikstalaust út, ég verð að mótmæla óupplýstum rýni Fréttablaðsins um daginn sem skildi bara ekkert í því hvers vegna óperur væru ekki þýddar og sungnar á íslensku frekar en upprunamáli.

Fyrirgefðu Páll Baldvin, en það er óvart ástæða fyrir því hvernig maður skrifar tónlist. Ástæða fyrir því að ákveðin orð og hljóð eru tónsett akkúrat eins og þau eru gerð en ekki öðruvísi. Merking orða, hljóðan sér- og samhljóða, hvað er hægt að syngja hátt uppi þannig að textinn skiljist á mismunandi málum og ýmislegt fleira. Það er mjög langt síðan fólk áttaði sig á því að óperur koma aldrei eins vel út í þýðingum og á upprunalegu máli. Heldur ekki sönglög og ljóð. Það er eiginlega alveg sama hvað þýðandinn er fær í íslensku, helst væri þetta möguleiki ef viðkomandi er söngvari og tónskáld líka. Kommenta á það sem þú hefur vit á, takk…


bland í poka

teljari

  • 373.922 heimsóknir

dagatal

október 2007
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa