gamall leikur og spurning til lesenda

Var að rifja upp um daginn þululeik sem við frænkur mínar lékum okkur oft í sem krakkar (úff, hljómar eins og ég sé allavega áttræð). Hann var spilaður með spilum, mig minnir að hann hafi verið kallaður Hjónabandsleikur eða eitthvað þvíumlíkt og átti að lýsa brúðkaupi okkar, þegar til kæmi.

Aðeins var notaður hluti spilastokksins. Farið var með þulu, spilin tínd eitt og eitt í bunka og þegar ákveðið spil (hjartadrottningin?) kom upp stoppaði þulan og orðið sem maður sagði, gilti (úff, þetta er ekki vel orðað, vonandi skilst þetta).

Ég man tvær eða þrjár þulanna en þær voru miklu fleiri. „Maddama, kerling, fröken, frú“ er líklega sú þekktasta, einnig var hvernig við færum til brúðkaups: „Gangandi, akandi, ríðandi, skríðandi, hjólbörum, bíl“, ein þulan var um starf tilvonandi eiginmanns (eitthvað um prest og kóng og bónda). „Hús, kofi, kamar, höll“ lýsti híbýlum sem hjónin myndu búa í, og svo framvegis. Áreiðanlega 6-7 þulur.

Man einhver eftir þessum leik, og þá fleiri þulur? Gúgull skilar engu…

19 Responses to “gamall leikur og spurning til lesenda”


 1. 1 Gísli 2007-09-29 kl. 15:32

  Hjónasæng heitir spilið. Ég man bara eftir þessum þulum.

  Hjólbörur, kerra, flugvél, bíll.

  Á brúðkaupsnóttinni verður hann:

  Á koppnum, stokknum, á henni, hjá henni.

  Best að spyrja mömmu við tækifæri.

 2. 2 hildigunnur 2007-09-29 kl. 15:49

  Alveg rétt, hjónasæng hét það.

  Annars greinilega margar útgáfur til af þessu. Ég þekki ekki þetta með brúðkaupsnóttina. (kannski var það bara í strákaútgáfunni 😉 )

  Finnst reyndar mín farartækjaþula skemmtilegri

  Endilega spyrja mömmu þína, þetta má ekki týnast. Sjálfsagt er þetta til í einhverjum bókum samt.

 3. 3 Kristín 2007-09-29 kl. 16:26

  Ég man álíka mikið og Hildigunnur, man t.d. alls ekki eftir að við höfum pælt í brúðarnóttinni sjálfri. EN við lékum þetta með sippubandi, orðið sem var sagt þegar okkur fataðist sippið (má segja svona?) gilti.

 4. 4 Fríða 2007-09-29 kl. 16:43

  ég er eiginlega alveg viss um að þetta er í bók sem var til heima þegar ég var lítil. Spyr mömmu næst þegar ég rekst á hana

 5. 5 Nanna 2007-09-29 kl. 17:02

  Það sem ég man (og nota enn, t.d. þegar ég spila hjónasæng við dótturdótturina) er þetta:

  Við notuðum allan spilastokkinn og byrjuðum á að spila ákveðið spil þar sem markmiðið var að losa sig við öll spilin. Sá sem fyrstur var til þess lenti í hjónasænginni og spilið sem hann setti seinast frá sér var það sem stoppað var við hverju sinni. Svo átti hver hinna spilamannanna að velja karlmann eða konu, eftir því sem við átti (og maður valdi sér líka einhvern sjálfur, það gat nú verið vandamál), og byrjað á að gefa spilamönnum eitt spil í einu þar til kom að stoppspilinu. Þá lenti maður í hjónasæng með þeim sem sá sem fékk stoppspilið hafði valið handa manni.

  Þulurnar sem ég man eru þessar:

  Hvernig biðillinn kom til að biðja manns (eða hvernig maður fór sjálfur ef sá sem lenti í hjónasænginni var strákur):

  Akandi, ríðandi, gangandi, skríðandi, fjósbörum, hjólbörum, bíl.

  Hvar maður var staddur þegar biðillinn kom:

  Á hlaðinu, við dyrnar, í dyrunum, forstofunni, stofunni, við rúmið, í rúminu.

  Svo var bónorðið borið upp og dregið spil: rautt fyrir já, svart fyrir nei. Ef svarið var nei varð spilið ekki lengra og byrjað aftur upp á nýtt.

  Mig minnir að við höfum verið með þulu fyrir brúðarkjólinn en man hana ekki. En svo var hringurinn:

  Gull, silfur, kopar, eir.

  Svo var spurning hvar brúðguminn lenti þegar hann skreið uppí á brúðkaupsnóttina.

  Koppurinn, stokkurinn, sængin.

  Og búseta ungu hjónanna:

  Hús, kofi, hreysi, höll.

  Svo var endað á að athuga hvernig ástir brúðhjónanna urðu:

  Hann elskar hana (eða hún elskar hann) af öllu hjarta, yfirmáta ofurheitt, harla lítið, ekki neitt.

  Kannski var eitthvað fleira en ég man ekki eftir að við höfum t.d. verið með neitt um stöðu brúðgumans.

 6. 6 Harpa J 2007-09-29 kl. 17:37

  Það sem ég man af þessu er barasta att komið. Við höfðum reyndar ekkert um brúðkaupsnóttina með.

 7. 8 hildigunnur 2007-09-29 kl. 18:49

  já, við vorum bæði með hringaþuluna og hvað viðkomandi elskaði mann mikið. En ferðaþulan var í okkar útgáfu hvernig brúðhjónin ferðuðust heim úr kirkjunni, ekki hvernig biðillinn kom í bónorðsferðina. Gæti samt misminnt.

 8. 10 Nanna 2007-09-29 kl. 20:23

  Já, það getur verið að mig misminni um það en held þó að við höfum haft þetta svona.

 9. 11 Veiga 2007-09-29 kl. 22:02

  Ég kannast eitthvað við þetta, en eitthvað er minnið greinilega farið að gefa sig.

 10. 12 Þóra Marteins 2007-09-29 kl. 23:20

  Hæ hæ

  ég er í tómu tjóni með þessa listamannalaunaumsókn. Fatta engan veginn hvað ég á að segja í þessari greinargerð. Markmið og gildi og kann ekkert að rökstyðja hvað ég þarf langan tíma. Geturðu hjálpað mér?

 11. 13 Katana 2007-09-30 kl. 00:12

  Ég man eftir að fara í eitthvað af þessu þegar ég var lítil, en ég man ekki meir en það sem komið er.

  Var það ekki hvernig þau komu í brúðkaupið? Við gerðum það alltaf þannig.

 12. 14 hildigunnur 2007-09-30 kl. 00:20

  Þóra, hæ, spjöllum á morgun.

  Katana, jú, eiginlega, en vaninn er jú ekki að brúðhjón fari saman í brúðkaupið, þannig að ég vantreysti eiginlega minninu. En úr því þú manst það þannig líka höfum við örugglega haft það þannig.

 13. 15 Nanna 2007-09-30 kl. 01:06

  Þarf nú ekki að vera nein mótsögn í því, ég held að hér áður fyrr hafi brúðhjón einmitt oftar en ekki farið saman til brúðkaupsins. En ég er nokkuð viss um að ég lærði þetta svona.

 14. 16 tonskald 2007-09-30 kl. 10:02

  takk 🙂

 15. 17 Anna Gulla 2009-07-7 kl. 02:53

  Það eina sem ég man eftir er; hjólbörum, fjósbörum, drossíu, bíl:) og er líklega um það hvernig brúðhjónin fara í kirkju Mjög skemmtilegt spil!

 16. 18 Kristján 2011-08-6 kl. 03:34

  Akandi, gangandi, ríðandi, skríðandi, hjólbörum, fjósbörum, drossíu, bíl.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

 • 374.140 heimsóknir

dagatal

september 2007
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: