Sarpur fyrir 12. ágúst, 2007

þessi hér

ætti ekki að eiga í miklum vandræðum þegar tannlæknirinn hans segir: Open wide:

Tredicesimo giorno

Og þá var það heimferðin.

Vaknaði klukkan 7, hrikaleg brunalykt í herberginu (skógarbruni næturinnar óvenju nálægt) og svo slatti af húsflugum inni í herberginu að pirra mig. Fór og bleytti handklæðið sem ég svaf með upp á nýtt, fann annað minna og bleytti það líka, huldi mig svo eiginlega alveg, rétt pláss til að anda. Flugurnar komust ekki að, og brunalyktin deyfðist talsvert við að anda rétt við bleytuna. Gat ss. sofnað aftur, ágætt.

Vöknuðum aftur um níuleytið. Jón Lárus byrjaði daginn á að skokka eftir bílnum til Smerillo. Ekki að hann hefði ekki getað fengið einhvern til að skjótast með sig, ég skil ekki alveg þessa sjálfspíningu. En ég skil svo sem aldrei hlaupin hjá honum, sjálfri þykir mér alveg arfaleiðinlegt að hlaupa. Betra hann en ég.

Óli bróðir hafði keypt baðvigt til að vigta töskurnar, við fengum hana lánaða til að passa upp á að engin taska yrði þyngri en 15 kíló. Vonlaust mál. Sáum fram á að annaðhvort þurfa að kaupa nýja tösku eða borga fullt af yfirvigt. Hmmm.

Uppblásni krókódíllinn fékk að koma með heim, ídeal innpökkun fyrir líkjörsflöskurnar. Auðvitað þurftum við að hlaða þeim í lest, ekki má maður koma með slíkt í handfarangri lengur.

Kvöddum húsið með söknuði, frú Ersilia húseigandi kom að kveðja okkur. Eigum bókað eftir að fara þangað aftur, þetta var tótal snilld.

Kveiktum á talstöðvum og gps tækjum og út á vegina.

Sáum eftirstöðvar skógarbruna, þorp sem hafði þurft að tæma og nakin tré á hæðum. Ekki fallegt.

Finnur tuggði bílveikityggjó en það dugði tæpast til, hann þurfti að loka augunum og einbeita sér til að verða ekki verulega óglatt aftur. Sem betur fer var ekki mjög langt niður á autostrada, um leið og við komumst þangað hvarf bílveikin eins og skot.

Allir orðnir sársvangir, ákveðið að stoppa á næsta autogrilli. Líklega væri hægt að gera góðan bissniss með því að setja upp hvíldarstaði meðfram autostrada á Ítalíu. Eitthvað á milli 80-100 kílómetrar frá því við komum inn á autostrada (byrjunin á þeim vegi, við Adríahafsströndina) og þar til við komum að fyrstu vegasjoppunni. Fáránlegt. Til að kóróna það var sjoppan álíka stór og bensínstöðin á Þingeyri (nei, ég er ekki að ýkja), kannski heldur fleiri að afgreiða en ekki margir. Vorum óratíma að fá að kaupa okkur samlokur og gos, fyrst þurfti að fara að borðinu til að athuga hvað væri til, þá í röð við kassa til að borga og síðan aftur að borðinu til að láta hita fyrir sig. Hefði getað farið að gráta þegar ég hugsaði til ótrúlega flotta Autobahnveitingahússins rétt fyrir utan Stuttgart.

Uppgötvaðist síðan þegar við komum út aftur að það var víst hægt að keyra undir veginn að einhverjum fleiri (og örugglega betri) veitingastöðum, en fullseint, samlokurnar brögðuðust sem betur fer ágætlega.

Aftur af stað, keyrðum undir risastórt fjall, sem heitir Corno Grande, Fundum síðar út að það er víst hæsta fjall í Appennínafjallgarðinum. Tókum mynd af því á vélina hennar Fífu, (okkar neitaði að opnast þennan dag og næsta, sandkorn í linsu) en þar sem hún finnur ekki snúruna í vélina verður mynd að bíða betri tíma.

Komum svo til Rómar, allir dauðþreyttir og enginn nennti að fara inn í bæ. Eftir að hafa keyrt með líf í lúkum hringveginn um Róm í átt að hótelinu (ég var nærri búin að keyra niður mótorhjólamann sem keyrði fram úr mér hægra megin, þegar ég var á leið út af hraðbrautinni, snyrtilega búin að gefa stefnuljós og allt, eins og ég nefndi hér um daginn), fundum við mótelið. Það reyndist snyrtilegt og fínt, þægilegt lobbí, ágætis bar og fínt veitingahús, loftkæling (reyndar ekki mjög hraðvirk, en virk þó) á herbergjunum ásamt fleiru. Svona átján sinnum betra en fjögrastjörnuhótelið þarna fyrst. Grrr!

Óli, Kristín og dæturnar skutust í verslanasamstæðu sem þau höfðu séð glitta í á leiðinni (keyptu tösku fyrir okkur, ágætt, mun ódýrara en að borga yfirvigt) en við hin slökuðum bara á, ákváðum að hittast snemmkvölds og fara á veitingastað hótelsins.

Hann reyndist bara líka svona ljómandi góður. Við Jón Lárus pöntuðum okkur meðal annars djúpsteikt kúrbítsblóm, rétt sem við höfum oft heyrt um en aldrei prófað, var ekki smá gott. Smjörsteikt spínat ekki síðra sem meðlæti með grillaða kálfinum (en ekki hvað?)

Rúm hljómaði vel, allir fóru snemma að sofa, þar sem við ætluðum að vera komin á flugvöllinn þegar hann opnaði, klukkan 5 (skv. hótelstarfsmanni). Hrúguðum úr þyngstu töskunum yfir í þá nýju (verst hvað hún var aaaaagalega illa úr litasjétteríngu við hinar töskurnar okkar…)

sofa.

Full-time

Suzukimamma, það er það sem ég verð næstu dagana.  Námskeið í Hafnarfirði, yngri krakkarnir taka þátt og Fífa verður að aðstoða.  Ég er meira að segja með lyklavöld, sé fram á að vera hér frá 8-18 alla daga (urrg, verð að reyna að athuga hvort ekki er hægt að breyta því eitthvað).

Krakkarnir verða að spila og syngja og í alls konar leikjum og dóti allan daginn, þokkalega þétt dagskrá.  En lítur bara vel út.

mínu hlutverki

á Kirkjulistahátíð lokið, það er að segja sem flytjanda. Tónleikarnir gengu fínt, heyrði óminn af brass/slagverksverki Helga Hrafns og svo var okkar verk. Held það hafi gengið mjög vel í áheyrendur, að minnsta kosti var klappað og hrópað á eftir.

Á laugardaginn kemur (menningarnótt) verður hins vegar frumfluttur sálmurinn sem ég var að flýta mér að semja áður en ég fór í Skálholt í júlí. Nánari fréttir af því þegar nær dregur, hugsa ég.


bland í poka

teljari

  • 375.416 heimsóknir

dagatal

ágúst 2007
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa