Þessi sjón mætti mér þegar ég vaknaði:

ekki sem verst.
Tókst nú samt að sofna aftur.
Þennan síðasta dag í Le Marche gekk nokkuð stór hópur okkar stíginn upp í Montefalcone. Það var heitt, en þolanlegt, Jón Lárus var aftur vatnsberi, passaði nokkurn veginn að þegar við komum upp var tveggja lítra flaskan búin, og þó hafði verið skammtað sopi og sopi. Get svo sem ekki alveg sagt að ég geti ímyndað mér hvernig væri að vera vatnslaus í eyðimörk, en þyrstur var maður nú samt.
Tæplega hálfa leið uppeftir var Maríuskrín, hvar ferðamenn voru hvattir til að stoppa. Við gerðum það að sjálfsögðu:

Svona leit síðan húsið út, séð frá skríninu:

Loksins uppi á hæð, ætluðum í ísbúðina (ís, meira vatn og kannski smá bjór), nema hvað hún var bara lokuð. Settumst samt fyrir framan, sjá til hvort frúin myndi ekki mæta. Stelpan í apótekinu uppfrá kom og tók í hurðina, fann að var lokað, horfði á okkur og hvarf síðan handan við horn. Hafði greinilega séð aumur á okkur og farið að sækja konuna á pöbbnum, því hún birtist eftir smá, eiginlega frekar fúl, bara. En við fengum að kaupa okkur ís, mesta furða hvað var gott úrval af ís í þessari pínulitlu sjoppu, 3 stór plaköt með tegundum og það var bara eitt sem við bentum á sem var ekki til.
Sátum þarna dágóða stund, áður en við drifum okkur niður aftur.
Svo var skotist í síðustu búðarferðina, aðallega keyptar drykkjarvörur (mér tókst að kaupa koffínlaust kók, þvílík mistök. Reyndar er það skárra en allar hinar gervikóktegundirnar, enda alvöru sykur).
Sól og sund eins og vanalega, fram að kvöldmat. Fórum í Le Logge, fínan veitingastað sem okkur hafði verið bent á, aðeins rúma 5 kílómetra frá húsinu. Þar fengum við einn albesta mat ferðarinnar, 4 mismunandi forrétti, hér er einn:

og svo grigliata mista í toppklassa.

Desert fyrir þá sem vildu, kaffi og koníak fyrir aðra og svo keyrt heim (við Jón Lárus höfðum bæði fengið okkur rauðvín, þannig að Þorbjörn skutlaðist aukaferð með okkur fjölskylduna)
Á leiðinni heim stoppuðum við og tókum mynd af dauða snáknum sem Jón hafði fundið í hlaupatúr dagsins:

Nýlegar athugasemdir