Þennan dag var allavega til almennilegur morgunmatur. Safi, jógúrt, brauð, skinkur og Bel Paese ostur (nammi).
Ákváðum að keyra niður á strönd, ekkert vitandi hvar góða baðströnd væri að finna. Ein af ástæðunum fyrir hótelvalinu var einmitt að vera mitt á milli strandar og Rómar. Sóttum bílinn inn á læsta bílastæðið (ahh, loftkæling í bílnum) og keyrðum af stað í vesturátt. Tók svona 20 mínútur af sikksakki þar til við fundum þessa fínu litlu lókal baðströnd ekki langt frá Lido d’Ostia.
Buslað og legið í sólbaði og lesið í svona 2-3 tíma. Ég gerði þau stórkostlegu mistök að gleyma að bera sólarvörn á bakið á mér. Ekki gott, lá mestan tímann á maganum að lesa. Og þegar maður fer að sjá roðann er náttúrlega allt of seint að hætta. Úff. Gat ekki sofið á bakinu í margar nætur. Vill til að ég sef aldrei á bakinu.
Talsvert auðveldara að rata heim, þar sem Jón Lárus hafði tekið gps punkt á hótelið á hlaupagarminum, skemmtilegt að keyra eftir honum.
Keyptum eitthvað sem við héldum vera Aloe vera gel í apóteki, það reyndist vera drykkur, 100% Aloe vera. Hundleiðinlegt að bera það á sig, lak út um allt, en hugsa að það hafi bjargað miklu með restina af ferðinni.
Moskítómælirinn bóndi minn fann út að það væru flugur á ferli, allavega ein en með einbeittan brotavilja. Varð verra síðar.
Dagurinn endaði úti á hótelsvölum með frizzante í glasi og bók í hönd. Ekki verst. Hér sést útsýnið af okkar fimmtuhæðar svölum:
0 Responses to “Terzo giorno”