Sarpur fyrir 12. maí, 2007

dómur

snilldardómur um tónleikana í Mogganum í dag. Tek mér bessaleyfi og birti hann bara:

Babl í bátinn
Einsöngstónleikar

Verk eftir Tubin, Rakhmaninoff, Janson/Erikson, Macmillan og Smith. Jón Nordal: Óttusöngvar á vori. Hallveig Rúnarsdóttir S, Sverrir Guðjónsson KT, Lenka Mátéova orgel, Sigurður Halldórsson selló og Frank Aarnink slagverk. Sönghópurinn Hljómeyki u. stj. Magnúsar Ragnarssonar. Sunnudaginn 6. maí kl. 17.

VORTÓNLEIKAR Hljómeykis voru undir formerkjum 20. aldar tónsköpunar. Fyrstu fimm verkin voru frekar stutt, hæg og innhverf en engu að síður fjölbreytt. Ave Maria eftir baltneska tónskáldið Eduard Tubin (d. 1982) var sungið við kyrrlátan orgelundirleik, en hið örstutta en fallega drottinsávarp Rakhmaninoffs að söngvahefð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Tebe pojem, sat meira eftir í krafti laglínudýrðar. To the mothers in Brazil eftir Lars Janson í úts. Gunnars Erikson var sveipað dapurt seiðandi salsa-blæ er Frank Aarnink fleytti áfram með smekklega lágværum slætti á arabíska bardúku.

A Child’s Prayer eftir Skotann James Macmillan (f. 1959) var alsett löturhægum en safaríkum hljómaklösum og skartaði m.a. tærum tvísöng nafnanna Hildigunnar Rúnars- og Halldórsdætra. Nútímakóreffektar kváðu enn fastar að í Sound Canticle on Bay Psalm 23 eftir Gregg Smith (f. 1957) f. kór og söngkvartett, t.a.m. sköruð „bergmál“ í dreifðri kóruppstillingu og hópkliður – fyrir utan allsvæsna klasa er leiddu hugann að sálmasöng á sýrutrippi. Engu að síður allt sungið delicatissimo eins og vera bar, og tandurhreint.
Að lokum var flutt hið mikla og krefjandi verk Jóns Nordal frá 1993 við latneska messutexta og leiðsluljóð Matthíasar Johannessen, Óttusöngvar að vori; samið fyrir kór, tvo einsöngvara, selló, slagverk og orgel. Hljómeyki fór hér á kostum í innilegri en vandvirkri túlkun, og himinháar einsöngslínur Hallveigar Rúnarsdóttur og dramatískur kontratenór Sverris Guðjónssonar ásamt íhugulum sellóinnskotum, kosmísku slagverki og freyðandi orgeli hnykktu enn á tjáningarmætti verksins. Höfundur var viðstaddur og hylltur við hæfi að leikslokum.
Ekki varð annað heyrt en að Hljómeyki og stjórnandi þess væru í toppformi, eins og gleggst mátti greina á veikustu stöðum – þrátt fyrir kornabarnsbabl utan úr sal sem gerði hlustendum og hljóðupptökumönnum lífið leitt. Slíkt er því miður ekki einsdæmi, og væri óskandi að tónelskir foreldrar þekktu betur sinn vitjunartíma.
Ríkarður Ö. Pálsson

Farin niður í Ráðhús

að kjósa. Hvet mína kæru lesendur til að kjósa samkvæmt sannfæringu í dag.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

sagan endalausa