Sarpur fyrir 3. maí, 2007

plöggið heldur áfram, ójá

Ég bara verð að benda fólki á tækifæri til að heyra verk sem ég tel vera besta kórverk samið hér á landi, fyrr eða síðar.

Hljómeyki heldur tónleika til heiðurs Jóni Nordal áttræðum og flytur þar Óttusöngva á vori. Þetta verk er annað tveggja sem hefur hreinlega hrært mig til tára við fyrstu heyrn, svo áhrifamikið var það. Ég vona að okkar flutningur verði ekki síðri en sá, og get að minnsta kosti lofað því að fólk verði ekki svikið af því sem það heyrir.

Jón Nordal er tónskáld sem ætti skilið að vera þekktur langt út fyrir landsteina og verður það vonandi fyrr en síðar. Það þarf kynningu til og Jón hefur ekki verið þekktur fyrir að vera ýtinn á sjálfan sig eða sín verk.

Kórinn hefur fengið úrvals hljóðfæraleikara og söngvara til að vinna með sér, Hallveig Rúnarsdóttir og Sverrir Guðjónsson syngja einsöng, Lenka Mátéová, Sigurður Halldórsson og Frank Aarnink leika á orgel, selló og slagverk. Magnús Ragnarsson stjórnar.

Einnig flytjum við styttri verk eftir James Macmillan (hann átti einmitt hitt verkið sem ég grét yfir á tónleikum), Rachmaninoff, Eduard Tubin, Gregg Smith og fleiri. Fjölbreytt og vonandi forvitnileg efnisskrá.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, sunnudaginn 6. maí næstkomandi, klukkan 17.00 Miðaverð 1500, en 500 fyrir nemendur, eldri borgara og öryrkja. Ókeypis fyrir börn 12 ára og yngri.

mein bruder

er með ágætis pistil í dag. Lesið endilega.

bingó

við Hallveig fórum í gærkvöldi (þeyttumst, eiginlega, hvor annarri seinni frá vinnu og börnum) á sýningu Hugleiks og Leikfélags Kópavogs á leikritið Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Þýðir víst lítið að plögga, þetta var síðasta sýningin, þar sem LK er að missa húsnæði sitt, í dag eru mættir þangað Pólverjar með hamra og sleggjur og kúbein og fleira, skv. formanni LK. (félagið er víst búið að fá inni annars staðar, en það næst ekki að setja þessa sýningu upp þar).

Kvöldið var mjög skemmtilegt, ég var sérstaklega hrifin af leikstjórninni, þvílíkt hugmyndaflug. Mér fannst reyndar síðasta Hugleikssýning sem ég sá enn betri (Systur, eftir Þórunni Guðmundsdóttur), aðallega vegna þess að leikritið sjálft var beittara og uppbyggingin betri, að mínu mati. En þetta var samt mjög fínt. Vinkonur okkar systra, Júlía og Erla Dóra stóðu sig stórvel, sem og aðrir leikarar í sýningunni.

Svo var meira að segja boðið upp á veitingar í lokin, þar sem þetta var síðasta sýning. Ekki verra.

Takk fyrir mig.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

sagan endalausa