Sarpur fyrir 5. mars, 2007

Friðrik V.

Hringdi fullseint til að panta borð á hinum rómaða veitingastað Akureyrar. Allt uppbókað. Gat þó skrapað borð fyrir okkur tvö klukkan 18.00 og yrðum að vera farin út klukkan 20.30. Well, þolum það, þar sem við vorum ekkert tímabundin, hvorki fram- eða aftur fyrir.

Mættum á slaginu 6, vel tekið á móti okkur. Settumst inn í hliðarsal með matseðla og fordrykk, flúðum reyndar fljótlega fyrir tvennum hjónum sem settust þar líka og kveiktu sér í íþróttablysum (þetta nýyrði heyrði ég fyrst í morgun, reyndar). Inn í ljómandi fallegan veitingasalinn, dempuð ljós í lofti og ullarmyndir á veggjum.

Þar sem við vorum frekar tímabundin fengum við okkur ekki heimsreisu Friðriks sjálfs, eigum slíkt inni fyrir næsta skipti (og það verður bókað næsta skipti) Eins og við er að búast á fínum húsum var borið fram brauð fyrir matinn, 4 tegundir, ylvolgt og bara fínt, þó prívat hafi mér fundist aðeins of margar tegundir með heilhveiti, ekki mikið fyrir það. Jón Lárus pantaði sér síðan nautalund með lerkisveppum og rauðvínssósu, ég heilsteikta gæsabringu með berjasoðsósu. Hvorttveggja mjög gott, sérstaklega bráðnaði nautalundin í munni. Ekki víst að við höfum bragðað svona gott nautakjöt nema ein steik sem ég held að hafi verið ættuð frá Paragvæ. Sló Argentínu langt út af kortinu. Kartöflukakan með nautinu var kannski síst spennandi meðlætið, annað sem fylgdi því var mjög gott, sérstaklega grilluð paprika, mikið lostæti. Með gæsabringunni voru (fyrir utan berjasoðsósuna sem var frábær) nokkrir baunabelgir, einn kirsuberjatómatur og rönd af mjög góðri kartöflumousse.

Með þessu drukkum við Clos des Jacobins, snilldarvín. Álagningin hefði getað verið meiri, vínið kostar 3500 krónur í Vínbúðum en var á tæp 5500 á staðnum, til samanburðar var líka til Brolio sem er eitt af okkar uppáhaldsvínum, kostar 1800 krónur í Vínbúðum en 4200 á staðnum (muni ég rétt), talsvert meira lagt þar á, sérstaklega miðað við upphafsverð.

Vínseðillinn er annars ágætur, hefði mögulega viljað sjá aðeins meira af fínni vínum þar inni, fullmörg vín sem eru á um 1500-1700 krónur í Vínbúðum, þó góð séu. Kampavínsseðillinn ekki alveg nógu spennandi heldur, hefðu mátt vera með heldur meira úrval þar.

Súkkulaðibúðingur (raunar frekar súkkulaðikaka með mjúkri miðju en búðingur) með hindberjasósu og vanilluís var mjög fínn eftirréttur, bragðið small allt hvert inn í annað. Espressobolli og konfektmolar ljómandi, sá hvíti sístur (en við erum ekki mikið fyrir hvítt „súkkulaði“ þannig að það þarf ekki að vera að marka) Glas af eftirréttavíni (soave, frá Bolla) olli örlitlum vonbrigðum en þar sem við völdum það sjálf og fengum meira að segja að smakka, getum við eiginlega tæpast kvartað. Vin santo sem stóð einnig til boða hefði örugglega verið bragðmeira. Það mætti alveg bjóða upp á Tokaji, þó sommelier staðarins vilji kannski ekki fara alla leið í fínustu sauternesvín.

All in all, frábært kvöld. Þjónustan ljómandi, eina sem við gátum fundið að henni var að á svona fínum stað væri meira viðeigandi að hellt sé í glös gesta í stað þess að flaskan og vatnskannan séu bara skildar eftir á borðinu. Hefði mátt bjóða meira brauð örlítið sjaldnar í staðinn.

Takk fyrir okkur 🙂


bland í poka

teljari

  • 373.923 heimsóknir

dagatal

mars 2007
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa