Sarpur fyrir 24. september, 2006

mætt

heim eftir fínustu Egilsstaða/Eiðaferð (nei, ég náði ekki Kárahnjúkum, lét minn góða rektor um þá í staðinn).

Tónleikarnir tókust mjög vel, áheyrendur náðu að verða jafn margir og söngvararnir, það er að segja ef við teljum klikkaða ljósmyndarann, tónleikahaldara og leigusöngvara með, hann söng sko ekki með í söngleikjalaginu með klappinu og stappinu og allri hinni leikrænu tjáningunni hjá okkur, settist þá niður og getur semsagt talist með áheyrendum.

En sem sagt, gekk fínt að syngja, ljómandi góður salur, búið að biðja okkur um að koma aftur að ári og aldrei að vita að það verði að veruleika. Kannski við förum þá ekki á fjalltíma, allir sem vettlingi gátu valdið í sveitinni voru víst á fjalli. Gistingin snilld, heldur þægilegri en síðast þegar við fórum austur, gistum þá á Eyjólfsstöðum hjá Ungu fólki með aðalhlutverk – (eða var það hausverk) og þar mátti sko hvorki reykja né drekka, allt svo voooðalega heilagt, ekkert þægilegt að komast inn í bæ og stemningen trykket eins og Daninn segir.

Héldum ljómandi aðalfund, sveimérþá ef okkur tókst ekki að veiða gjaldkera í stað þess gamla sem er búinn að vera skráður gjaldkeri þrátt fyrir að vera í námi í Kanada og hafa ekkert sungið með í tvö ár. Tókst líka að troða öllum kórnum í einhver hlutverk, nokkrir í heimasíðunefnd, skandall að kórinn eigi ekki heimasíðu, ekki einu sinni myspace svæði, fjölmiðlafulltrúi kosinn, búninganefnd og örugglega eitthvað fleira.

Kom heim til að uppgötva að lyklaborðið mitt er handónýtt, líklega borðið sem ég setti í uppþvottavélina hér fyrir svona einu og hálfu ári, hefur virkað fínt hingað til en það er nú svo sem ekki skrítið að eitthvað klikki í rafeindum eftir rúmlega hálftíma vatnsverk. Oh well, nýtt fer beint frá skattinum. Fattaði ekki fyrr en seint og um síðir að ég gæti nú stungið fermingargjöf barnsins í samband og bloggað, búin að vera bæði blogg- og ekki síður kommentaþyrst í dag. Kommentin bíða nú samt morgundagsins, klukkan fullmargt og langur dagur á morgun.

Örugglega að gleyma einhverju mjög merkilegu. Já, plögg um þriðjudaginn. Verða snilldartónleikar. Svo verður líklegast líka hægt að heyra þá á Draugasetrinu í október/nóvember, frábært að fá tækifæri til að flytja þetta svona oft. Spurning hvort við ættum að henda okkur í upptökur, ættum að kunna þetta þokkalega vel!


bland í poka

teljari

  • 375.038 heimsóknir

dagatal

september 2006
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa